19.12.1963
Efri deild: 31. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

103. mál, náttúruvernd

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. með fyrirvara, og ég vil af því tilefni segja hér nokkur orð um þetta mál.

Það má segja, að það hafi fallið í minn hlut að eiga nokkurn þátt í því upphaflega að lagasetning var gerð um náttúruvernd. Upphaf þess máls er það, að ég flutti till. í sameinuðu þingi fyrir allmörgum árum, ásamt Jóni Gíslasyni, þáv. þm. Vestur-Skaftfellinga og, sú till. var samþ. og afgr. sem ályktun Alþ. um að fela ríkisstj. að láta undirbúa löggjöf um náttúruvernd og verndun sögustaða. Framhald málsins var svo það, að þáv. menntmrh. Björn Ólafsson, fól Ármanni Snævarr og Sigurði Þórarinssyni að semja frv. til laga um þetta efni, og Finnur Guðmundsson fuglafræðingur starfaði með þeim að undirbúningi málsins. Þegar frv.-gerðinni var lokið, höfðu orðið stjórnarskipti, og hæstv. núv. forsrh., Bjarni Benediktsson, tekið við forstöðu menntmrn. í ráðuneyti Ólafs Thors, sem sat frá 1953–1956. Það féll í hlut núv. forsrh, að fylgja þessu máli úr hlaði hér á hv. Alþ. Afgreiðslu málsins var háttað þannig, að á fyrsta þinginu, sem þetta frv. var lagt fram, var það afgr. með rökstuddri dagskrá, þar sem kveðið var svo á, að senda skyldi frv. öllum sýslunefndum í landinu til umsagnar, áður en það yrði lögleitt. Þetta var síðan gert, og þegar umsagnir sýslunefndanna höfðu borizt ráðuneyti og síðan menntmn. Alþ. til athugunar, þá var málið lögfest.

Þetta mál var því ekki afgr. í neinu fljótræði, heldur athugað mjög gaumgæfilega, bæði á tveim þingum og eins leitað umsagna um það út í öll lögsagnarumdæmi á milli þinga. Við þessa athugun, sem málið fékk þá, kom engin till. fram um það að fella niður þetta ákvæði um, að formaður náttúruverndarráðs væri embættisgengur lögfræðingur. En skipan náttúruverndarráðs var samt breytt að einu leyti í meðferð málsins. í frv. upphaflega var gert ráð fyrir því, að Ferðafélag Íslands tilnefndi einn mann í stjórnina, en ekki Skógrækt ríkisins, en að till. menntmn. Nd. var þessu breytt, og þannig hefur skipan ráðsins verið öll þessi ár síðan.

Í aths. við frv. er það tekið fram, að það þyki nauðsyn bera til, að ráðið sá skipað einum lögfræðingi, þar eð oft reyni á lögfræðileg vandamál við úrlausnir þeirra mála, sem undir ráðið heyra. Er talið eðlilegt, að formaður ráðsins sé löglærður maður. Og í samræmi við þetta er það ákveðið í lögunum, að sýslumennirnir séu formenn náttúruverndarnefnda í sýslunum.

Í þessu frv. kemur fram alveg nýtt sjónarmið um þetta mál, að það sé eðlilegt að falla frá því skilyrði, sem í öndverðu var sett og fylgt hefur verið, um, að formaður náttúruverndarráðs sé löglærður maður. Vitanlega getur verið ástæða til þess um þetta mál eins og önnur að meta þetta að nýju og endurskoða það. En mér virðist, að þau rök, sem fram hafa verið færð, í sambandi við þetta frv., séu mjög ófullnægjandi. Það er sagt, að formaður hafi sagt af sér. Það virðist nú ekki vera brýn þörf á því að fylla það sæti nú alveg á næstu dögum, það mætti gefa sér tóm til þess að athuga þetta mál dálítið betur, vegna þess að varaformaður er til staðar til að gegna starfi í forföllum aðalmanns. (Gripið fram í: Ósjúkur?) Heill og ósjúkur, að því er bezt er vitað.

Þá er sagt, að það liggi fyrir til úrlausnar mál, sem náttúruverndarráð vilji ekki úrskurða, nema aðalmaður skipi formannssæti ráðsins. Þetta virðast mér haldlítil rök. Við gætum hér í hv. þd. kannske með sama rétti sagt, að við vildum ekki taka þátt í afgreiðslu vandasamra mála, ef varaforseti stjórnar fundi. Ég hef aldrei heyrt þess getið, að þm. settu það fyrir sig. Hann hefur forsetavald, þegar aðalforseti er fjarstaddur.

