10.02.1964
Efri deild: 45. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 919 í C-deild Alþingistíðinda. (2242)

133. mál, sparifjársöfnun ungmenna

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir það með hv, siðasta ræðumanni, að ég tel, að hér sé að ýmsu leyti merku máli hreyft, og einmitt í tilefni af því, að hv. síðasti ræðumaður drap á það, að ég hefði verið flm.till., sem er þessu máli skyld, vildi ég segja hér örfá orð.

Varðandi þá till., sem fól fyrst og fremst í sér verðtryggingu líftrygginga og frjálsra lifeyrissjóða, vildi ég aðeins upplýsa það, að mér var falið að undirbúa álitsgerð um það efni. Það gerði ég og skilaði henni til réttra stjórnarvalda á s.l. vetri, og vænti ég þess, að það mál sé nú til athugunar, hvaða nánari till. eða framkvæmdir sem kunna út úr því að koma. En varðandi það frv., sem hér liggur fyrir, hygg ég, að flestir geti verið hv. flm. sammála um það, að sparifjársöfnun ungmenna, þótt hún sé allra góðra gjalda verð, er með því fyrirkomulagi, sem nú er á henni, þannig, að verulegs árangurs er varla af henni að vænta. Þær fjárhæðir, sem lagðar eru fram í þessu skyni, eru svo hlægilega lágar, eða aðeins 10 kr., eins og hv. flm. upplýsti, að ég hugsa, að það sé algengt, að þessar bækur séu ekki einu sinni hirtar af öllum, og auk þess mun sú fjárhæð, sem verðtryggingin nær til, vera mjög takmörkuð, eftir því sem ég bezt veit. Mig minnir, að til skamms tíma hafi þetta aðeins verið 1000 kr., svo að ég held, að það geti varla verið álitamál, að ef leggja á áherzlu á það að efla sparifjársöfnun barna og ungmenna með verðtryggingu, þá þurfi eitthvað frekara að gera í þeim efnum en nú er gert.

Hitt er svo annað mál, hvort sú leið, sem á er bent í þessu frv., er sú rétta, og hjá mér vaknar fyrst sú spurning, hvort ekki væri ástæða til þess, ef inn á þessa braut er farið, að gera verðtrygginguna víðtækari en þetta frv. gerir ráð fyrir. Sú verðtrygging, sem hér er farið fram á, mundi aðeins ná til þeirra barna, sem fædd eru eftir næstu áramót. En þá vaknar sú spurning, hvort ekki sé ástæða til þess líka að gera eitthvað fyrir þau börn, sem þegar eru fædd, auk þess sem um það má deila, hvort verðtrygginguna á að binda því skilyrði, að féð sé bundið í 21 ár. Þessi atriði og önnur hljóta eðlilega að koma til umhugsunar og athugunar, þegar þetta mál er til meðferðar, og sérstaklega það, hvort ekki sé ástæða til þess að stíga miklu stærri spor í þessu efni en hér er lagt til. Og í því efni skilst mér, að skoðanir mínar og hv. 3. þm. Norðurl. v., sem hér talaði áðan, falli mjög saman, og er það mér ánægjuefni.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta mál að svo stöddu. En ég er fús til þess fyrir mitt leyti að stuðla að því, að þetta mál verði vendilega athugað í þeirri nefnd, sem lagt er til að fái það til meðferðar.