13.02.1964
Efri deild: 47. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í C-deild Alþingistíðinda. (2246)

142. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Flm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. þetta um breyt. á l. nr. 40 frá 1960, um takmarkað leyfi til dragnótaveiða í fiskveiðilandhelgi Íslands undir vísindalegu eftirliti, höfum við 4 þm. þessarar hv. d. leyft okkur að f1ytja á þskj. 256. Efni þessa frv. er samhljóða frv., er ég flutti á síðasta þingi, en náði þá eigi að hljóta endanlega afgreiðslu. Kveður frv. á um það, að dragnótaveiðar skuli eigi leyfðar í Faxaflóa.

Um það munu Íslendingar sammála, að einhver stærsti sigur, sem oss hefur í skaut fallið á sviði atvinnumála og þá um leið til að treysta efnahagslega afkomu þjóðarinnar, sé án alls efa alþjóðaviðurkenningin á rétti vorum til 12 mílna fiskveiðilandhelginnar við strendur landsins. Með þeim mikilsverða áfanga höfum vér öðlazt til eigin afnota óskoraðan rétt og yfirráð yfir auðugustu fiskimiðum á stórum hafsvæðum umhverfis allt landið. Af þessu leiðir, að Íslendingar hafa í sinni hendi rétt til þess að gera hverjar þær ráðstafanir sem þurfa þykir til þess að vernda allar uppeldisstöðvar ungfisksins, hvort heldur er í flóum eða fjörðum, fyrir þeirri rányrkju og hættu, sem stafar af hvers konar botnvörpu- og/ eða dragnótaveiðum. Eins og nú er komið tækni í fiskveiðum, bæði með hárnákvæmum fiskileitartækjum og þá einnig með stórendurbættum veiðarfærum úr alls konar gerviefnum, sem auðvelda veiðarnar að miklum mun frá því, sem áður var, er vissulega full þörf á því að vera vel á verði og vernda uppeldisstöðvar ungfisksins. En það verður bezt gert með því að banna með öllu notkun þeirra veiðarfæra, sem vitað er að mestri eyðileggingu valda.

Um það verður ekki deilt, að Faxaflóinn er ein allra þýðingarmesta fiskuppeldisstöðin, sem um er að ræða við strendur þessa lands. Kemur þar til m.a., að flóinn liggur mjög nærri hinum miklu hrygningarsvæðum, sem þekkt eru við suðurströnd landsins. Þangað er því ungviðinu næst að leita skjóls. Þá er það löngu vitað, að í Faxaflóa eru frá náttúrunnar hendi öli hin ákjósanlegustu skilyrði fyrir uppfæðinginn. Þar hafa og verið gerðar ýtarlegri vísindarannsóknir, bæði fyrr og síðar, en dæmi eru til annars staðar við strendur landsins.

Á meðan við bjuggum enn við 3 mílna landhelgi, voru af erlendum og íslenzkum fiskifræðingum gerðar allýtarlegar rannsóknir um fiskimagnið hér í flóanum. Vöktu þær athuganir og þær niðurstöður, sem fiskifræðingarnir komust þá að, alþjóðaathygli. Kom þá skýrt í ljós, hve geysilegur munur var á vaxtarskilyrðum ungfisksins fyrir utan og innan landhelgislínuna.

Fyrir innan línuna var þá mikið magn af uppfæðingi, sem sýnilega lifði þar við hin beztu lífs og þroskaskilyrði. En utan línunnar sýndu rannsóknir þessar, að gegndi allt öðru máli. Þar var, ef svo mætti segja, ördeyða og uppfæðingurinn hafði orðið rányrkjunni að bráð.

