27.02.1964
Neðri deild: 62. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í C-deild Alþingistíðinda. (2194)

28. mál, sala Litlagerðis í Grýtubakkahreppi

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Eins og ég vék lítillega að með grg. við atkvgr. við 2. umr., hef ég nú flutt smábrtt. við þetta frv. á þskj. 313, og hún er í raun og veru í samræmi við það, sem ég held að ég hafi áður látið koma fram, að ég teldi óeðlilegt að miða heimild til sölu á jörðum ríkisins við tilteknar persónur, einstaka menn. Því hef ég lagt til á áðurnefndu þskj., að á eftir orðunum „sýslumanni Þingeyjarsýslu“ komi: eða öðrum, — og verður frv, þá, ef þessi breyting verður samþykkt, að almennri heimild til þess að selja þessa jörð.

Ég get fyllilega metið þann hugsunarhátt, sem fram kemur í grg. hjá flm. og sagður er liggja á bak við ósk sýslumannsins í Þingeyjarsýslu um að kaupa þessa jörð, að vilja hlúa að henni og gera henni til góða. Með umorðun á frv. eins og það er, þar sem þessu er ekki beinlínis breytt í almenna heimild, nafn sýslumanns sérstaklega í frv. áfram, þó að almennari heimild sé tekin með, þá er aðstaða til þess að kanna, hvort aðrir hafi áhuga fyrir kaupum á jörðinni, og það kann að hafa nokkra þýðingu í sambandi við þær verðhugmyndir, sem fram koma. Eins er ekki alveg útilokað, að nokkur breyting geti orðið á óskum eða vilja eins tiltekins manns til þess að kaupa jörð, þó að hún sé einu sinni fram sett, og ef svo væri, væri frv. tengt við hans eigið nafn ekki lengur um heimild til sölu jarðarinnar, ef hann gengi frá. Þetta eru aðalástæðurnar fyrir því, að ég hef leyft mér að flytja þessa brtt.