18.12.1963
Efri deild: 29. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í B-deild Alþingistíðinda. (214)

103. mál, náttúruvernd

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil aðeins segja það, að hæstv. menntmrh, hefur alls ekki með því, sem hann sagði áðan, sýnt fram á, að það sé nokkur sérstök nauðsyn til þess að afgreiða þetta frv. fyrir áramót, vegna þess að í náttúruverndarráði situr hæfur varaformaður, og hann getur auðvitað stýrt fundum þar og tekið ákvörðun um þetta málefni, sem fyrir liggur, þannig að þetta voru alls ekki nokkur rök. Og það er auðvitað alls ekki frambærilegt, að náttúruverndarráð eigi að segja til um það, hvort eða hvenær formaður er skipaður eða ekki og hvenær það vill starfa undir forsæti varaformanns, eins og líka náttúruverndarráð út af fyrir sig á ekki að segja til um það, hvort það sé þörf að hafa lögfræðing sem formann eða ekki. Það verður að meta eftir öllum aðstæðum, og þó að þeir séu náttúrlega kunnugir öllum aðstæðum og hafi vissa reynslu í þeim efnum, þá er þeirra álit í því efni ekki algilt. En aðeins þetta vildi ég láta koma fram, að hæstv. menntmrh, tókst ekki þrátt fyrir nokkuð langt mál að færa nein rök fyrir nauðsyn þess að afgreiða mál þetta með þessum óvenjulega hraða, sem hann fer fram á. Og auðvitað kemur það nú ekki til greina, að hv. Ed. fari að taka sér hv. Nd. sérstaklega til fyrirmyndar í því efni að afgreiða mál að lítt athuguðu máli.