27.02.1964
Neðri deild: 62. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í C-deild Alþingistíðinda. (2195)

28. mál, sala Litlagerðis í Grýtubakkahreppi

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er ekki vegna þess, að ég hafi út af fyrir sig eitthvað sérstakt að athuga við söluna á þessari jörð frekar en öðrum þjóðjörðum, heldur hitt, að mér finnst tími til kominn, að það sé farið að stöðva þessa sölu þjóðjarða, og þess vegna tek ég hér til máls og flyt till. í sambandi við þetta. Að vísu bregður nokkuð út af með þetta frv., sem hér er, að venjulega hefur það verið svo, að þær þjóðjarðir, sem fram að þessu hafa verið seldar, hafa verið seldar sínum ábúendum, eða þá að þær hafa verið seldar til þess að leggja þær að einhverju leyti undir jörð þess bónda, sem býr þar næstur, og með hvoru tveggja þessu mætti þó segja, að það væri verið að halda þeirri reglu, sem raunverulega var undirstaðan undir sölu þjóðjarðanna, að það væru þeir menn, sem ynnu á jörðinni, sem ættu að eiga hana.

Ég held, að það sé tími til kominn, að Alþingi fari alvarlega að athuga sinn gang í sambandi við þessi mál. Það er að verða svo nú, sérstaklega þegar kynslóðaskipti eru nú að verða í landbúnaðinum, að það er að verða fullerfitt fyrir bændur og sérstaklega þó börn þeirra að taka við jörðunum með einstaklingseignarrétti á þessum jörðum, þegar um er að ræða t.d. allmörg systkini, og þá á að meta jörðina til fjár, kapítalísera hennar andvirði, þá er það venjulega svo, að eitt systkini hefur varla efni á að kaupa hana upp á að reisa þar bú. Ég veit þess dæmi, að þessir erfiðleikar eru miklir og það með jörð, sem ekki er mjög langt hér frá og liggur vel í sveit, mikil og góð jörð og mörg systkini, sem eiga þá jörð, og það systkinanna, sem helzt treystir sér til þess að taka við henni, rís ekki undir því að kaupa hana af hinum systkinunum. Jafnvel hin systkinin eru helzt á því að gefa þessu eina systkini jörðina, vegna þess að þeim er ljóst, að eigi að fara að reikna jörðina með í fjármögnuðu verði, ef ég má nota það orð, sem sé kapítalísera það, þá er það ofvaxið, þá er það of mikil byrði fyrir þann bónda, sem á að vinna á jörðinni, að eiga að borga af henni vexti og annað slíkt.

Það er að verða þannig, að það er að verða lífsnauðsyn, til þess að búreksturinn þrífist og haldi áfram í landinu, að enginn bóndi þurfi að reikna sér neitt afgjald af þeirri jörð, sem hann býr á. Það er nógu erfitt fyrir hann að sjá um ræktunina þar, sjá um að koma upp húsum og halda þeim við. En jörðin sjálf á í raun og veru ekl:i að reiknast sem andvirði. Og þetta verður raunverulega ekki framkvæmt, þegar til lengdar lætur, með öðru móti en því, að það sé raunverulega þjóðin, sem eigi jarðirnar, en að bændurnir og þeir, sem búa á þeim, og þeir, sem vinna á þeim, hafi á þeim erfðaábúð endurgjaldslaust.

Ég segi þetta almennt, að þetta er það, sem við þurfum að athuga, vegna þess að þetta er það, sem bændurnir eru að komast í vandræði með núna, einmitt þegar kynslóðaskipti fara að verða, þegar þeir bændur, sem hafa unnið og þrælað á sínum jörðum í 30—40 ár, eiga að fara að afhenda þær til sinna eftirkomenda og eftirkomendurnir rísa ekki undir að eiga að taka þar við, m.a. vegna einstaklingseignarréttarins á jörðinni. Þetta á svo sem ekki að vera neitt nýtt fyrir okkur. Þetta var það, sem framsýnustu bændur Íslands sáu fyrir 1910—J920, þegar auðvaldsskipulagið var að halda sína innreið á Íslandi og þegar þess vegna var við búið, að brask mundi færast í jarðirnar. Það var engin tilviljun, að hjá framsæknustu bændum á Íslandi þá kom upp kenning eins og jarðnæðiskenningin. Það var engin tilviljun heldur, að maður eins og Helgi í Þykkvabæ gefur þá sínum hreppi sinar jarðir með því skilyrði, að þær — gangi í erfðaábúð til hans afkomenda, ef þeir vilji þar búa, en megi aldrei veðsetja jarðirnar, til þess að hindra þannig, að það verði nokkurn tímaveðskuld á jörðunum og að jarðirnar geti þess vegna orðið metnar til fjár og lent í greipum bankanna. Og þeir, sem hafa setið hér á þingi nokkurn tíma, muna máske eftir því, þegar lagafrv. kom hér um það að breyta þessu gjafabréfi Helga í Þykkvabæ með lögum frá Alþingi til þess að það mætti veðsetja þá jörð. Ég gerði þá fyrir mitt leyti aths. við það og lagði áherzlu á, að þessi framsýni bóndi hefði séð fyrir fram þá þróun, sem mundi verða, og hve erfitt það mundi verða fyrir þá bændur, búendur á jörðunum, að eiga að standa undir þeim, þegar búið væri að fjármagna þeirra andvirði og ætti að fara að gjalda vexti og afborganir af því fé, sem þannig væri reiknað að fælist í því.

