04.11.1963
Efri deild: 9. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í C-deild Alþingistíðinda. (2209)

54. mál, landamerki o.fl.

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um breytingar á 8. og 9. gr. landamerkjalaga, nr. 41 frá 1919. Það er svo, að samkv. þeim ákvæðum, sem nú eru í 9. og reyndar einnig 8. gr. landamerkjalaganna, er gert ráð fyrir því, að laun merkjadómsmanna og ferðakostnaður þeirra sé greiddur af aðilum máls. Þetta er alger undantekning frá því, sem nú gildir í dómsmálum, því að samkv. almennum reglum þar um eru laun dómenda greidd af almannafé. Aðalbreyting sú, sem felst í þessu frv., er sú, að felld er niður 7. og 8. málsgr. 9. gr. landamerkjalaganna um þetta efni, en í þeim ákvæðum felst þessi regla, sem ég drap á, að kaup og ferðakostnaður merkjadómsmanna greiðist af þessum aðilum, og að í stað þeirra tveggja málsgreina komi 7. málsgr. í 2. gr. þessa frv., þar sem segir: „Kaup meðdómsmanna í merkjadómi og ferðakostnaður dómenda greiðist úr ríkissjóði.“

Eins og menn mundu sjá, ef þeir litu t.d. í dómasafn hæstaréttar, þá eru það oft verulegar upphæðir, sem aðilum landamerkjamáls er í merkjadómi gert að greiða vegna þessara fyrirmæla um kaup og ferðakostnað merkjadómsmanna. Og vegna þeirra skýru lagaákvæða, sem um þetta eru í merkjadómslögunum, mun hæstiréttur ekki hafa talið sér fært að breyta slíkum málskostnaðarákvæðum í dómum merkjadóms, þó að málskostnaður fyrir hæstarétti fari svo í þessum málum að sjálfsögðu eftir almennum reglum.

Til samræmis víð þessa meginbreytingu, sem í frv. felst, er svo einnig gerð nokkur breyting á 8. gr. laganna.

Auk þessarar breytingar um málskostnaðinn er gerð smávegis breyting á 2. málsgr. 8. gr. Það er nú svo, að í lögunum segir: „Ef lönd liggja hvort í sínu lögsagnarumdæmi, ákveður ráðherra, í hvoru þeirra skuli farið með málið.” Þetta hefur í framkvæmdinni verið skilið svo, að það væri atvmrh., sem ætti að taka þessa ákvörðun. Eðlilegra virðist, að það sé dómsmrh., sem tekur ákvörðun um slíkt, og því er sett þarna inn : dómsmrh. Að öðru leyti er aðeins um orðalagsbreytingar að ræða.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál, en legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og til allshn.