21.11.1963
Efri deild: 16. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í C-deild Alþingistíðinda. (2216)

73. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Í raun og veru gerist ekki þörf á að segja mörg orð um þetta mál hér, vegna þess að það lá fyrir síðasta þingi og var þá rætt frá ýmsum hliðum. En ég tel þó rétt að víkja örfáum orðum að frv. aftur nú með hliðsjón af þeirri ræðu, sem hv. 1. flm. flutti hér áðan.

Það er að sjálfsögðu enginn ágreiningur okkar í milli um það, að það ber brýna nauðsyn til þess að efla sem mest stofnlánasjóði landbúnaðarins, því að efling þeirra er að sjálfsögðu undirstaða að uppbyggingu í sveitum landsins, sem okkur öllum hlýtur að koma saman um, að ekki aðeins fyrir landbúnaðinn, heldur þjóðarheildina, sé hin brýnasta nauðsyn. Ég tel því ekki þörf á, að við séum að ræða mikið þá hlið málsins. Það, sem hlýtur því að vera sú spurning, sem við þurfum að svara hér, er, hvort það frv., sem hér liggur fyrir, stefni í þá átt að bæta aðstöðu landbúnaðarins með stofnlán umfram þau lög, sem nú eru í gildi. Sé svo ekki, hefur frv. enga raunhæfa þýðingu. Og ef undan er skilin 5. gr. frv., sem ég mun gera sérstaklega að umtalsefni, og raunar 6. gr. þess líka, sem er þó ekki stórvægilegt mál, þá er það í stuttu máli sagt mín skoðun, að frv. stefni ekki í þá átt að bæta aðstöðu stofnlánadeildar landbúnaðarins. frá því, sem hún er samkvæmt gildandi lögum. Það er gert ráð fyrir því í rauninni, að sú breyting ein gerist hér, sem að vísu getur horft til nokkurra bóta til að byrja með, að yfirteknar séu þær skuldir, sem á stofnlánadeildinni hvíla, og að öðru leyti sé lögfest árlegt framlag úr ríkissjóði. Eins og stofnlánadeildarlögin eru hins vegar upp byggð, er gert ráð fyrir tekjuöflun, sem byggist á því verðlagi, sem er á landbúnaðarvörum á hverjum tíma, og tekjur deildarinnar fara því mjög hækkandi, eftir því sem verð landbúnaðarafurða hefur hækkað. Nú t.d. á þessu hausti hefur það hækkað mjög verulega, þannig að hlutfallsleg aukning verður þá að sama skapi á tekjum stofnlánadeildar landbúnaðarins. Það má að vísu segja, að það sé æskilegt, að sú þróun verði í þjóðfélaginu næstu árin, að jafnmiklar sveiflur þurfi ekki að vera á verðlagi og verið hafa. En líkur eru þó til þess, að búast megi við einhverri verulegri hækkun árlega, og a. m, k. eins og lögin eru úr garði gerð, beinlínis tryggja þau stofnlánadeildina með það að fá auknar tekjur, eftir því sem verðlag landbúnaðarvara hækkar, og þá má auðvitað gera ráð fyrir því um leið, að því sé samhliða aukning á byggingarkostnaði, þannig að einmitt þessi tekjuaukning verði sérstaklega brýn, þegar slíkar sveiflur eru.