Ég held þess vegna, að það sé tími til kominn í fyrsta lagi, að við stöðvum sölu á þjóðjörðum vegna framtíðarinnar og vegna bændanna og búum um leið þannig um hnútana, að ríkið reynist betri jarðardrottinn en það hefur gert, bæði ódýrari og betri, og skapi meira öryggi handa þeim, sem á jörðinni vilja búa. Ég held jafnframt, að það ætti að fara að stefna að því, að ríkið kaupi upp aliar þær jarðir, sem nú fara í eyði, þær jarðir, sem nú eru í eyði, og þær jarðir, sem koma til með að fara í eyði nú á næstunni, og það séu þjóðjarðir, sem ekki megi selja. Hvernig er að verða með þessar jarðir núna, þegar allmargar jarðir eru að fara í eyði? Ef bónda langar til að láta sín börn taka þarna við, er hann oft í hreinustu vandræðum með þetta, eins og ég gat um áðan. Sé enginn þarna, sem vill taka við, er um tvennt að ræða: Annaðhvort að gömlu hjónin reyna að hjara á jörðinni eins lengi og hægt er að þræla sér þar út, vera í mestu vandræðum með það, í staðinn fyrir að þau hefðu einmitt átt að fá að losna við þessa jörð og jafnvel að ríkið kaupi hana af þeim og geri þeim mögulegt að flytja burt, þau væru búin að þræla nógu lengi á þessari jörð. Ef svo hins vegar það er einhver lækjarspræna þarna, sem einhver silungur eða lax er í, þá er undireins kominn auðmaður úr Reykjavík og býður í jörðina 700 þús., 900 þús., 1 millj., 1.2 millj., — ef jörðin á allt í einu að fara að verða leikfang fyrir auðmennina úr Reykjavík, þá er komið nægilegt fé, þó að ekki sé fé til þess að halda áfram búskap á jörðinni, til þess að rækta þar, — ef hún á að verða leikfang fyrir ríkan mann úr Reykjavík, þá er undireins hægt að setja fé í hana.

Menn þekkja flestir þessi dæmi, ég þarf ekki að nefna þau. En við skulum gera okkur hitt ljóst, að um næstu aldamót verður allt, sem ræktanlegt er á Íslandi, ræktað milli fjalls og fjöru. Þó að ástandið sé þannig í dag, að menn séu að flýja sveitirnar, þá skulum við ekki halda, að sú þróun haldi áfram. Það er eins og hvert annað öfgakennt fyrirbrigði auðvaldsskipulagsins í dag, að menn skuli ekki rækta alla þá jörð, sem hér er. Það er bara einn þáttur í því vitlausa skipulagi, að það skuli vera til í veröldinni, að um 2000 millj. manna á jörðinni, 2/3 mannkynsins, skuli skorta mat, en jörð sé látin liggja óræktuð. Það er bara eins og hvert annað skipulagsvandamál í mannfélaginu, sem vafalaust verður ráðið fram úr á næstu áratugum. Ístand verður ræktað milli fjalls og fjöru um árið 2000, ef ekki fyrr, allt það, sem ræktanlegt er. En gagnvart þeim, sem eiga að rækta þetta þá og standa þarna dálítið betur að vigi en við gerum að sumu leyti, þó að margt hafi okkar kynslóð gott gert í þessum málum og unnið stórvirki miðað við aðrar kynslóðir, þá skulum við gera okkur ljóst, að það mundi létta þeirri kynslóð, sem nú fer smám saman að verða að taka við þessu, að leysa þessi vandamál, ef jarðirnar eru ekki komnar ýmist í brask eða algerlega í eyði.

