05.11.1963
Efri deild: 10. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í C-deild Alþingistíðinda. (2212)

55. mál, framleiðnilánadeild

Flm. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Á þskj. 56 hef ég ásamt þremur öðrum hv. þdm. Framsfl. leyft mér að flytja frv. um það, að stofnuð verði sérstök lánadeild, sem hafi það hlutverk að veita framleiðsluatvinnuvegunum lán umfram þau, sem fáanleg eru hjá hinum ýmsu stofnlánadeildum, í því sérstaka augnamiði að stuðla að sem mestri aukningu á framleiðninni með hættri véltækni og fullkomnara framleiðsluskipulagi.

Lífskjör þjóðanna mótast af þeim framleiðsluafköstum, sem þær hafa í atvinnulífi sínu á hvern starfandi mann. Ef við litum til þess lands, þar sem afköstin í atvinnuvegunum eru mest, í Bandaríkjum Norður-Ameríku, þá vekja hin feikilegu framleiðsluafköst strax athygli okkar, ekki bara í þeim greinum, sem menn koma strax auga á, eins og fjöldaframleiðslu bifreiða og tækja, heldur einnig í öllum öðrum greinum. Með nýyrði, sem nú er að ryðja sér mjög til rúms, heitir þetta, að framleiðnin sé mikil. En framleiðnin er það nettó-vinnsluvirði, það nettóverðmæti, sem verður til við framleiðsluaðgerðina, deilt með tölu þeirra vinnueininga, sem í það eru lagðar.

Framleiðni hér á landi er vafalaust mjög mikil í fiskveiðum. Engin þjóð mun veiða ,jafnmikinn fisk á hvern starfandi fiskimann og við Íslendingar. Miklu meiri vafi leikur á því, hvort framleiðni er mikil í fiskiðnaði, og ýmsir hafa í samanburði t.d. við Noreg dregið það í efa. Í sumum greinum annars iðnaðar en fiskiðnaðar, t.d. greinum, sem hafa byggzt upp í skjóli óeðlilegrar tollverndar, er framleiðnin ábyggilega lítil, en í ýmsum öðrum greinum iðnaðar er hún tvímælalaust meiri en margir gera sér grein fyrir.

Það hefur oft verið á það bent, að nú er þannig ástatt hér á landi, sérstaklega þessi árin, að það er sérstök ástæða til þess fyrir okkur að leggja höfuðáherzlu á að auka framleiðnina. Barátta allra stétta fyrir auknum tekjum ber vott um þá þörf, sem er í þjóðfélaginu fyrir meira til að skipta. Að óbreyttri framleiðni getur ein stétt tæplega bætt kjör sín nema á kostnað annarra, nema þá með auknu vinnuálagi, sem auðvitað er engin framtíðarlausn á vandanum. Aukningu vinnuálagsins eru takmörk sett, og til lengdar verður framleiðsluaukningin að leysa vandann, sem leiðir af aukinni tekjuþörf þjóðarinnar.

Á undanförnum árum hefur tvímælalaust á einstökum sviðum átt sér stað mikil framleiðniaukning. Og þá kemur fyrst í hugann hin nýja síldveiðitækni, sem flotinn hefur tileinkað sér á seinni árum, og kannske mætti líka nefna fleiri einstakar atvinnugreinar, sem þó hver um sig hefði miklu minni þýðingu, þar sem framleiðni hefur batnað. En þegar á heildina er litið , er ástæða til þess að ætla, að framleiðniaukningin í íslenzku þjóðfélagi á undanförnum árum hafi ekki verið mikil.

Ef ég tók rétt eftir í umr. í hv. Nd. nú fyrir nokkrum dögum, þá upplýsti hæstv. forsrh., að aukning þjóðarframleiðslunnar mundi á þessu ári væntanlega verða um 4% og á árinu sem leið um 5%, og þetta er ekki meira, þrátt fyrir það að mikil aukning hefur verið í framleiðni við síldveiðarnar, eins og ég gat um, og þrátt fyrir töluvert mikla fólksfjölgun, því að eins og við vitum, þá fjölgar fólki hér á Íslandi meira en víðast eða alls staðar annars staðar í nágrenni við okkur. Af þessari ástæðu og kannske fleirum virðist mér ástæða til að ætla, að framleiðniaukningin í íslenzkum atvinnuvegum hafi á undanförnum árum ekki verið nægileg.

Það er skoðun okkar flm. þessa frv., að það sé nauðsyn sérstakra átaka í þessum efnum. Og til þess að takast megi að komast vel áleiðis, þurfa ýmis skilyrði að uppfyllast.