Ég hygg því, að ef við lítum aðeins á hina peningalegu hlið málsins, þá sé með núgildandi lögum um stofnlánadeildina mjög sæmilega séð fyrir uppbyggingu stofnlánadeildarinnar og á farsælli hátt en gert er ráð fyrir í þessu frv., þar sem gert er ráð fyrir að lögfesta ákveðið árlegt framlag ríkissjóðs, án þess að það taki nokkrum breytingum miðað við verðbreytingar. Hv. flm. sagði að vísu í lok síns máls, að hann væri til viðræðna um að semja um aukin framlög. Ég hygg, að hann viti það nákvæmlega eins vel og ég, að þessi máti, sem hér er upp tekinn, er vægast sagt ákaflega billegur, að leggja til, að allt sé borgað úr ríkissjóði. Það er hlutur, sem yfirleitt vill brenna við, að stjórnarandstaða á hverjum tíma leggi sig fram um að gera, og þeir hv. þm., sem að þessu hafa staðið, hafa ekki verið eftirbátar annarra um það, að öll útgjöld, sem nauðsyn reynist á hverjum tíma að leggja í, skuli borguð, svo sem er vinsælt orðatiltæki orðið í þeirra herbúðum nú, af almannafé. Þetta vitum við auðvitað allir, að er ekki raunhæf úrlausn vandamála, að gera það á þann einfalda hátt að leggja til, að ríkissjóður greiði þetta allt af hendi, þegar svo jafnhliða yfirleitt er uppi mjög rík andstaða gegn því, að ríkissjóður fái nokkrar auknar tekjur, eins og við þekkjum einnig, að yfirleitt er alltaf um að ræða, þegar koma fram einhverjar till. um það efni, að þá

er gegn þeim snúizt. Ég skal ekki nánar út í þá hlið málsins fara, en þetta er sem sagt hin ódýra lausn manna, sem þurfa ekki að bera ábyrgð á afgreiðslu fjármála ríkisins, að hafa þennan hátt á, og ég er svo sem ekki að sýkna aðra um það, að þeir hafi ekki á einhverjum tímum haft einhverjar svipaðar ódýrar úrlausnaraðferðir til þess að leysa vandann.

Ég hygg því, að það sé nánast sagt tómt mál að tala um, að það sé einföld aðferð til að leysa þennan vanda að hækka aðeins framlagið frá ríkissjóði. Málið er miklu flóknara en það, eins og við allir áreiðanlega vitum. En eins og frv. er úr garði gert, er það skoðun mín ákveðið, að það tryggi ekki, nema síður sé, hag stofnlánadeildarinnar frá því, sem nú er. Það má því segja, að það, sem gæti réttlætt þetta frv., væri fyrst og fremst sú hlið málsins, hvort það ætti að breyta um tekjuöflunaraðferðir, og hv. frsm. kom inn á hað, að hann teldi brýna nauðsyn bera til þess að létta af bændum því gjaldi, sem þeir nú bæru, og leysa vandann á þann hátt að láta ríkissjóð leggja alla þessa fjármuni fram.

Við vitum auðvitað, að það hefur verið mikið deilumál um búvörugjaldið. Bændur hafa að sjálfsögðu, eins og yfirleitt allir, sem gjöld eiga að borga, verið því mjög andvígir að þurfa að greiða það. Við því er ekkert að Segja. En ég held jafnframt, að æ fleiri bændur geri sér grein fyrir því, að með þeirri löggjöf, sem sett var um stofnlánadeild landbúnaðarins, þar sem þetta búvörugjald var einn þátturinn, hafi verið lagður mjög mikilvægur hornsteinn að uppbyggingu íslenzks landbúnaðar, sem eigi eftir að verða bændastéttinni til mikilla heilla. Og ég fullyrði það, eins og öllum þeim málum er háttað, að það hefði ekki verið auðið að tryggja það mikla aukna fjármagn, sem tryggt var með þessari löggjöf, ef ekki hefði verið að því horfið að leggja á þetta búvörugjald. Með því móti var þessi stofnlánasjóður byggður upp á þann hátt, sem eðlilegt verður að teljast, að hann var byggður upp sem samhjálp allra aðila, sem málið varðar, almannasjóður með framlagi ríkissjóðs, sem er mikill meiri hl., framlagi frá framleiðendum og framlagi frá neytendum. Með samsteypu þessara þriggja úrræða var þetta vandamál leyst, og ég held leyst á þann hátt, að það hefði ekki verið auðið að gera það á skynsamlegri máta. Ég er því ákveðið þeirrar skoðunar, að a.m.k. eftir því sem árin líða, þá muni þeim röddum fækka, sem halda fram þeirri kenningu, að það beri að afnema þessa skipun mála, því að við vitum, að það er ekki hægt að leysa málin með þeim einfalda hætti að leggja allt þetta á ríkissjóðinn. Það koma auðvitað margir aðilar á eftir með sams konar kröfur.

