18.12.1963
Efri deild: 29. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

103. mál, náttúruvernd

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. þm, sagði, að það væri ástæðulaust að skipa nýjan formann vegna þeirra mála, sem fyrir liggja, þar eð ráðið hefði varaformann. En ég vona, að mér verði ekki láð það, þó að ég vilji sýna náttúruverndarráði, þeim 6 meðlimum, sem nú starfa í ráðinu sem fullgildir meðlimir, þá kurteisi að verða við ósk um það að skipa fullgildan aðalformann í ráðið, þegar hinir 6 ráðsmennirnir telja, að það gæti orðið betra fyrir afdrif þess máls, sem það er sérstaklega núna að fjalla um, að ráðið sé fullskipað 7 aðalmönnum.

Ég legg mikla áherzlu á og kappkosta að hafa góða samvinnu milli míns ráðuneytis og þeirra nefnda og ráða, sem undir ráðuneytið heyra, og það er fyrst og fremst til þess að tryggja slíka góða samvinnu og verða við óskum 6 ráðsmanna, sem ég féllst á að flytja þetta frv. og óska eftir því við hv. Alþ., að það gerði breytingu á lögunum” í samræmi við óskir náttúruverndarráðs. Og ég vil fastlega treysta því, að hv. Alþ. sé ekki síður reiðubúið en menntmrn. til þess að verða við óskum náttúruverndarráðs og tryggja góða samvinnu þess við stjórnarráðið.