03.02.1964
Efri deild: 42. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í C-deild Alþingistíðinda. (2228)

124. mál, varðskip landsins og skipverjar á þeim

Flm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. þetta, sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 214, fjallar um breyt. á l. um varðskip landsins og skipverja á þeim. Efni frv. er í því fólgið að veita þeim fiskibátum, sem tryggðir eru svokallaðri frjálsri tryggingu, hjálp eða aðstoð úr háska fyrir hliðstæða greiðslu og fiskibátar, sem eru tryggðir hjá Samábyrgð Íslands, greiða nú samkv. þessum umræddu Iögum.

Frv. hliðstætt þessu flutti ég á siðasta þingi. Sjútvn. þessarar hv. d. gerði þá á frv. þær breytingar, að leita skyldi till. frá ýmsum félagasamtökum, áður en dómsmrn. setti reglugerð varðandi verðákvörðunina. Er frv. nú shlj. því, sem Ed. afgreiddi málið á siðasta þingi. Nd. lauk hins vegar ekki afgreiðslu þess, áður en þingi lauk.

Það, sem hér er um að ræða, er að veita fiskiskipaflotanum almennt fyrirgreiðslu eða aðstoð, þegar óhöpp hendir, og taki landhelgisgæzlan fyrir það sanngjarna þóknun, og skal hún miðuð við þann raunverulega kostnað, sem viðkomandi varðskip eða eftirlitsskip kosta í rekstri, og miðuð við þann tíma, sem hjálpin tók. Þessi aðstoð, sem veita skal samkv. þessu, nær þó eigi til þess, ef háski sá, sem fiskiskipið er í, er stórkostlegur, svo sem eldsvoði eða strand. Þá má krefjast björgunarlauna eftir gildandi reglum siglingalaganna, svo sem segir í niðurlagi 1. gr. frv.

Þau lagaákvæði, sem um langan tíma hafa verið í gildi varðandi fiskibátaflotann, sem tryggður er hjá Samábyrgð Íslands, en það eru bátar allt upp í 100 smálestir, hafa vafalaust skapað eigendum þeirra mun hagstæðari tryggingaiðgjöld en annars hefði átt sér stað. Þegar á það er litið, að varðskip ríkisins og björgunarskúturnar eru að mestu leyti byggð og rekin fyrir almannafé með það tvennt fyrir augum að gæta hinnar íslenzku fiskveiðalandhelgi og stuðla að auknu öryggi íslenzkra sjómanna og fiskiskipa og vera þeim til aðstoðar, ef með þarf, má í því sambandi benda á, að fyrsta íslenzka varðskipið, Þór, var upphaflega aðeins björgunarskip, — þá verður það vart talið óeðlilegt, að landsmenn allir sitji við sama borð um þá fyrirgreiðslu, sem þessi umræddu skip veita fiskiskipaflotanum. Ég ætla, að það hafi aldrei verið ætlunin, að aðstoð þessara skipa væri veitt í hagnaðarskyni, og þar sem annað aðalhlutverk þeirra er að stunda öryggisgæzlu og aðstoð á sjó, er ekki fyrir hendi ástæða til sérstakrar hvatningar til björgunarstarfa með von í háum björgunarlaunum. Með hliðsjón af því, sem ég hef nú sagt, verður að telja eðlilegt, að tekin sé upp sú lagaregla, sem lagt er til með frv. þessu.

Að lokum vil ég benda á, að víðast hvar erlendis mun það vera föst ven,ja, að skip, sem hafa björgun að aðaltilgangi, taki ekki bjarglaun samkv. reglum siglingalaganna, heldur aðeins tímakaup fyrir þá aðstoð, sem þau veita.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um málið, en legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.