16.03.1964
Neðri deild: 69. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í C-deild Alþingistíðinda. (2123)

160. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefur verið flutt á þremur þingum áður. Tilgangur þess er, eins og það ber með sér, að fella niður einkarétt Ferðaskrifstofu ríkisins til að reka ferðaskrifstofu fyrir erlenda menn, vegna þess að aðstæður hafa það mikið breytzt í okkar þjóðfélagi á undanförnum árum, að þessi einkaréttur verður ekki talinn eðlilegur lengur, heldur að fleiri aðilum verði leyft að annast þessa starfsemi, og það ætti að vera líklegt til þess að örva ferðamannakomur hingað til landsins. Eftir að þetta frv. hafði verið flutt á tveimur þingum, án þess að það næði þó fram að ganga, gerðist það, að hæstv. ríkisstj. setti sérstaka nefnd til þess að íhuga og endurskoða þessi mál öll, og starf þeirrar n. bar þann árangur, að á þingi í fyrra var lagt fram sérstakt frv. um þessi mál. Þetta frv. náði þó ekki fram að ganga, og þar sem það hafði ekki verið lagt fram, þegar allmjög var álíðið þingtímans, þá taldi ég rétt að flytja þetta frv. enn að nýju eða í fjórða skipti. Nokkru eftir að það var lagt fram í þinginu, lagði ríkisst,j. fram í Ed. frv. það, sem hafði verið til meðferðar frá henni hér í fyrra, en dagaði þá uppi. Ég tel líklegt, að það frv. ríkisstj. nái afgreiðslu frá Ed. og komi hér til meðferðar í þessari hv. d., og er þá ekki óeðlilegt, að þetta frv. verði athugað, jafnhliða því sem það frv. verður tekið hér til meðferðar. En að sjálfsögðu er ekki aðalatriði, hvaða frv. það er um þetta mál, sem samþykkt verður, heldur að sú breyting, sem hér er stefnt að, nái fram að ganga.

Ég tel svo ekki ástæðu til þess að þessu sinni að fjölyrða meira um þetta mál, en leyfi mér að leggja til, að því verði að umr. lokinni vísað til samgmn.

Hér næst á eftir á dagskránni er annað mál, sem er í beinum tengslum við þetta, og mun ég þess vegna ekki sjá ástæðu til þess að mæla sérstaklega fyrir því, heldur leyfi mér að leggja til við hæstv. forseta, að að lokinni umr. um það verði því einnig vísað til samgmn.