14.04.1964
Neðri deild: 78. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í C-deild Alþingistíðinda. (2160)

202. mál, vinnuvernd

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af seinni ræðu hv. 8, þm. Reykv. Hann nefndi tvennt, sem hann taldi að benti til þess, að ég hefði verið andvígur hagræðingarmálunum í íslenzku atvinnulífi. Það væri fyrst, að það hefði verið gerð einróma samþykkt á seinasta alþýðusambandsþingi um að fela núv. miðstjórn Alþýðusambandsins að leita eftir að gera rammasamning við vinnuveitendasamtökin um þar tilgreind verkalýðsmál, þungamiðju þeirra, og þessi rammasamningur væri ekki búinn að sjá dagsins ljós enn. Þar af leiddi , skilst mér, að ég væri sekur um andspyrnu við þetta mál. En ég verð að leyfa mér að bera hönd fyrir höfuð mér að þessu leyti og skýra frá, að nokkru eftir siðasta alþýðusambandsþing ritaði miðstjórn Alþýðusambandsins Vinnuveitendasambandi Íslands bréf og spurðist fyrir um afstöðu Vinnuveitendasambandsins til þessarar samningsgerðar og tilkynnti, að Alþýðusambandið væri reiðubúið til að hefja þetta starf og tilnefna til þess menn. Nokkru síðar barst jákvætt svar frá Vinnuveitendasambandinu um þetta, og nefnd var skipuð af hendi Alþýðusambandsins til þess að hefja þetta starf, og hef ég ekki neina ástæðu til að ásaka þá menn, sem frá þessum hvorum tveggja samtökum hafa starfað að málinu, þó að þeir séu ekki búnir að skila þessum rammasamningi enn þá af sér. En á mér hefur það ekki strandað, það er a.m.k. misskilningur.

Um þáltill., sem hv. þm. hefur flutt hér um samstarfsnefndir, er það að segja, að ég var í þeirri þn., sem um það mál fjallaði, og vissi um álit ýmissa forustumanna í íslenzkri verkalýðshreyfingu, sem höfðu farið erlendis og kynnt sér starf samstarfsnefndanna í nokkrum Evrópulöndum, og það var þeirra álit, þegar þeir komu heim, að samstarfsnefndirnar í stærri fyrirtækjum með nokkur hundruð manna kæmu að gagni og hefðu innt af hendi þarft verk, en í smáfyrirtækjum væri þetta lítt eða ekki framkvæmanlegt og árangur hefði þar orðið næsta lítill. En alls staðar var lögð áherzla á það, að þetta fyrirkomulag, að koma á gagnkvæmum samstarfsnefndum, þyrfti að vera af frjálsum vilja beggja aðilanna og gæti spillt framgangi málsins að setja það á með lagaboði, án þess að aðilarnir væru því samþykkir. Þetta var mín afstaða í n., og hún hefur ekki heldur breytzt frá þessu fram á þennan dag.