Þá vék hæstv. menntmrh. að því í ræðu sinni í gær, að þetta sérstaka mál, sem krefðist úrlausnar, snerti Skaftafell í Öræfum. Mér er það mál ekki alveg ókunnugt, en tel ástæðulaust að fara að fjölyrða um það hér úr þessum ræðustól. Það þarf þó ekki að vera neitt leyndarmál, að þetta mál hefur verið á döfinni í 2–3 ár, og það er ekki mál, sem hefur borið að núna síðustu dagana, og það er 1½ ár um það bil, síðan hæstv. menntmrh. ásamt nokkrum úr náttúruverndarráði skrapp austur að Skaftafelli einmitt í sambandi við þær umr., sem um þetta mál hafa orðið. Og það þarf ekki heldur að vera neitt leyndarmál, að bóndinn, sem á 2/3 hluta landareignarinnar í Skaftafelli, var hér í Reykjavík nokkrar vikur í febrúar og marz s. l. vetur til viðræðu um þetta mál. Og þá var það þegar komið á dagskrá hjá náttúruverndarráði, að það kynni að fást eitthvað af fé erlendis frá til að standa straum af kostnaði, þannig að þetta mál hefur ekki borið að núna alveg á síðustu dögum og þurfi að valda þessum hraða, sem nú virðist vera á þessu frv. Á hinn bóginn má benda á, að það er líka opið fyrir ráðh. að skipa nú þegar í formannssæti ráðsins, aðeins með því að fylgja skilyrðum laganna. Það er ekkert, sem hindrar það, og lögfræðingastéttin er afar fjölmenn, og þar eru margir góðir og gegnir menn. En að því er varðar Skaftafell og ef beita á því sem rökum í þessu máli, þá verður í sambandi við það að sýna fram á það, að úrlausn þess sérstaka máls verði betri en ella, ef lögfræðingur á ekki sæti í náttúruverndarráði. Og þetta leiðir einnig til þeirrar hugsunar, að það er ekki rétt að velja í formannssæti með tilliti til þessa sérstaka máls, heldur verður þá jafnframt að færa sönnur á það, að ekki verði síðar leyst verr úr neinu öðru máli vegna þess, að það vanti lögfræðing í náttúruverndarráð. Þetta hygg ég, að sé ákaflega erfitt að sanna. Þessar röksemdafærslur hæstv. ráðh. missa því gersamlega marks að mínum dómi.

Mér virðist, að það verði að meta þetta frv. eða málið eftir þeim verkefnum, sem náttúruverndarráði eru ætluð samkvæmt löggjöfinni í heild. Og þegar lögin voru sett, eins og ég hef bent á, var talið eðlilegt og sjálfsagt, að formaðurinn væri löglærður maður. Og vill nokkur halda því fram, að núv. háskólarektor, sem var aðalhöfundur frv., hafi misskilið svo gersamlega allt málið, að hann hafi ekki séð þetta rétt? Ef menn vilja ekki halda þessu fram, þá verður að benda á, að reynslan hafi sýnt annað, og sé svo, þá væri mjög vel farið, að frá því yrði skýrt í umræðunum. Ég fór því þess á leit í n., að afgreiðslu þessa máls yrði frestað nú um sinn og tóm gæfist til þess að athuga þetta mál nokkru betur en orðið er. En vitanlega geta komið til þær ástæður og sú reynsla, að það sé eðlilegt að meta þetta að nýju og þá alla löggjöfina í samhengi hvað við annað. En það er bara ekki hægt að gera á örstuttri stundu, og ég óttast það, að ákvæði, sem sett voru að mjög vel yfirveguðu ráði, athuguð gaumgæfilega á tveim þingum, — ég óttast það, ef þeim verður nú breytt í fljótræði að lítt athuguðu máli, að það kunni að leiða af sér ýmis vandkvæði, sem við sjáum ekki fyrir núna á þessari stundu. En þessi till. mín um að fresta afgreiðslu málsins og nefndin athugaði þetta allt betur í rólegheitum, hún fékk engan hljómgrunn í n. Málið skyldi ganga til úrslita nú þegar. Og þá, þegar svo er komið, vil ég ekki beinlínis beita mér gegn því, að þetta mál verði samþykkt. Þess vegna hef ég skrifað undir nál. En ég tel eiginlega óhjákvæmilegt og vil láta það koma hér fram, og í því er minn fyrirvari fólginn fyrst og fremst, að fyrst sú ákvörðun er nú tekin að breyta þessu um formann náttúruverndarráðs, þá sé eðlilegt, að það sé samræmi í löggjöfinni og að skilyrðið um það, að sýslumennirnir, héraðsdómararnir úti í lögsagnarumdæmunum, séu formenn náttúruverndarnefndanna, verði þá einnig fellt niður og það lagt á vald sýslunefnda eftirleiðis að kjósa 3 menn í náttúruverndarnefndir, og þá út frá þeirri hugsun, að þarna eigi frekar að starfa áhugamenn heldur en menn með sérfræðiþekkingu á lögum. En í samræmi við þá breytingu sýnist mér ef til vill, að það þurfi að gera fleiri efnisbreytingar á lögunum, þannig að ýmis úrskurðaratriði, sem liggja nú undir vald náttúruverndarnefnda og náttúruverndarráðs, þurfi þá fremur beint að heyra undir dómstóla. Nú sé ég engin tök á því að flytja svo víðtækar brtt. við þetta mál núna á þessari stundu og tek því þann kost að skrifa undir nál. með fyrirvara, mun eftir atvikum þá fylgja þessu eins og það liggur fyrir, en vek eftirtekt á, að hér er um nokkurt fljótræðisverk að ræða og að það kunni að kalla á meiri breytingar á þessum lögum innan skamms heldur en nú er stefnt að.