Við höfðum hér til meðferðar á síðasta þingi frv. um uppbyggingu iðnlánasjóðs, sem mjög hefur verið vanhaldinn að fé, allt frá því að hann tók til starfa. Og þá var farið inn á nákvæmlega sömu braut sem gert var með stofnlánadeild landbúnaðarins og það beinlínis eftir beiðni iðnrekenda sjálfra, að leggja á iðnaðarframleiðsluna sérstakt gjald til að byggja upp þann sjóð, og í sambandi við það gjald var ekki gert ráð fyrir því hliðstæða framlagi frá ríkissjóði á móti, eins og gert er ráð fyrir í lögum

um stofnlánadeild landbúnaðarins. Hv. frsm. sagði, að það gjald væri allt annars eðlis en stofnlánadeildargjaldið, vegna þess að það er beinlínis tekið fram í 1., að iðnaðurinn megi reikna þetta gjald með í öllum tilkostnaði og verðlagningu. Þetta er alls ekki rétt, og það var beinlínis tekið fram, þegar þetta frv. var hér til meðferðar, af hálfu frsm. um það mál, að það bæri að líta á það gjald nákvæmlega með sömu augum og þetta gjald til stofnlánadeildar landbúnaðarins, að það væri ekki reiknað með í tilkostnaði vörunnar við verðlagningu. Ég veit, að hv. þm. man mætavel eftir þeim umr. öllum, því að hann er fróður maður og fylgist vel með, og undrar mig því, að hann skuli halda því gagnstæða fram, að það sé beinlínis tekið fram í l. Um skipan stofalánasjóðs sjávarútvegsins er sama að segja. Það eru að vísu mikla stórfelldari kvaðir, sem þar er um að ræða, og sá sjóður er eingöngu byggður upp af sjávarútveginum sjálfum. Það getur vafalaust verið ágreiningsefni, að hve miklu leyti sjávarútvegurinn verður beint að standa undir því gjaldi án þess að bera nokkuð úr býtum til að mæta því eða ekkí. Sjávarútvegurinn er háður erlendu verðlagi og það fer nokkuð eftir atvikum um það, hvort hann getur fengið það uppi borið eða ekki. En það þýðir ekki fyrir hann að koma með neitt reikningsdæmi um það, að hann eigi að fá það greitt. Ef það eitt út af fyrir sig ætti að koma til álíta sem rökstuðningur fyrir því, að hann fengi einhverjar ráðstafanir sér til handa, þá þykir mér harla ólíklegt, að það yrði tekið sérstakt tillit til þess. En fyrr kemur í rauninni ekki til álíta að meta það, hvort á það gjald yrði litið öðrum augum en gjaldíð til stofnlánadeildar landbúnaðarins.

Það er því alveg augljóst mál, og það hefur verið skoðun mikils meiri hl. aðila, sem þar að hafa unnið, að uppbygging stofnlánasjóða atvinnuveganna einmitt með þessum hætti væri eðlileg, og þar hefur landbúnaðurinn enga sérstöðu umfram aðra atvinnuvegi. Það má náttúrlega segja sem svo, að það væri hægt að byggja upp alla sjóði á þann hátt, að það væri eingöngu með lánsfé. Þá auðvitað byggist aldrei neinn sjóður upp, vegna þess að þeim lögmálum hefur verið fylgt í okkar þjóðfélagi og það réttilega, að lán úr stofnlánasjóðum hafa verið veitt með lægri vöxtum en á hinum almenna lánámarkaði hverju sinni, þannig að það hefur verið útilokað að byggja upp nokkra stofnsjóði, ef ekki hefði átt að sjá þeim fyrir eigin tekjustofnum. Og þeir, sem hafa áhuga á því að hafa sem lægsta vexti á stofnlánum landbúnaðarins, hljóta að hafa áhuga á því um leið, að sjóðurinn eignist það mikið eigið fé, að hann verði þess umkominn að standa undir einhverjum vaxtahalla.

