21.01.1964
Efri deild: 35. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í C-deild Alþingistíðinda. (2221)

105. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Flm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Við framsóknarmenn hér í þessari hv. d. höfum leyft okkur að bera fram nokkrar breytingar á l. um stofnlánadeild landbúnaðarins, ræktun og hyggingar í sveitum, en sem kunnugt er, fjallar þessi lagabálkur um lánveitingar til framkvæmda í landbúnaði og auk þess um ríkisframlög til nýhýla og viðbótarframlög á 15 ha. ræktun sveitarbýla. Þær meginbreytingar, sem við leggjum til í frv. þessu, eru þannig í stuttu máli:

Það er í fyrsta lagi, að ríkið kosti eða veiti framlag á ræktun 25 ha. lands á hverju nýbýli, sem er reist samkv. landnámslögunum, og á það jafnt við um nýbýli einstaklinga og nýbýli þau, sem reist eru í byggðahverfum. Samkv. gildandi l. kostar ríkið eða veitir framlag á ræktun fyrstu 15 ha. á nýbýlum. Hér er því lagt til, að sú breyting verði gerð, að 15 ha. ákvæði l. verði afnumið, en í þess stað upp tekið 25 ha. ákvæðið, sem njóti svipaðs framlags á hvern ha. lands og nú er.

Í öðru lagi er lagt til í þessu frv., að ríkið veiti 65% framlag af þeim kostnaði við nýrækt, sem hlutaðeigandi býli vantar til þess að hafa nað 25 ha. túnstærð. En samkv. gildandi l. á ríkið að greiða 50% af kostnaði eða veita 50% framlag af kostnaði við ræktun, þar til túnstærð á býli hefur nað 15 hö. Hér er því um þá breytingu að ræða, eins og varðandi nýbýlin, að framlagið nái til 25 ha. lands í stað 15 ha. lands nú. En auk þessa er sú meginbreyting í þessu frv. frá því, sem nú er, að ríkið hækki framlag sitt um 30% frá því, sem nú gildir, eða hækki framlagið úr 50% upp í 65%, þegar miðað er við 25 ha. ræktun. En þegar ræktun hefur nað 25 hö., gilda að sjálfsögðu þau framlög, sem veitt eru og veitt kunna að verða samkv. jarðræktarlögum.

Í þriðja lagi er í þessu frv. lagt til að fella niðar hámarksákvæðin, sem nú eru í lögum þessum varðandi lánveitingar til jarðræktarframkvæmda, sem ríkisframlags njóta. Þetta þýðir það, að komið er í veg fyrir, að lán til framkvæmda lækki óeðlilega mikið vegna hækkaðs jarðræktarframlags.

Í fjórða lagi er lagt til í þessu frv., að framlag það, sem veitt er til íbúðarhúsabygginga í sveitum, verði hækkað úr 50 þús. kr. í 60 þús. kr., og er því um 10 þús. kr. hækkun að ræða.

Þá er í fimmta lagi lagt til í þessu frv., að það hámark á fjárveitingu, sem nú er ákveðið í 64. gr. 1., verði lagt niður, en í þess stað veiti ríkið á fjárlögum hvers árs svo háa fjárupphæð sem með þarf og lög ákveða til framkvæmda þeirra, sem hér um ræðir.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um það, hvers vegna við leggjum þessar breytingar til. Þess ber að sjálfsögðu að geta, að í fyrra lögðum við til sams konar breytingar að öðru leyti en því, að þá var miðað við 20 ha. túnstærð, en nú 25 ha. túnstærð. En ástæðan fyrir því, að við höfum tekið upp 25 ha. túnstærðina, er, að það er sú lágmarkstúnstærð, sem talið er að bændur allajafna geti komizt af með. Það ber á það að líta, að jarðræktin er sá grundvöllur, sem landbúnaðurinn byggist öðru fremur á, en það er fóðuröflunin. Og jarðræktin hlýtur því ávallt að vera sá hornsteinn, sem afkoma bænda og þeirra, sem sveitirnar byggja, byggist fyrst og fremst á. Jarðræktin er því hornsteinn efnahags þess fólks, sem sveitirnar byggir. Sé litið á það meðalbú, sem tekjur bænda eru miðaðar við og verðlag á búvörum reiknað eftir, þarf sem næst 25 ha. lands eða 25 ha. tún til að sjá þessum búpeningi fyrir fóðri, svo að sæmilegur fóðurásetningur eigi sér stað. Líka þarf að hafa í huga, að bændur verða jafnan að birgja sig nokkuð upp til lakari ára, því að alltaf vilja þau árin slæðast með annað slagið. Þá ber líka að líta á það, að með hverju ári, sem hefur liðið, þarf stærra bú eða meiri tekjur til að vega upp á móti ört vaxandi dýrtíð í landinu, og með því metháa stökki, sem hæstv. núv. ríkisstj. á í dýrtíðarmálum þjóðarinnar, líður ekki á löngu, þar til núverandi meðalbú bænda framfleyta þeim ekki, hvað þá ef um miklar umbætur er að ræða, sem erfitt er að rísa undir nú, hvað þá ef dýrtíð vex mikið fram yfir það, sem nú er.

