20.04.1964
Efri deild: 71. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í C-deild Alþingistíðinda. (2230)

124. mál, varðskip landsins og skipverjar á þeim

Fram. (Jón Árnason):

Herra forseti. Í nál. á þskj. 472 mælir sjútvn. einróma með samþykkt þessa frv. Eins og fram kemur í 1. gr. frv., er hér um að ræða að ákveða gjald fyrir aðstoð við fiskiskipin, að það skuli vera eitt og hið sama, hver svo sem stærð skipanna er.

Til síðustu ára var mestur hluti af fiskibátaflota landsmanna skip, sem voru undir 100 rúml., og voru allir þeir fiskibátar vátryggðir hjá Samábyrgð Íslands, og samkv. sérstökum lögum gilti um þá aðstoð, sem fiskibátarnir fengu hjá Samábyrgðinni, sérstök gjaldskrá, en ef bátarnir voru stærri en 100 smálestir, var hægt að krefjast í flestum tilfellum verulega hærri bóta, ef varðskipið dró þá að landi, þó að ekki væri nema um smávægilega bilun að ræða. Slíkt gat oft og hafði oft veruleg áhrif á hækkun iðgjaldanna hjá fiskibátunum, sem eðlilegt er, þar sem sú hætta vofði yfir, að vegna smávægilegra bilana, sem gátu átt sér stað í fiskiróðrunum, var hægt að krefja háa upphæð í björgunarlaun. Nú var það oft svo, að það var ekki sætzt á, hvað sanngjarnt væri að greiða, og fór þá í mörgum tilfellum með málin þannig, að það þurfti að útkljá þau fyrir dómi, og kostaði það einnig miklar fjárhæðir.

Ég tel ekki, að ég þurfi að fjölyrða frekar um málið nú, en leyfi mér að vísa til þess, er ég sagði við framsögu hér í hv, d. um mál þetta, og tel því ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um það nú. Sjútvn. er á einu máli um að mæla með samþykkt frv.