Ég tel nauðsynlegt, að það komi skýrt fram, til þess að það villi ekki hugmyndir neinna um þetta mál, að enda þótt sú ráðstöfun hefði verið gerð að létta af stofnlánasjóðum landbúnaðarins gengismuninum, þá hefði sú ráðstöfun alls ekki nægt til þess að byggja upp með nokkrum skynsamlegum hætti stofnlánasjóð landbúnaðarins, þannig að það hefði verið óumflýjanlegt, ef menn á annað borð bera fyrir brjósti að byggja þennan stofnlánasjóð upp nauðsynlega öflugan, að gera engu að síður ráðstafanir til nauðsynlegrar fjáröflunar og aukinna eigin tekna þessa sjóðs, þó að gengisfellingar hefðu aldrei átt sér stað. Gengisfellingarnar voru mikið óhapp fyrir stofnlánasjóði landbúnaðarins, og má þó kannske segja, að fátt er svo illt, að ekki fylgi nokkuð gott, að þessar gengisfellingar og þau geysilegu vandræði, sem úr þeim urðu, hafi þó leitt til þess, að þetta mál var tekið fastari tökum en það hefur nokkru sinni áður verið tekið og leitt af sér löggjöf, þar sem gerð hafa verið stærri átök til eflingar stofnlánum landbúnaðar en nokkru sinni áður hafa verið gerð.

Ég skal að öðru leyti ekki ræða nm gengisfellingarnar og hugleiðingar hv. frsm. um þær. Ég get ekki veríð honum algerlega sammála um rökstuðninginn fyrir því, sem hann þar sagði. En það gagnar lítið í þessu máli að vera að rifja það allt upp aftur, það eru margrædd öll þau atvik, bæði með og móti. En þetta tel ég nauðsynlegt að komi fram í málinu, til þess að menn geri sér grein fyrir, að það eitt út af fyrir sig hefði alls ekki leyst það mikla vandamál, sem hér er við að glíma. Auk þess var annað atriði, sem var orðið lítt viðráðanlegt stofnlánasjóðunum, og það var hinn geysilegi vaxtahalli, sem gerði miklu meira en éta upp öll framlög ríkisins árlega til þessara s,jóða, og sá vaxtahalli hefði að sjálfsögðu aukizt, eftir því sem árin liðu, og hefði þurft að taka fleiri lán, því að lán þurfti að taka, eins og menn vita, á hverju einasta ári, þá hefði þessi vaxtahalli orðið stöðugt tilfinnanlegri og að síðustu hlotið að leiða til hreins öngþveitis fyrir þessa stofnlánasjóði.

Um vextina skal ég ekki heldur margt ræða. Það er eins og hv. þm. sagði, það er ágreiningsmál, ekki aðeins varðandi vexti stofnlánadeildar landbúnaðarins, heldur vaxtamálin yfirleitt, og þetta frv. og vaxtaákvörðun þess verður auðvitað að skoða út frá till. hv. framsóknarmanna um vaxtamálin almennt, því að ef svo væri ekki, væri að sjálfsögðu þetta frv. eða ákvarðanir þess um vextina hrein endaleysa, því að það mundi á örstuttum tíma gera stofnlánadeildina algerlega gjaldþrota, sá óskaplegi vaxtahalli, sem yrði, ef það yrði gert ráð fyrir, að þetta frv. yrði samþ., án þess að vaxtabreytingar yrðu gerðar almennt. Það var hins vegar rétt, sem hv. frsm. sagði, að vextirnir af stofnlánunum út af fyrir sig hafa ekki svo ákaflega mikla þýðingu fyrir landbúnaðinn, vegna þess að þeir eru reiknaðir með til mats á verðlagsgrundvellinum, og ég hygg satt að segja, að það hafi ekki verið mikið, sem á milli bar með vextina við ákvörðun verðlagsgrundvallarins að öðru leyti en hvað snertir vexti af eigin fé. Og það er í sannleika sagt, hygg ég, mál, sem snertir okkar atvinnulíf almennt, það vandamál, að hve miklu leyti menn fá vexti af eigin fé, sem þeir leggja í atvinnureksturinn. Það mál er að sjálfsögðu allt annars eðlis en spurningin um að fá uppi borna eða reiknaða til kostnaðar alla vexti af lánsfé.

