09.04.1964
Efri deild: 66. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í C-deild Alþingistíðinda. (2248)

142. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Sjútvn. hefur haft mál þetta til athugunar, eins og fram kemur í nál. á þskj. 430. Mælir hún með samþykkt þess, en einn nm., Helgi Bergs, var fjarverandi, þegar málið var afgreitt. N. leitaði umsagnar atvinnudeildar háskólans, fiskideildarinnar, Fiskifélags Íslands og fleiri aðila um málið.

Í svari fiskideildarinnar kemur fram, að hún telur, að að því sem vitað er um ástand þorsk-, ýsu- og skarkolastofnsins hér við land, telji hún ekki ástæðu til þess að banna dragnótaveiðar í Faxaflóa. Að öðru leyti ræðir fiskideildin aðallega um áhrif þess, sem möskvastærð dragnótarinnar hafi, þ.e. varðandi hættuna á ungviðisdrápi, og gefur einnig m.a. skýrslu um merkingar fiska og endurheimt á merktum fiskum. Kemur þar í ljós, að á árunum áður en dragnótin var leyfð endurheimtist um 9% af merkta fiskinum, en eftir að dragnótin var leyfð, hefur prósentan tvöfaldazt. Í því sambandi segir þó fiskideildin: „Er það í samræmi við aukið álag á fiskistofninn, en gefur hins vegar ekki til kynna, að of mikið sé veitt:

Í svari stjórnar Fiskifélagsins, sem kom þó eftir að n. afgreiddi málið, kemur fram, að meiri hl. stjórnarinnar er þeirrar skoðunar, að ekki sé tímabært að banna dragnótaveiðar í Faxaflóa. Í því sambandi benda þeir á, að ekki liggja fyrir neinar skýrslur frá fiskifræðingum eða álit þeirra um, að dragnótaveiðarnar hafi skaðleg áhrif á fiskistofnana í Faxaflóa. Minni hl. stjórnar Fiskifélagsins, Pétur Ottesen fyrrv. alþm., mælir hins vegar eindregið með samþykkt þessa frv. og telur nauðsynlegt til verndar og viðhalds fiskistofninum, miðað við þá tækni, sem nú er tiltæk við veiðarnar, að vernda algerlega fyrir botnvörpu- og dragnótaveiðum slíka uppeldisstöð sem Faxaflóinn er.

Þá hefur Alþingi borizt áskorun frá hreppsnefnd Gerðahrepps um að samþykkja frv. um bann við dragnótaveiðum í Faxaflóa, en í grg. með henni segir, með leyfi forseta:

„Ástæðurnar fyrir óskum okkar eru eftirfarandi :

1. Að síðan farið var að stunda dragnótaveiðar í Faxaflóa, hefur allur fiskur horfið, þannig að nú er hættur að fást afli í net, á linu eða færi. T, d. fengu bátar hér við Faxaflóa upp í 600 tonn af fiski í net á hausti, áður en dragnótaveiðarnar voru leyfðar, en nú litið sem ekkert, og áður var vertíðarhlutur hér 30-80 þús., en nú 5—16 þús.

2. Afli á stærri mótorbáta í janúar og febrúar fer hraðminnkandi.

3. Afli dragnótabáta fer stöðugt minnkandi og var hér á s.l. sumri svo lélegur, að þeir, sem stunduðu dragnótaveiðarnar, voru með tekjulægstu mönnum.

4. Þá virðist það hafa verið skakkur útreikningur hjá fiskifræðingum og öðrum dragnótaunnendum, að nauðsynlegt væri að leyfa dragnótaveiðar til þess að geta hagnýtt sér verðmesta fiskinn, sem væri flatfiskur og væri nú orðinn svo mikill, að hann lægi í lögum í Faxaflóa; enn fremur, að flatfiski lægi við tortímingu af fæðuskorti og stæði öðrum nytjafiski fyrir þrifum. Datt þá mörgum fiskifróðum manni í hug, hvernig umhorfs hefði verið í Faxaflóa, áður en dragnót og botnvarpa voru teknar í notkun. Reynslan hefur sýnt, að kolaaflinn er aðeins 20% af afla dragnótaveiðibáta. En þá hafa menn undrazt það, er þeir hafa hlustað á formenn dragveiðinótabáta ræða saman um aflabrögð á miðunum á þeim tíma, sem veiðarnar hafa verið leyfðar, að ósjaldan heyrist: Það er ekkert, ekki einu sinni andskotans koli“

Þá vill hreppsnefndin benda á, að ef Alþ. vill ekki stöðva dragnótaveiðar hér í Faxaflóa,liggur ekki annað fyrir þessum hafnarlausu byggðarlögum, sem búin voru að koma sér upp arðvænlegri aðstöðu með kaupum á opnum vélbátum, lendingarbótum og byggingu húsa, en að flýja á náðir Alþingis til að fá bætur fyrir það tjón, sem þeim var gert með opnun dragnótaveiðisvæða, og styrkja þá í breyttum atvinnuháttum:

Þá má geta þess, að bæjarstjórnirnar bæði á Akranesi, Kópavogi og Hafnarfirði hafa allar samþykkt einróma áskorun um að banna dragnótaveiðar í Faxaflóa og sömuleiðis verkalýðsfélögin og þarna er þó um að ræða forustu í þessum byggðarlögum, sem ætti að hafa það fyrst og fremst í huga, hvað væri hagstæðast til að halda uppi atvinnu í þessum byggðarlögum og bæta afkomuna frá því, sem er.

Þá vil ég geta þess, að enn fremur hefur borizt áskorun frá öllum útgerðarmönnum á Akranesi og fjölda sjómanna, samtals 227, sem gengur mjög í sömu átt, með ýtarlegri grg., sem ég sé þó ekki ástæðu til að lesa að svo stöddu, en það gengur mjög í sömu átt, og er þar hvatt eindregið til þess að samþykkja þetta frv.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um málið, en vil að öðru leyti vísa til grg. minnar við framsögu um málið hér í hv. d., þegar það var til 1. umr. Ég legg til, að d. samþ. frv. og vísi því til 3. umr.