Ég held þess vegna, að það væri holi stefna, að við athuguðum að kaupa þær jarðir, sem nú eru í eyði. Ég býst við, að það sé ekki sérstaklega dýrt í svipinn. Ég býst við, að það sé mjög praktískt fyrir ríkið að kaupa þessar jarðir í dag, einmitt í dag, sé mjög ódýrt, það sé ekki nema lítill hluti af því, sem fleygt er í uppbót, annaðhvort til sjávarútvegs eða landbúnaðar, sem kallað er, að kaupa allar eyðijarðir á Íslandi. Ef einhverjum finnst miðbærinn hérna í Reykjavík dýr, og ég býst við, að mönnum finnist það nokkuð, ef ætti að kaupa lóðirnar hérna í Reykjavík í dag, það eru nokkur hundruð millj., en hvað kostuðu þær um aldamótin? Þær kostuðu svo að segja ekki neitt. Og hvað haldið þið, að eyðijarðir á Íslandi í dag, jafnvel í miðri byggð, meira að segja í Fljótshlíðinni, og hérna nær okkur eru jarðir að fara í eyði núna, — hvað haldið þið, að þær muni kosta um næstu aldamót? Nei, við eigum alvarlega að athuga það að kaupa þær jarðir, sem eru að fara í eyði, og þær, sem eru komnar í eyði, og geyma þær, geyma þær hara ósköp rólega. Við höfum efni á því, og það verður þakkað fyrir það seinna. Meira að segja álít ég, að ætti helzt að kaupa þær líka, sem lax og silungur er í, því að það er hreinasta ómynd að gera þær ár, þar sem hægt er að hafa nógan lax og silung með almennilegu klaki, að einhverju sporti eingöngu fyrir örfáa menn, ég tala nú ekki um útlendinga. Það er hægt að hafa lax og silungsræktina á Íslandi eins ágóðavænlegan búskap og sauðfjárrækt, ef það er hugsað eitthvað um að rækta, rækta lax og rækta silung, og ekki til sports, ef íþróttasjónarmiðið er ekki látið ráða eða sumarfríasjónarmiðið. Ég held þess vegna, að í staðinn fyrir, að við hættum að líta á þetta sem leikföng og við lítum á það sem búskap, þá sé það ein bezta fjárfesting, sem íslenzka ríkið gæti gert í dag, að kaupa upp allar þær eyðijarðir, sem nú eru til á Íslandi, og þær, sem koma til með að fara í eyði. Og það mun létta fyrir þeirri kynslóð, sem nú er að taka við og kemur til með að vilja vinna á þessum jörðum, að geta fengið þær frá ríkinu endurgjaldslaust að láni og fengið þær í erfðaábúð, ef þeir vilja, eins og ætti að vera.

Ég vil þess vegna leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að þessu frv. verði vísað frá með rökstuddri dagskrá, og ég orða þá dagskrá þannig, ég fel ekki í henni þær hugmyndir, sem ég hef verið að setja fram í þessari ræðu, ég tók þær fram eingöngu til þess að menn vissu, hvað fyrir mér vakti, en ef hugsanlegt væri, að menn gætu orðið sammála um þetta, þá hef ég orðað þessa dagskrá svona:

„Þar eð deildin álítur, að eigi beri að selja fleiri þjóðjarðir nema þá máske ábúendum, felur hún ríkisstj. að láta fram fara athugun á því annars vegar, hve margar þjóðjarðir eru enn óseldar, og hins vegar, hve margar jarðir í einstaklingseign eru í eyði eða að fara í eyði, og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég segi fyrir mitt leyti, ég er á móti og hef alltaf verið á móti þjóðjarðasölu, en hins vegar veit ég, að það eru margir hér, sem eru því fylgjandi, að þjóðjarðasala sé framkvæmd, þegar um er að ræða ábúendur, og því hef ég sett það þarna inn í. Ég veit, að ríkisstj. þarf ekki nema fletta upp í sínum bókum til þess að vita, hve margar þjóðjarðir eru enn óseldar, en hins vegar það, hve margar jarðir eru í einstaklingseign og komnar í eyði eða eru að fara í eyði. Það er nokkuð í athugun. En ég held, að þessa athugun ættum við einmitt að biðja hæstv. ríkisstj. að framkvæma fyrir okkur og að þetta lægi fyrir okkur til umr., áður en við gerum fleiri ráðstafanir í þessu efni. Ég skal taka það fram, að þetta miðast ekki að neinu leyti sérstaklega við þetta dæmi, sem hér er nm að ræða, ég met fyllilega þá ræktarsemi og slíkt, sem þar kemur fram, en þegar einu sinni væri búið að selja þá þjóðjörð, þó að sá maður, sem þarna vill kaupa hana, geri henni allt til góða og annað slíkt, þá er sama vandamálið með hana, þegar búið er að því og þegar einhver á að fara að taka við af honum, ef nokkur yrði til þess að taka við þeirri jörð á eftir, þannig að ég vil eingöngu „prinsipialt“ leggja þetta fyrir til þess að vita, hvort ekki væri hægt að fá samkomulag um, að við athuguðum okkar gang, áður en fleiri þjóðjarðir yrðu seldar.