Ég skal fúslega taka undir það með hv. frsm., að vissulega væri það góðra gjalda vert að efla enn meira stofnlánadeildina, og öllum raunhæfum till. í þá átt mun ég fúslega ljá mitt lið til að þoka áleiðis. En eins og ég sagði í upphafi míns máls, þá sýnist mér ekki, að þetta frv. út af fyrir sig stefni í þá átt að bæta fjárráð stofnlánadeildarinnar eða styrkja undirstöðu hennar til frambúðar, heldur hljóta það að vera önnur sjónarmið, sem þar koma til álita, og eru meira með pólitískum blæ heldur en að leggja grundvöll að aukinni starfsemi stofnlánadeildanna.

Um 5. gr. frv. varðandi veðdeildina er um nokkuð annað mál að ræða. Það er alveg hárrétt hjá hv. frsm., að veðdeildin hefur verið fjárþrota, hefur alla tíð verið það, og það má segja, að það hafi allir sömu sök um það, ef sök skyldi kalla, að hafa vanrækt veðdeildina alla tíð. Það er alveg rétt. Þegar greiðsluafgangi var ráðstafað til stofnlánasjóða landbúnaðarins, varð veðdeildin yfirleitt alltaf að verulegu leyti útundan. Og vil ég engum sérstökum kenna það. Þetta er aðeins staðreynd málsins, sem við allir þekkjum. Það er hins vegar mjög brýn nauðsyn að efla veðdeildina, og eins og mönnum er kunnugt, er í l. um stofnlánadeildina heimild til þess, að stofnlánadeildin kaupi skuldabréf veðdeildar Búnaðarbankans fyrir allt að 10 millj. kr. á ári. Það er sú tala, sem gerðar hafa verið ályktanir nm á búnaðarþingum t.d., að nauðsynlegt væri að tryggja veðdeildinni til árlegra útlána. Nú kann vel að vera, að það sé nauðsyn, að það verði meira miðað við þá verðlagsþróun, sem hefur verið, en þetta er þó sú tala, sem nefnd hefur verið og mundi að sjálfsögðu stórkostlega bæta hag veðdeildarinnar til að veita jarðarkaupalán, ef hún hefði öruggar tekjur, sem næmu 10 millj. kr. á ári, eða beint lánsfé, sem því nemur. Ég hefði haldið, að það mundi vera heppilegra til úrlausnar vandamáli veðdeildarinnar að byggja á því lagaákvæði, sem þar er um að ræða, og reyna að afla fjár með þeim hætti, þ.e.a.s. að efla svo fjárhag stofnlánadeildarinnar, að hún geti orðið þess umkomin að kaupa vaxtabréf veðdeildarinnar að þessu marki. 50 millj. kr. lán til veðdeildarinnar hefur að sjálfsögðu enga raunhæfa þýðingu í einu lagi og væri á engan hátt heppilegt, heldur eðlilegra, að slík fjáröflun dreifðist á nokkur ár. Það er vafalaust ekkert, sem hindrar það, og naumast ætlun flm., að farið væri að taka slíkt lán í einu. En ég sé ekki, að með þessu ákvæði í frv. sé í rauninni lagður neinn traustari grundvöllur að fjárhag veðdeildarinnar en hann er í l. um stofnlánadeildina, ef hægt verður að uppfylla ákvæði þeirra laga. Það er í fyrsta sinn á þessu ári, enda er þetta fyrsta heila árið, sem stofnlánadeildin starfar, sem þessi heimild hefur verið notuð að vissu marki, þannig að stofnlánadeildin hefur keypt fyrir 6 millj. kr. vaxtabréf veðdeildarinnar, og það gerði auðið að hækka veðdeildarlánin mjög verulega nú fyrri hluta þessa árs, og það hefur nokkurn veginn verið hægt að leysa þá fjárþörf, sem hér hefur verið um að ræða, þó að auðvitað mætti segja, að í mörgum tilfellum væri þörf á, að þessi lán væru hærri. En það hefur verið hægt að sinna flestum þeim umsóknum, sem á annað borð hefði verið bankalega séð nokkur leið að líta við, með þessu fé. Þetta er þó engan veginn nægilegt, miðað við heils árs starfsemi, þannig að ég teldi, að það væri nauðsynlegt, t.d. á næsta ári, að það væri hægt að kaupa bankavaxtabréf veðdeildarinnar fyrir þá upphæð, sem stofnlánadeildarlögin gera ráð fyrir, eða 10 millj. kr. En mér sýnist, að með þeirri ráðstöfun væri mjög bærilega séð fyrir fjárhag veðdeildarinnar.