Eftir að landhelgin var færð út í 4 sjómílur og þá um leið friðaðir allir flóar og firðir fyrir hvers konar botnvörpu- og dragnótaveiðum, var þess ekki langt að bíða, að fiskimagnið á hinu fríðaða svæði jókst að miklum mun. Uppistaðan í vertíðaraflanum var þá línufiskur, en auk þess voru veiðarnar stundaðar með handfærum og netunt. Í því sambandi vil ég þó á það benda, að margir óttast nú, að sú hóflausa veiði, sem á undanförnum árum hefur verið stunduð í æ ríkari mæli með hinum fisknu nælonnetum á aðalhrygningarstöðvunum hér við suðurströndina, geti fyrr en varir haft hinar alvarlegustu afleiðingar. En í kjölfar friðunarinnar var hér við Faxaflóa og víðar á landinu smíðaður fjöldi smærri vélbáta, sem stundaðar voru á línu- og handfæraveiðar. Jókst þessi hagstæða útgerð að miklum mun við það aflamagn, sem á land barst, og gegndi sama máli um aðra þá staði, sem þessar friðunarráðstafanir náðu einnig til. Var hér um úrvalshráefni að ræða, sem fór til hvers konar vinnslu í fiskiðjuverunum, og fór aflamagnið stöðugt vaxandi.

Þessi hagstæða þróun fiskveiðanna hér við Faxaflóa stóð því miður skamma stund. Hér urðu alger þáttaskil, þegar það óheillaspor var stigið 1960, og leyfðar voru dragnótaveiðar að nýju í flóanum. Eftir það tók fljótt að draga úr afla þessara báta, sem fiskveiðar stunduðu með handfærum og línu, og fór svo að lokum, að flestir smærri bátarnir eða eigendur þeirra gáfust upp vegna aflaleysis. Þeir sjómenn, sem þessar fiskveiðar stunduðu á smærri bátunum, urðu því að leita til annarra atvinnugreina, en bátanna bíða þau örlög, ef engin breyting fæst á, að hið mikla verðmæti, sem í þeim stendur, rýrnar og verður að engu.

Aðalrökin af hendi þeirra, sem gerzt hafa talsmenn dragnótaveiðanna, voru þau, að vitað væri um geysimikið magn af flatfiski á grunnmiðum, sem ekki væri unnt að ná til eða hagnýta, nema þetta veiðitæki kæmi til. Reynslan hér í Faxaflóa mun hins vegar vera sú, að þegar frá er dregið byrjunartímabilið, er það bolfiskurinn, þorskur og ýsa, sem hefur verið aðaluppistaðan í afla dragnótabátanna. Er nú svo komið hér í Faxaflóa, að hér er að verða fiskilaust á flestum tímum árs, nema þá aðeins um miðdepil vertíðarinnar, í marz og aprílmánuði, í stað þeirrar fiskisældar, sem áður átti sér stað, meðan algert bann var lagt á þessa rányrkju.

Það má segja, að hættan af dragnótaveiðunum í jafnþýðingarmikilli uppeldisstöð og Faxaflóinn er felist ekki aðallega í veiði nytjafiska, heldur fyrst og fremst í hinu gegndarlausa ungviðisdrápi, sem þessum veiðum fylgir. Afli hinna stærri fiskibáta, sem hafa ekki enn sem komið er gefizt upp að fullu við línuveiðarnar, hefur hér í Faxaflóa farið síminnkandi, og ætla ég, að yfirstandandi vertíð skari þó enn fram úr í þeim efnum. Og fari svo, að engin breyting verði hér á gerð, er ekki annað sýnilegra en þessi þýðingarmikla atvinnugrein, sem jafnan hefur skilað hinu bezta hráefni, sem völ hefur verið á, leggist niður jafnt á hinum stærri fiskibátum sem þeim smærri, er þegar hafa gefizt upp.

Ég tel, að það tjón, sem landsmönnum er búið af því ástandi, sem hér hefur skapazt, verði ekki með tölum talið, enda nær það til fleiri en þeirra, sem við flóann búa eða þar í nánd, því að það er löngu vitað í gegnum ýmsar rannsóknir, sem fyrir liggja, að fiskurinn, sem fær frið og næði til að vaxa upp í Faxaflóa við þau hagstæðu skilyrði, sem þar eru frá náttúrunnar hendi, dreifist, er hann stækkar, um öll fiskimið víðs vegar við strendur landsins. hað er því brýn nauðsyn að spyrna hér við fótum og draga ekki lengur að bægja frá þeirri augljósu hættu, sem hér er á ferð.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um málið að þessu sinni, en geri það að till. mínni, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.