10.02.1964
Efri deild: 45. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í C-deild Alþingistíðinda. (2240)

133. mál, sparifjársöfnun ungmenna

Flm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Oft er um það rætt og ritað, að æskufólk nútímans hafi mikið fé undir höndum, sem það kunni lítt með að fara, og mikil fjárverðmæti fari þannig forgörðum til ýmissa hluta, sem eigi hafi varanlegt gildi. Nokkuð hefur verið gert af því að hvetja börn og unglinga til sparnaðar, en með misjöfnum árangri. Seðlabankinn hefur t.d. gefið hverju skólabarni sparisjóðsbók með 10 kr. innistæðu, og síðan hafa börnin átt þess kost að kaupa sparimerki í skólunum og eignast þannig innistæður. Unglingar hafa einnig átt kost á því að leggja inn á 10 ára bækur með háum vöxtum, og er það fyrirkomulag byggt á tillögum séra Halldórs Jónssonar frá Reynivöllum. Auk þess eiga svo mörg börn almennar sparisjóðsbækur með einhverjum innistæðum. Það mun nokkuð algengt, að sama barnið eigi 2-3 sparisjóðsbækur, e.t.v. sína af hverri tegund, en slík sparifjársöfnun er losaraleg og skortir ákveðið markmið og kemur því ekki að hálfu gagni. Meginástæðan til þess, að sparifjársöfnun barna og unglinga er minni en æskilegt vært, er þó sú, að foreldrar og aðrir aðstandendur barnanna hvetja börnin ekki til söfnunar sparifjár af þeim sökum, að verðbólgan rýrir sífellt innistæðurnar. Barnið getur í flestum tilfellum keypt sér meira fyrir peningaupphæðina, þegar það leggur hana inn, heldur en það getur mörgum árum síðar, er það tekur fjárhæðina út með vöxtum. Á þessu er nauðsynlegt að ráða bót.

Í frv. þessu um sparifjársöfnun ungmenna, sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 238, felast ýmis nýmæli. Innistæður eru bundnar til 21 árs aldurs, en á þeim aldri hefur ungmennið að jafnaði mikla þörf fyrir fjármuni og hefur á hinn bóginn öðlazt nægan þroska til að verja þeim á skynsamlegan hátt. Auk þess sem innistæðurnar bera vexti, skulu þær vísitölutryggðar og þannig komið í veg fyrir, að minnkandi verðgildi krónunnar skerði innistæðuféð. í frv. felst einnig það nýmæli, að hver sem vill gefa barni peningagjöf getur lagt féð inn á söfnunarbók barnsins í hvaða Landsbankaútibúi sem er á landinu án þess að hafa bókina undir höndum. Þetta er mikið hagræði. Ég álít, að margur maðurinn, sem hugleiðir að gefa barni peninga, t.d. í afmælisgjöf, jólagjöf eða fermingargjöf, muni miklu frekar gera það, þegar honum er sköpuð þægileg aðstaða til þess og hann á það jafnframt tryggt, að gjöfinni verði eigi fljótlega eytt í fánýta hluti, heldur verði hún vel ávöxtuð og geymd til síðari tíma.

Í frv. er lagt til, að fé það, sem safnast í söfnunarbækur, verði lánað til íbúðarbygginga. þörfin fyrir fjármagn í þessu skyni er ávallt mikil, og með þessu móti er í rauninni tryggt, að fjármagnið haldi áfram að þjóna hagsmunum unga fólksins. Rétt er í þessu sambandi að minnast á lögbundinn skyldusparnað ungra manna á aldrinum 16—25 ára. Hann kynni að verða óþarfur, þegar sparnaðarkerfi samkv. þessu frv. væri komið í fullan gang. Í því efni eru þó 16 ár til stefnu, svo að nægur tími er til að taka afstöðu til þess síðar. Ég er þess fullviss, að ef frv. þetta yrði samþykkt, mundu önnur form fyrir sparifjársöfnun barna og unglinga að mestu hverfa úr sögunni í framtíðinni, einfaldlega af þeirri ástæðu, að þetta sparnaðarkerfi býður bezt kjör. Fram að fermingaraldri mundu innistæðurnar byggðar upp að mestu af gjafafé, en eftir það af eigin framlögum unglingsins af sjálfsaflafé hans. E.t.v. mundu sæmilega stæðar fjölskyldur leggja fjölskyldubætur og meðlög inn á söfnunarbækur barna sinna.

Það er erfitt að gera sér grein fyrir því, hve mikið fé kynni að safnast fyrir á þennan hátt í framtíðinni. Þar hlýtur að mestu að verða um getgátur að ræða. Á næstu 10 árum er líklegt, að muni fæðast hér á landi 50—60 þús. börn. Þó að hvert barn ætti að þeim tímaliðnum að meðaltali aðeins nokkur þús. kr. innistæðu, er ljóst, að heildarsöfnunin næmi þá hundruðum millj. En eftir 20 ár væru innistæðueigendurnir orðnir á 2. hundrað þús. og innistæðurnar með vöxtum og vísitöluuppbótum orðnar miklu hærri. Þá gæti verið hér um mjög stóra fjárfúlgu að ræða.

Ég hef til gamans reynt að reikna það út, hve mikið barn mundi hafa ávaxtað fé sitt, ef slíkt kerfí, sem hér um ræðir, hefði gilt síðustu áratugina hér eða við skulum segja 21 ár aftur í tímann, að barn hefði í ársbyrjun 1943 lagt inn 1000 kr. og síðan hefðu þær verið ávaxtaðar eftir þessu kerfi, sem hér er byggt upp, með vöxtum og vísitöluuppbótum, og mér reiknaðist það til, — ég skal að vísu taka fram, að þetta var ekki mjög nákvæmlega reiknað, — að útkoman yrði sú, að þessar 1000 kr. væru eftir 21 ár, í ársbyrjun 1964, orðnar að 7500 kr. Ég vil þó taka fram til skýringar, að meira en þriðjung þessa tímabils voru vextirnir mjög lágir eða frá 2—31/2%.

Mér er ljóst, að það er torvelt að byggja upp svona víðtækt sparnaðarkerfi, er nær til svo margra einstaklinga. Þær reglur, sem ég hef sett fram í frv., kunna því að þarfnast endurskoðunar og leiðréttingar. T.d. mætti gera kerfið áhrifaríkara strax í byrjun með því að láta það ná til barna, sem fædd eru fyrir 1. jan. 1966.

Einnig mætti hugsa sér aðrar reglur um vísitöluuppbætur á spariféð. Ýmis slík atriði kunna að vera álitamál og um þau að vera skiptar skoðanir. En ég vona, að undirstöðuatriði frv. geti sem flestir hv. dm, verið sammála um og því megi vænta góðra undirtekta og góðrar fyrirgreiðslu þessarar hv. d. á frv. því, sem hér er fram borið.

Ég leyfi mér svo að lokum að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.