Ég hef satt að segja ekki trú á því, að það komi mikið gott út úr því að fara að skylda banka til þess að veita tiltekið lán, eins og hér er gert ráð fyrir. Það var til gamalt lagaákvæði, sem vafalaust er kunnugt öltum hv. þdm., sem var í gildi í fjölda ára, að Seðlabankanum væri skylt eða Landsbankanum þá raunar, þá var enginn sérstakur seðlabanki, að kaupa veðdeildarbréf fyrir vissa fjárhæð á ári, ef ríkisstj. óskaði eftir því. Þessi heimild varð aldrei raunhæf, og ég held, að allír, sem að þeim málum stóðu, hafi gert sér grein fyrir því, að ekki væri til bóta að setja slíkt ákvæði, sem skyldaði banka til að leggja fram til ákveðinna lána tilteknar upphæðir, enda sé í rauninni ekkert vit í því, ef Alþingi ætlaði að fara að ákveða það með löggjöf að ráðstafa fé bankastofnana. Ég veit ekki, hvar það ætti að enda. Ég er því ákaflega hræddur um, að þetta ákvæði mundi vera, jafnóraunhæft hinu fyrra að þessu leyti. Þá er ég jafnframt mjög hræddur um, að það mundi hafa litla þýðingu að greiða bændum lán út í bankavaxtabréfum, því að hvernig í ósköpunum ættu þeir að selja slík bréf? Þessi bréf hlytu að verða með mun lægri vöxtum en eru á almennum lánamarkaði, og ég sé því ekki neina skynsamlega ástæðu til að halda, að nokkur aðili mundi vilja kaupa slík bréf, þannig að það væri beinlínis verið að blekkja menn með því að rétta þeim slík bréf upp í hendurnar. Mér sýnist því, þó að ég efi það ekki, að góður hugur liggur á bak við það að efla veðdeild Búnaðarbankans, og fullkomlega ber að virða allar hugmyndir, sem fram koma um það, þá er það mín skoðun, að þessi ráðstöfun sé ekki líkleg til þess að bæta úr því máli, heldur beri að leggja alla áherzlu á að framkvæma það ákvæði, sem er í stofnlánadeildarlögunum, að stofnlánadeildinni verði gert kleift að kaupa vaxtabréf veðdeildarinnar fyrir ekki mínna en 10 millj. kr. á ári hverju.

Varðandi 6. gr. frv. vil ég taka það fram, að það er hárrétt, sem hv. frsm. sagði, að þetta er vandamál, sem verður að leysa, varðandi kostnaðinn við þá nefnd, sem hann gat um, ráðgjafarnefnd um byggingar í sveitum. Sú nefnd hefur verið fjárvana. Í l. er ákveðið, að það skuli lagt til hennar fé úr ríkissjóði, sem aldrei hefur fengizt gert, og það er vissulega hin brýnasta nauðsyn, að með einhverjum hætti verði séð fyrir fé til að sinna þessum mikilvægu þörfum.

Ég skal svo ekki, herra forseti, orðlengja frekar um málið. Ég tek skýrt fram, að það ber að virða alla viðleitni í þá átt að efla stofnlánadeild landbúnaðarins og gera henni fært að sinna sínu mikilvæga hlutverki. En það er mín skoðun, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, leggi ekki grundvöll að því að bæta um frá því, sem þegar hefur verið gert með núgildandi lögum um stofnlánadeild landbúnaðarins.