Ég vil þá í fyrsta lagi nefna bætta tækni- og verkmenntun í landinu. Við hrósum okkur með réttu af því, Íslendingar, að þekking og kunnátta almennings hér á landi sé á háu stigi, og vissulega eigum við líka á fjölmörgum sviðum ágæta kunnáttumenn í tæknilegum og verklegum efnum. En á hinn bóginn er ljóst, að það vantar fleiri. Málefni, sem að þessu lúta, hafa lengi undanfarið verið í endurskoðun, tæknimenntun og iðnmenntun í landinu, og niðurstöður af þeim athugunum hafa að vísu dregizt úr hömlu, enda er verkefnið sjálfsagt umfangsmikið og erfitt viðureignar.

Það var fyrir nokkrum árum samþ. á hv. Alþingi till. um það, að safnað yrði skýrslum um þörf íslenzkra atvinnuvega fyrir sérmenntað fólk. Eftir því sem ég veit bezt, hefur slík athugun þó ekki átt sér stað eða tillagan ekki komið til framkvæmda, og gerði hæstv. menntmrh. grein fyrir ástæðum til þess í sambandi við fyrirspurn, sem var borin fram í Sþ. fyrir nokkrum árum, og skal ég ekki rekja það frekar, en mér virðist sem full þörf væri á, að slík athugun færi fram.

Í öðru lagi vil ég í þessu sambandi nefna aukna leiðbeiningaþjónustu um framleiðsluhætti, framleiðsluskipulag og hagræðingu. Á þessu sviði hefur á undanförnum áratug verið unnið merkilegt og gott starf á vegum Iðnaðarmálastofnunar Íslands. Sú stofnun hefur beitt sér fyrir námskeiðum og leiðbeiningum, m.a. námskeiðum, sem haldin hafa verið eftir ákvörðun Alþ. um verkstjóranámskeið, og einnig standa fyrir dyrum á vegum þeirrar stofnunar námskeið trúnaðarmanna vinnuveitenda og verkalýðsfélaga í sambandi við ýmsar nýjungar í samskiptum þeirra aðila. Starf Iðnaðarmálastofnunar Íslands á þessu sviði, þó að það hafi verið mikið og gott, þá hefur það á undanförnum árum verið lamað af skorti á sérfræðingum og af þeim deilum, sem verkfræðingar hafa átt í við ríkisstofnanir og fleiri vinnuveitendur. Þetta starf þarf að sjálfsögðu að efla, og skal ég ekki ræða það frekar.

En í þriðja lagi þarf til þessarar viðleitni mikið fjármagn, og að þeim þætti þessa vandamáls lýtur það frv., sem hér er lagt fram. Það þarf tvímælalaust til þessa mikið fjármagn, en spurningunni um það, hvað mikið, skal ég ekki gera hér tilraun til þess að svara. Það er sjálfsagt erfitt að spá um það eða reikna það út, hversu mikil fjármagnsþörfin í þessum sérstaka tilgangi er. Hinu má gera sér nokkra grein fyrir, hver fjármagnsþörfin í uppbyggingu íslenzkra atvinnuvega yfirleitt hlýtur að verða á næstu árum, og í áætlunum, sem fyrir liggja um það, er gert ráð fyrir því, að árleg fjárfesting í atvinnuvegunum verði nokkuð á annað þúsund og sennilega mikið á annað þúsund milljóna á ári hverju.

Auðvitað væri æskilegt, að sem allra mest af þeim framkvæmdum, sem fyrir það fjármagn yrðu gerðar, væri þess eðlis, að þær féllu undir tilgang þessara laga, en þetta lagafrv. gerir ekki ráð fyrir meira fjármagni en svo, að það getur aðeins verið til lausnar litlu broti af þessum vandamálum. Hins vegar er lánadeildin, sem hér um ræðir, viðleitni í þá átt að veita nokkurn forgangsrétt þeim framkvæmdum, sem mest stuðla að aukningu framleiðninnar, m.a. með því að lána hærri hluta kostnaðar við framkvæmdirnar en aðrar lánastofnanir gera.

Það er skoðun okkar flm., að lánsféð til þessara hluta eigi að koma frá þjóðarheildinni. Hér er verkefni, sem þjóðin öll á mikið undir, að vel takist til um. Það er gert ráð fyrir tæpum þriðjungi af fé deildarinnar sem framlögum úr ríkissjóði, eða 10 millj. kr. á ári í 10 ár, en gert er ráð fyrir, að tvöföld sú upphæð komi að láni af sparifé þjóðarinnar, sem er í vörzlu Seðlabankans á hverjum tíma, auk annarra lána, ef nauðsyn krefur og ástæður leyfa.

