21.11.1963
Efri deild: 16. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í C-deild Alþingistíðinda. (2218)

73. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það var aðeins til þess að leiðrétta missögn raunverulega, sem ég stend hér upp, vegna þess að hv. frsm. gaf nokkuð villandi mynd af því, sem ég sagði um vextina, að ég hefði ekki talið ráðlegt, að stofnlánadeildarvextirnir lækkuðu á næstu árum. Það sagði ég ekki eitt einasta orð um. Ég sagði það eitt, að þetta mál yrði vafalaust að skoða með hliðsjón af hinum almennu ágreiningsatriðum, sem væru um vexti, og sagði í framhaldi af því, að ef þetta væri ekki skoðað þannig, væri auðvitað till. þessa frv. hrein fjarstæða, vegna þess að ef almennir vextir ættu að vera jafnháir og þeir eru nú, en vextir á stofnlánum að lækka, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., mundi stofnlánadeildin verða fjárþrota á stuttum tíma vegna hins geysilega vaxtamunar. Hitt sagði ég ekki eitt orð um og veit ekkert um fremur en í raun og veru hv. frsm. heldur, hvort er ráðlegt eða ekki ráðlegt á næstu árum að lækka vexti. Þetta fer algjörlega eftir því, hvernig efnahagsþróunin verður, og er ómögulegt um það að spá neinu. En að sjálfsögðu verður að vera samræmi í vaxtagreiðslunum innbyrðis milli stofnsjóða hinna einstöku atvinnuvega og hinna almennu vaxta í þjóðfélaginu, þannig að þetta mál út af fyrir sig er ekki hægt að skoða sem einangráð fyrirbrigði.

Um hitt atriðið, að ég hafi sagt, að við lausn á vandamálum landbúnaðarins væri fundið varanlegt úrræði, þá notaði ég ekki orðið varanleg og vil ekkert fullyrða um, að það séu varanleg úrræði. Ég álit, að slíkt orð sé ósköp hæpið á öllum tímum að nota, því að það geta auðvitað gerzt margir þeir hlutir í þjóðfélaginu, sem breyta mjög verulega forsendum þess, sem einhvern tíma kann að hafa þótt gott og gilt. Hitt sagði ég og tel vera alveg raunhæfa skoðun, að með þeirri uppbyggingu, sem nú er á fjáröflun til stofnlánadeildarinnar, hækkuðu tekjur hennar hlutfallslega nokkurn veginn eftir því, sem verðhækkanir yrðu, eða í hlutfalli við verðhækkanir landbúnaðarvara, sem má gera ráð fyrir að verði framvegis eftir því, sem almennar verðhækkanir verða í þjóðfélaginu. Þetta er það, sem ég meinti, en í frv. eins og það liggur fyrir, er gert ráð fyrir föstu gjaldi, sem ekki breytist, þó að slíkar verðhækkanir yrðu.

Þá vil ég jafnframt leiðrétta það, sem oft hefur komið fram hjá hv. framsóknarmönnum, að það hafi verið sagt, þegar l. um stofnlánadeildina voru sett, að með því frv. væri séð fyrir fjárþörf stofnlánadeildarinnar, þannig að ekki þyrfti að taka lán. Þetta hefur aldrei verið sagt, og ekki aðeins að það hafi ekki verið sagt, heldur hefur beinlínis verið gert ráð fyrir því í þeim grg., sem frv. fylgdu, og áliti þeirrar nefndar, sem það undirbjó, að fyrstu árin yrði að taka allveruleg lán til þess að mæta þessum nauðsynlegu þörfum. Og ég skal fúslega játa, að það getur vel verið, að þau lán verði að vera meiri og í lengri tíma en gert var ráð fyrir, vegna þess að verðlagsþróunin verði slík, að það þurfi meiri lánahækkana við en þá var gert ráð fyrir. Það er eins með þetta og margt annað, að það er ekki hægt að sjá alla hluti fyrir fram. Þó að það hafi verið reiknað með 6% vöxtum í útreikningunum, sem fylgdu frv., bar alls ekki að skilja það svo, að það vær í skoðun þeirra aðila, sem að því stóðu, að vextirnir mættu ekki lækka á þessu tímabili. Það var auðvitað ekki hægt að gera neina skynsamlega útreikninga nema út frá þeim vöxtum, sem voru þá. Hvaða vaxtafót átti að nota, búa til einhvern vaxtafót, sem enginn vissi neitt um? Eina úrræðið var auðvitað að nota þá vexti, sem þá voru, til þess að gera einhverja útreikninga. Það, sem kemur svo þarna á móti, er, að það var ekki reiknað nema með mjög hóflegri framleiðsluaukningu og auknum tekjum að þessu leyti, sem var einnig gert til þess að mæta áföllum, sem yrðu vegna þess, að vextirnir kynnu að lækka. En allt var þetta birt með þessum fyrirvörum, án þess að ég hyggi, að það muni hafa stórfellda grundvallarþýðingu fyrir þessa útreikninga til margra ára, hvort einhverjar slíkar breytingar yrðu. Það a.m.k. breytir ekki grundvallareðli málsins.