Tekjur bænda eru mjög misjafnar, og fer það að sjálfsögðu eftir mörgu, en þetta skiptist þó talsvert eftir héruðum. Og í þeim upplýsingum, sem formaður Stéttarsambands bænda, Sverrir Gíslason í Hvammi, gaf á Stéttarsambandsfundi á s.l. hausti, reynist meðalbúið í landinu vera 244 ærgildi, en hvert ærgildi er áætlað þannig, að 20 ær eru látnar mæta einni kú. Meðalbúið var stærst í Kjósarsýslu, 378 ærgildi, og næstar voru Árnessýsla, Rangárvallasýsla, Borgarfjarðar- og Mýrasýsla og Eyjafjarðarsýsla, allar yfir 340 ærgildi að meðaltali, síðan Austur-Húnavatnssýsla, Vestur-Skaftafellssýsla og Suður-Þingeyjarsýsla, allar með yfir meðallag, en Vestur-Húnavatnssýsla sem næst meðalbústærð í landinu. Þá komu Snæfellsnessýsla, Suður-Múlasýsla, Dalasýsla, Vestur-Ísafjarðarsýsla, Skagafjarðarsýsla, Norður-Ísafjarðarsýsla, Austur-Skaftafellssýsla, Norður-Múlasýsla og Norður-Þingeyjarsýsla með yfir 200 ærgildi að meðaltali. En með minni bú eða innan við 200 ærgildi voru þessar sýslur: Vestur-Barðastrandarsýsla og Austur-Barðastrandarsýsla og Strandasýsla, sem var með 182 ærgildi á meðalbú, og lægst var Gullbringusýsla með 123 ærgildi á meðalbú. En þess ber að geta þar, að fólkið stundar aðra atvinnu með landbúnaði, þannig að það er ekkert undarlegt, þó að sú sýsla sé nokkru lægri með meðalbústærð, þar sem fólkið lifir jöfnum höndum af annarri atvinnu, sem þægilegt er að veita sér á þeim stað.

Þetta lítur því þannig út, að allmargir bændanna í landinu búa við mun lægri tekjur og hafa mun minni bú en meðalbústærðin í landinu er. Auk þess mun það hafa komið fram í blöðum nýlega, að bændastéttin sem heild, þegar miðað er við aðrar stéttir, er mun tekjulægri. Þetta finnst mér benda til þess, að landbúnaðurinn sé á þeim vegi staddur, að þar þurfi þjóðfélagið að sýna stórhug og djörfung, til þess að fólk, sem af honum lifir, hafi sambærileg kjör við aðrar stéttir, jafnframt því sem þjóðin er það framsýn, að hún vill tryggja sér þau verðmæti, sem landbúnaðarframleiðslan veitir nú og í framtíðinni, og ekki mun af veita að halda þar vel á málum, ef fólksfjölgun verður álíka mikil í landinu og verið hefur hin síðari ár.

Ég er ekki í neinum vafa um það, að fyrrv. landbrh., Hermann Jónasson, hv. 1. þm. Vestf., var mjög framsýnn í því, þegar hann beitti sér fyrir breytingum á landnámslögunum til þess að auka ríkisframlagið á jarðrækt hjá þeim bændum, sem lakast voru settir með ræktun. Sú lagabreyting hefur átt sinn ríka þátt í því, að ræktun hefur þó ekki verið minni undanfarandi ár en raun ber vitni um. Það er ofur skiljanlegt, að fóðuröflun hin síðari ár hefur verið lakari en áður var, vegna þess að bændur hafa orðið að fjölga búfé eða stækka búin til þess að afla sér meiri tekna til þess að vega á móti dýrtíðinni og vega upp á móti þeim útgjöldum, sem skapast vegna þeirra framkvæmda, sem þeir hafa staðið í að undanförnu. En það er ekki eðlileg eða æskileg þróun, að það sé ekki hægt jafnhliða því að sjá búfénu fyrir nægjanlegu fóðri eða m.ö.o. að rækta það mikið, að við getum jafnan haft nokkurn veginn öruggan ásetning á hverju hausti fyrir það búfé, sem við höfum. Vegna þessa er nauðsynlegt, að þjóðfélagið grípi í taumana með ríflegri fjárframlögum en verið hefur og styðji að því á þann hátt að tryggja afkomu bændastéttarinnar og tryggja neytendum í landinu, að þeir geti framvegis notið þeirrar heilnæmu fæðu, sem landbúnaðarframleiðslan veitir hverju sinni, jafnframt því sem ríkisframlög eru nokkurn veginn trygging fyrir því, að verðlag á landbúnaðarvörum þarf ekki að vera eins hátt og annars væri. Þá ber ekki sízt að hafa það í huga, að landið sjálft verður verðmætara í framtíðinni, þegar búið er að rækta það og byggja, og því auðveldara fyrir þær kynslóðir, sem á eftir koma, að búa betur og hafa sambærileg kjör við aðrar stéttir, en þá kynslóð sem er að nema landið að nýju, eins og sú kynslóð, sem nú er að hverfa af leikvellinum, og þeir, sem við því eru að taka.

Ég minni aðeins á þessi atriði til stuðnings þessu máti. Ég efast ekki um, að þetta kostar ríkið nokkurt fé, en ég er sannfærður um, að það fær ekki sinar krónur betur borgaðar á annan hátt en þann, því að gróðurmoldin íslenzka er það frjósöm, að hún mun margfalda verðgildi þeirra peninga, sem ríkið leggur af mörkum til þessara framkvæmda.

Þá vil ég geta þess, að þetta frv. var lagt fram í vetur, þegar prentaraverkfallið var og mikið að gera í Alþingi, og af þeim ástæðum slæddust inn ýmsar villur, sem eru í frv., eins og m.a. sú, að þetta mál sé lagt fram í Nd. í staðinn fyrir Ed., og einnig nokkrar villur í grg., auk þess sem vantar ákvæði, sem á að vera í 6. gr. frv. varðandi 25 ha. Ég vil leiðrétta þetta hér með og boða það, að við munum beita okkur fyrir því, að frv. verði leiðrétt og prentað eins fljótt og auðið verður.

Ég vænti þess, að hv. þm. sýni fullan skilning á þessu máli og styðji framgang þess á Alþingi, og legg til, að þegar þessari umr. lýkur, verði málinu vísað til hv. landbn.