21.11.1963
Efri deild: 16. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í C-deild Alþingistíðinda. (2217)

73. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Það er ekki ástæða til þess, að ég haldi langa ræðu til að svara hv. 6. þm. Norðurl. e., því að í ræðu hans komu ekki fram þau rök, sem í einu eða neinu hnekkja því, sem ég færði fram til stuðnings frv. okkar framsóknarmanna. Hitt er svo annað mál, að hann lítur á þetta mál í grundvallaratriðum frá nokkuð öðru sjónarmiði en við framsóknarmenn og færði ýmis rök fyrir því sjónarmiði, sem hann vill leggja til grundvallar við lausn og meðferð þessa máls, og út í það sé ég ekki ástæðu til þess að fara sérstaklega, en vil þó mínna á örfá einstök atriði af því, sem fram kom.

Hv. 6. þm. Norðurl. e. ber brigður á, að ég fari rétt með, þegar ég segi, að gjald það, sem iðnaðurinn greiðir til iðnlánasjóðs, sé frádráttarbært, og að það sé hæpið að líta þannig á í sambandi við útflutningsgjöld, sem sjávarútvegurinn greiðir og renna að nokkrum hluta til fiskveiðasjóðs. Ég held, að það orki ekki tvímælis, að þegar hagur sjávarútvegsins er metinn og ríkisvaldið telur sig þurfa að grípa til ráðstafana í því sambandi, þá séu útflutningsgjöld sjávarútvegsins ævinlega tekin með inn í það dæmi, og það hefur mjög borið á góma í umr. nú á þessu þingi í sambandi við þann vanda efnahagsmála, sem nú er við að etja, að einn þáttur í lausn þeirra mála, sem til greina komi, sé að létta af sjávarútveginum þeim útflutningsgjöldum, sem hann nú ber, og sýnir það ljóslega ásamt öðru, að fast samband er þarna á milli. En um gjaldið til iðnlánasjóðs er það að segja, að í fyrsta lagi kom það fram í umr. í þessari hv. d. á síðasta þingi, þegar lögin um iðnlánasjóð voru sett, að það hefði verið leitað fyrir fram samþykkis iðnaðarmanna eða þeirra, sem gjaldið eiga að greiða, fyrir því, hve hátt gjaldið skyldi vera, og það var lögð á það svo rík áherzla, að sagt var, að það hefði aldrei komið til greina að lögfesta gjald á iðnaðinn annað eða hærra en það, sem iðnaðarmenn sjálfir hefðu samþykkt. Þetta stingur mjög í stúf við þá aðferð, sem beitt var við bændastéttina, þegar gjaldið til stofnlánadeildarinnar var lögfest, því að þá var ekki leitað til félagssamtaka bændastéttarinnar fyrir fram, og þau mótmæli, sem þaðan bárust, á meðan mátíð var til athugunar á Alþingi, voru að engu höfð. Þetta út af fyrir sig segir nokkra sögu og sýnir blæinn á viðskiptum núv. ríkisstj. og þingmeirihl. við bændastéttina annars vegar og iðnaðarstéttina hins vegar. En í 5. gr. l. um iðnlánasjóð, sem ég hef hér við höndina, segir orðrétt um þetta 4% gjald, sem iðnaðurinn greiðir til iðnlánasjóðs, með leyfi hæstv. forseta:

„Gjald þetta skal vera frádráttarbært sem rekstrarkostnaður við álagningu tekjuskatts og tekjuútsvars.“

Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta atriði. Hv. 6. þm. Norðurl. e. leggur áherzlu á það, að með l. um stofnlánadeild landbúnaðarins hafi hag stofnlánadeildarinnar verið komið á traustan og að mér skilst varanlegan grundvöll, enda höfum við nú heyrt þau orðatiltæki áður og í öðru sambandi. Hann telur því ekki ráðlegt að lækka vextina frá því, sem nú er ákveðið. Þetta er mjög skiljanlegt, m.a. af því, að sjálfur grundvöllur laganna er sá, að hinir háu vextir haldist a.m.k. til ársins 1975, og þegar þær töflur, sem lagðar voru til grundvallar, þegar þessi lög voru sett, eru athugaðar niður í kjölinn, sést, að vaxtatekjurnar eiga að verða æ stærri hluti teknanna, eftir því sem lengur liður og velta stofnlánadeildarinnar eykst, en fasta framlagið hlutfallslega minni hluti af heildarveltunni, eftir því sem lengur líður. Grundvöllurinn er því ekki traustari eða varanlegri en svo, að ef almenn vaxtalækkun verður ákveðin og jafnhliða því lækkaðir vextir hjá stofnlánadeild landbúnaðarins, þá bregðast að verulegu leyti þær tekjur, sem lagðar eru til grundvallar við uppbyggingu deildarinnar, og hlýtur þá þessi bygging mjög að hallast, ef ekki að hrynja, svo að það er út af fyrir sig eðlilegt, að hv. 6. þm. Norðurl. e., sem jafnframt er bankastjóri í þessari stofnun, telji það ekki ráðlegt að lækka vexti af stofnlánum landbúnaðarins fyrst um sinn. Það var líka látið að því liggja, að með þessum lögum væri lagður svo traustur grundvöllur fyrir stofnlánadeildina, að það mundi ekki þurfa að taka lán vegna starfsemi hennar, þegar lögin eru komin í gildi. Enn sem komið er hefur a.m.k. ekki þetta reynzt rétt, því að ég hygg, að það hafi á s.l. ári verið tekið yfir 70 millj. kr. lán samtals vegna starfsemi stofnlánadeildarinnar, og er það áreiðanlega engu minna en oft var gert eða oft þurfti að gera á fyrri árum.

Þá vil ég segja örfá orð um veðdeildina. Okkur kemur saman um það, að hún hafi átt og eigi enn við tilfinnanlegan fjárskort að etja. Og um þetta getur heldur naumast verið ágreiningur milli þeirra, sem það mál skoða í réttu ljósi. En hv. 6. þm. Norðurl. e. bendir á það, að í stofnlánadeildarlögunum sé heimild til þess, að stofnlánadeildin verji til kaupa á bankavaxtabréfum veðdeildarinnar um 10 millj. kr. á ári. Þetta er rétt. Í 13. gr. l. segir:

„Heimilt er bankastjórn Búnaðarbankans, að fengnu samþykki ráðh. hverju sinni, að verja árlega allt að 10 millj. kr. af fé stofnlánadeildarinnar til kaupa á bankavaxtabréfum veðdeildar Búnaðarbankans, enda sé það auðið án þess að skerða nauðsynleg útlán deildarinnar:

Þetta er góðra gjalda vert, svo langt sem það nær, og við þessu ákvæði er á engan hátt hróflað í frv. okkar. Þessi heimild á að standa samkv. því. En þau ákvæði, sem í frv. felast og snerta veðdeildina, koma til viðbótar þessu, og verður þá gripið til þeirra, eftir því sem þurfa þykir, þegar þessi heimild í l. hefur verið fullnýtt. Hv. 6. þm. Norðurl. e. telur það ekki eðlilegt og jafnvel ekki viðeigandi að ætla sér að skylda banka eins og Seðlabankann til þess að veita lán til veðdeildarinnar. Hér er ekki um að ræða, að Alþingi, þótt þetta ákvæði yrði að lögum, fari að hlutast til um einstök viðskipti, heldur er hér um að ræða, í hvaða farveg ákveðið fjármagn á að falla. Og við höfum dæmin fyrir okkur um það, að sjálfum Seðlabankanum finnst það ekki goðgá að skylda aðrar bankastofnanir til þess að skila inn í Seðlabankann verulegum fjárhæðum, og fæ ég ekki séð, að það væri þá heldur meiri goðgá, þó að Seðlabankanum yrði með lagaákvæði gert skylt að létta undir með veðdeild Búnaðarbankans, svo sem lagt er til í frv. okkar.