Varðandi það, að 70 millj. kr. hafi verið teknar að láni, hefur það ekki verið gert á einu ári, neinar 70 millj. kr. Ég þori ekki alveg nákvæmlega með þá tölu að fara, hvað hafi verið tekið síðustu 2—3 árin af lánum, en það eitt er vist, að það er gert ráð fyrir, að þessi lánaþörf fari minnkandi og t.d. í ár þurfi stofnlánadeildin á minna lánsfé að halda en á s.l. ári.

Varðandi Seðlabankann skal ég ekki mikið ræða. Það er ekki mitt mál sérstaklega að ræða um hans mál eða vinnubrögð, þó að það sé að sjálfsögðu allt annars eðlis, þó að Seðlabankinn setji ákvarðanir um það, hvernig bankarnir í grundvallaratriðum skuli haga sínum lánveitingum, vegna þess að Seðlabankanum er af löggjafanum sjálfum fengið það vald beinlínis að hafa yfirstjórn með lánaþróuninni og peningamálum í þjóðfélaginu. En ég hverf ekki frá því, sem ég áðan sagði, að ég álit, að það sé hæpin stefna, vægast sagt mjög hæpin, að Alþingi fari að ákveða með lögum einstakar lánveitingar eða til einstakra þarfa úr bankakerfinu, og bendi aðeins á það, sem ég áðan sagði og við allir vitum, að lög, sem hafa verið sett um þetta efni áður og mikill meiri hl. Alþingis stóð þá að, voru algerlega óraunhæf, og fékkst aldrei eyrir til veðdeildarinnar í gegnum þá lagaheimild, sem þar var um að ræða.

Varðandi þær upplýsingar hv. þm., að það sé gert ráð fyrir, að þessi fjáröflun til veðdeildarinnar komi algerlega til viðbótar þeim 10 millj., sem gert er ráð fyrir árlega að verja til hennar samkv. l. um stofnlánadeildina, þá felur þetta að sjálfsögðu í sér geysimikla rausn og það meiri rausn en nokkurn tíma, fyrr og síðar, hefur verið sýnd veðdeildinni. Jafnvel meðan þessir hv. þm. og flokksbræður þeirra fóru með æðstu völd í þessum málum, hugkvæmdist víst engum að efla svona veðdeildina, þannig að allt er þetta til mikilla bóta. (PÞ: Telur bankastjórinn, að það sé ofrausn?) Notaði ég orðið ofrausn? (PÞ: Nei, ég spyr.) Nei, það sagði ég ekkert um. Ég sagði, að það væri mjög virðingarverð rausn, ég vil ekkert meta það, hvort það sé ofrausn. Það er vafalaust alltaf hægt að koma fé í lóg, og hygg ég, að við hv. þm. getum verið sammála um, að það sé alltaf hægt að finna einhver úrræði til þess. En það er hins vegar mjög eftirtektarverð rausn miðað við ýmsa hluti, sem áður hafa gerzt í þeim efnum.