25.01.1964
Efri deild: 35. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í C-deild Alþingistíðinda. (2224)

107. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Flm. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um hækkun allra bótafjárhæða almannatrygginganna um 15% frá 1. jan. 1964. Ég þarf sennilega ekki að hafa langt mál um efni þessa frv. né rök fyrir réttmæti þeirrar hækkunar, sem þar er lögð til. Strax á hæla þessa frv. hefur sem sé komið frv. frá hæstv. ríkisstj. um sama efni, 15% hækkun bótafjárhæða almannatrygginga frá 1. jan. Það frv. er lagt fram í hv. Nd. og tekið þar til 1. umr. í gær, að ég hygg, og má því vænta þess, að efni þessa frv., sem hér liggur fyrir, 15% hækkun, eigi greiða leið gegnum Alþingi.

Ég vil aðeins drepa á einn allveigamikinn mun, sem er á frv. mínu, sem hér liggur fyrir, og frv. hæstv. ríkisstj. um sama efni. Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir 15% hækkun allra bótafjárhæða almannatryggingalaganna, en í frv. hæstv. ríkisstj. er gert ráð fyrir hækkun tryggingabóta allra að undanskildum fjölskyldubótum.

Ég vil benda á þegar á þessu stigi málsins, að hér er vegið í sama knérunn enn einu sinni af þeim, sem meiri hl. mynda hér á Alþingi. Árið 1962 voru tryggingabætur hækkaðar um 7%. Þá voru fjölskyldubæturnar undanskildar. Í apríl 1963 voru samþykkt ný tryggingalög, sem skyldu taka gildi 1. jan. 1964. í þeim lögum voru margar bætur hækkaðar og sumar allverulega, en einnig þá voru fjölskyldubætur látnar standa í stað. Hið sama verður í des. 1963. Þá voru bætur trygginganna hækkaðar með sérstökum lögum um l5%, og enn voru fjölskyldubæturnar undanskildar. Nú er komið fram, eins og ég sagði áðan, stjfrv., sem fjallar um nýja 15% hækkun tryggingabótanna að fjölskyldubótum undanskildum. Þetta er þannig í fjórða skipti í röð, sem þessar bætur trygginganna eru algerlega sniðgengnar.

Með þessu er augsýnilega stefnt að því að gera fjölskyldubætur að engu, að gera fjölskyldubætur með öllu verðlausar. Þetta liggur í augum uppi, þegar höfð er hliðsjón af þeirri ört vaxandi dýrtíð, sem verið hefur síðan 1962 og virðist áframhaldandi. Það má segja, að fjölskyldubætur skipti ekki mjög miklu máli, þegar um eitt barn er að ræða í fjölskyldu eða jafnvel tvö. En fjölskyldubætur skipta svo sannarlega miklu máli fyrir fjölskyldu, sem hefur fyrir 3 eða fleiri börnum að sjá. Og það er af umhyggju fyrir barnmörgu fjölskyldunum, að ég vil hafa orð á þessu og vara við því að halda áfram að sniðganga fjölskyldubætur í hvert einasta skipti, sem bætur trygginganna annars eru hækkaðar, en eins og ég tók fram, er þetta nú í fjórða skiptið í röð, sem fjölskyldubætur eru sniðgengnar.

Hvernig stendur á því, að hæstv. ríkisstj. tekur fjölskyldubæturnar þannig út úr? Hver er afsökun hennar fyrir þessu uppátæki? Hæstv. ríkisstj. hefur reynt að afsaka sig, og hún hefur gert það með því að láta í það skína, að persónufrádráttur vegna barna við álagningu útsvars og tekjuskatts skuli hækkaður. Þessi röksemd var notuð í vetur, og þessi röksemd er notuð aftur nú. En ekkert bólar á því frá hendi hæstv. ríkisstj., að þessi persónufrádráttur vegna barna eigi að hækka. Það eitt út af fyrir sig að lofa þessu er ekki nægjanlegt, það verða að koma efndir. En jafnvel þótt þetta loforð yrði efnt af hæstv. ríkisstj. og persónufrádráttur vegna barna hækkaður, er það sannarlega undir því komið, hve mikil sú hækkun verður, hvort um er að ræða nokkra frambærilega afsökun. Persónufrádráttur vegna barna við álagningu skatta var hækkaður árið 1962. Þá stóðu fjölskyldubætur, skulum við segja, í sínu gildi. Síðan hefur hvoru tveggja hrakað, persónufrádrættinum og fjölskyldubótunum, og það liggur því beinast við, að ástæða sé til að taka hvort tveggja fyrir, þennan persónufrádrátt vegna barna og hækka hann og fjölskyldubæturnar og hækka þær. Ég held því, að eins og mál standa nú, sé ekki ástæða til annars fyrir Alþingi en að taka það til athugunar að hækka fjölskyldubæturnar a.m.k. um 15% að þessu sinni, en láta það ekki enn einu sinni verða útundan.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál. Við væntum þess, að stjfrv. í Nd. fái greiða afgreiðslu þar og komi síðan hingað til hv. Ed., og þá verður tækifæri til að ræða þessi mál og önnur skyld.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr. og félmn.