Það er skoðun okkar flm., að Seðlabankinn hafi ýmsa möguleika til þess að tryggja sölu þeirra bréfa, sem hér um ræðir. Seðlabankinn hefur undir höndum mörg hundruð millj. kr. af sparifé landsmanna á frjálsum og bundnum reikningum banka og annarra innlánsstofnana, og það er enn þá í gildi heimild handa honum til þess að binda hluta sparifjárreikninganna. Framsóknarmenn í Nd. hafa í frv. sínu um vaxtalækkun o.fl. lagt til, að sú heimild falli niður, að því er tekur til sparifjáraukningar, eftir samþykkt þess frv., en eins og grg. þess ber með sér, er tilgangur þeirra að koma í veg fyrir tilgangslausa frystingu sparifjár þjóðarinnar, en jafnframt lýsa þeir þeim vilja sínum, að sparifénu sé beint inn í þá farvegi, þar sem nauðsyn þjóðarheildarinnar fyrir féð sé mest. Enn fremur er í 12. gr. l. um Seðlabankann heimild fyrir Seðlabankann til að láta banka og sparisjóði kaupa ríkistryggð skuldabréf, og með hóflegri og skynsamlegri beitingu þeirra ákvæða mætti einnig fá fé til þessara kaupa, sem um ræðir í 2. tölul. 3. gr. En æskilegast væri auðvitað, að um það gætu tekizt frjálsir samningar milli Seðlabankans og þeirra aðila, sem bréfin keyptu.

Það er gert ráð fyrir að ráðstafa þessu fé í gegnum sérstaka lánadeild í Framkvæmdabankanum. Verkefnin ná inn í alla atvinnuvegi, og það er því óeðlilegt að tengja þessa starfsemi þeim bönkum, sem tengdir eru einstökum atvinnuvegum. Svo virðist einnig sem Framkvæmdabankanum hafi m. a. verið ætlað svipað hlutverk þessu, enda virðist hann hafa gert sér far um að sinna því ásamt öðru, sem hann hefur á sinni könnu, og er þess vegna eðlilegt að fela honum þetta verkefni.

Flm. gera sér ekki vonir um svo skyndilegan árangur af þessari viðleitni, að hér sé að finna neina lausn þess vanda, sem steðjar að okkur þessa daga. En þó að verkefni dagsins séu brýn, þá verðum við einnig að horfa til framtíðarinnar, og verkefnin á því sviði, sem þetta frv. fjallar um, eru mikil á næstu árum. Í sambandi við breytingar á tollalöggjöfinni og í sambandi við umræður um hugsanlega þátttöku Íslands í alþjóðlegu tollasamstarfi hafa farið fram víðtækar athuganir á vegum ríkisstj. og á vegum hagsmunasamtaka iðnaðarins og annarra aðila á þeim vandamálum, sem slík þróun mundi skapa innlendum iðnaði.

Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða það, að þeir aðilar, sem um þessi mál hafa fjallað, munu vera sammála um, að iðnaðurinn verði að aðlaga sig nýjum viðhorfum með því að gera öflugt átak til þess að auka framleiðni sína, og til þess að það megi takast, verður að fara fram umfangsmikil endurskipulagning fyrirtækja og jafnvel heilla iðngreina til þess að koma á fullkomnari framleiðsluaðferðum, bættri véltækni og meiri vinnuhagræðingu.

Sömu sögu er raunar að segja af öðrum atvinnugreinum eða svipaða. Ég skal aðeins geta þess, að forustumenn á sviði saltfiskframleiðslu hafa látíð þess getið við mig, að auknum vinnukostnaði mundi að vísu vera hægt að mæta með aukinni framleiðni í vinnustöðum þeirra, en þeir hafa jafnframt sagt, að til þess þyrfti að leggja töluverðan stofnkostnað í hagkvæmar vélar og tæki, endurbætur á vinnuskilyrðum o.s.frv., og þess vegna gerðu þeir varla ráð fyrir, að unnt væri að búast við, að slík vinnutækni yrði almennt tekin upp á skömmum tíma með núverandi vöxtum og skorti á hagkvæmum lánum til slikra endurbóta.

Ég hef nú rætt um efni þessa frv. og tilgang flm. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða frekar einstakar gr. frv., þær fjalla um fyrirkomulagsatriði og framkvæmdaatriði, sem ég geri ráð fyrir að eðlilegt þyki að skoða í þeirri n., sem væntanlega fær þetta frv. til meðferðar. Ég skal þess vegna, herra forseti, ekki lengja mál mitt, en legg til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.