13.04.1964
Efri deild: 67. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í C-deild Alþingistíðinda. (2250)

142. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Helgi Bergs:

Herra forseti. Þetta frv. er nú komið til 3. umr., og ég vil ekki láta það fara í gegnum allar 3 umr. í þessari hv. d. gagnrýnistaust. Að ég hef ekki fyrr andmælt þessu frv., á sína sögu. Það kom til 1. umr. í febrúarmánuði, og var stungið upp á og gert ráð fyrir, að því yrði vísað til sjútvn., en í þeirri n. á ég sæti, og þótti mér því eðlilegt, að það yrði skoðað í n., áður en ég tæki til máls um það. Það var svo tekið fyrir í sjútvn. þann 19. febrúar og þá aðeins til þess að vísa því til umsagnar til ýmissa aðila. En 19. marz var það svo öðru sinni tekið fyrir í sjútvn., og lágu þá fyrir umsagnir frá ýmsum aðilum, sem um hafði verið beðið, en þetta var seinasti starfsdagur þessarar hv. d. fyrir páskafrí, og ég hafði fengið fjarvistarleyfi til þess að fara úr bænum í brýnum erindum, og þannig atvikaðist það, að ég tók ekki þátt í meðferð þessa máls í sjútvn. Við 2. umr. var svo lagt fram álit hv. sjútvn., og er þess þar réttilega getíð, að ég hafi ekki verið á fundi, þegar málið var afgr. En þar sem ég er nokkuð annarrar skoðunar um þetta mál en aðrir nm. í sjútvn., hef ég kvatt mér hljóðs um það og langar að gera við það nokkrar aths.

Þetta frv. var sent m.a. til umsagnar Fiskifélags Íslands og fiskideildar atvinnudeildar háskólans. Umsagnir þessara aðila voru á þá lund, að Fiskifélag Íslands gat ekki mælt með samþykkt frv. Allir í stjórn Fiskifélagsins litu þannig á, að þeir gætu ekki mælt með frv., nema einn stjórnarnefndarmaður, sá aldni þinghöfðingi, Pétur Ottesen, en hann er, eins og hv. þm. er kunnugt, gamall baráttumaður hér úr þingsölunum gegn dragnótaveiði. Umsögn Fiskifélagsins fylgdi sérprentun úr tímaritinu Ægi nýtítkomnu, þar sem Jón Jónsson forstöðumaður fiskideildarinnar birtir grein um áhrif dragnótaveiðanna, en niðurstöðu þeirra er að finna í lok greinarinnar, þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í stuttu máli má því segja, að hingað til hefur ekkert það komið fram í viðbrögðum þorsk og ýsustofnanna gagnvart dragnótaveiðinni, er bendi til þess, að þeim sé meiri hætta búin af þessari veiðiaðferð en af öðrum veiðum.“ Og fiskifræðingurinn bætir við: „Við verðum að nýta þessa fiskistofna, svo sem þeir framast þola. Við höfum ekki ráð á því að láta fiskinn verða ellidauðan eða lenda í höndum útlendinga, af því að við tökum hann ekki sjálfir“

Og hér er auðvitað komið að mjöt; merkri hlið þessara mála, sem ég skal aðeins drepa á síðar . Þetta frv. felur það í sér, að óheimilt skuli að veita undanþágu til veiða með dragnót í Faxaflóa. Ég skal taka það fram, að þótt ég andmæli frv., er ekki þar með sagt, að ég vilji leyfa veiðar með dragnót í Faxaflóa. Til þess sé ég ekki ástæðu til að taka afstöðu, eins og málið liggur fyrir. Ég er ekki endilega að halda því fram, að þetta frv. gangi út af fyrir sig í ranga stefnu með því að koma í veg fyrir veiðar með dragnót í Faxaflóa, heldur hitt, að ég tel frv. algerlega óþarft sökum þess, að í l. nr. 40 frá 1960, um takmarkað leyfi til dragnótaveiða í fiskveiðilandhelgi Íslands undir vísindalegu eftirliti, er grundvallarreglan sú, að dragnótaveiðar eru óheimilar. Það er grundvallarreglan. Hins vegar er sjútvmrh. gefin með þeim l. heimild til þess að veita undanþágur, samkv. till. fiskideildar atvinnudeildar háskólans og Fiskifélags Íslands, þ.e. a.s. sjútvmrh. getur ekki veitt þessar heimildir, nema fyrir liggi um það till. frá Fiskifélagi Íslands og fiskideild atvinnudeildar háskólans. En áður en gerðar eru till. um opnun einstakra veiðisvæða, að því er segir í 1. gr. þessara l., skal Fiskifélag Íslands leita álits sveitarstjórna og annarra aðila, sem hagsmuna hafa að gæta á viðkomandi veiðisvæði, og ef álitsgerðir berast, skal ráðh. óheimilt að opna veiðisvæði eða hluta þess, nema álitsgerðirnar styðji almennt þá framkvæmd. Það segir ekki, að meiri hluti þeirra skuli styðja hana eða neitt því líkt. Það segir: „nema álitsgerðirnar styðji almennt þá framkvæmd: Og það er ekki nóg með þetta, heldur segir áfram í 1. gr. þessara laga:

„Ef sveitarstjórnir, samtök útvegsmanna, sjómanna eða verkamanna leiða rök að því, að hagkvæmara sé að stunda aðrar veiðar en dragnótaveiðar á tilteknum hlutum veiðisvæðis, og bera fram óskir um, að þeir hlutar svæðanna verði friðaðir sérstaklega fyrir dragnótaveiði, skal ráðh. í samráði við Fiskifélag Íslands verða við þeirri ósk“

Þannig er það ljóst, að samkv. gildandi lögum getur ráðh. ekki veitt heimild til dragnótaveiða í Faxaflóa né annars staðar, nema sú hugmynd hafi gengið í gegnum eina sjö hreinsunarelda. Það er ekki nóg með það, að nokkrar sveitarstjórnir á svæðinu geti komið í veg fyrir, að slíkt leyfi verði veitt, og Fiskifélagið og fiskideild atvinnudeildar háskólans geta það að sjálfsögðu með því að bera ekki fram till. um það, heldur geta einnig samtök útvegsmanna eða samtök sjómanna eða samtök verkamanna á þessum svæðum komið í veg fyrir það, að slík leyfi séu veitt. Ég geri ráð fyrir því, að þegar þetta er athugað, hljóti menn að geta fallizt á það, að núgildandi lög veita mjög sterka vernd gegn því, að leyfð sé dragnótaveiði á þeim stöðum, þar sem hún er ekki æskileg.

Ég vil þá aðeins mínna aftur á þá setningu, sem ég vitnaði í eftir forstöðumanni fiskideildar atvinnudeildar háskólans, um það, að við verðum að njóta fiskistofnana, svo sem þeir framast þola, og við höfum ekki efni á því að láta fiskinn verða ellidauðan eða lenda í höndum útlendinga, af því að við tökum hann ekki sjálfir. Nú skal ég endurtaka það, að ég held því ekki fram, að fiskurinn verði ellidauður í Faxaflóa um þessar mundir, en ég bendi á þetta vegna þess, að réttlæting okkar fyrir því, að við viljum hafa umráð yfir fiskimiðum landgrunnsins, hlýtur að falla um sjálfa sig, ef við viljum ekki eða þorum að nýta þessi mið svo sem skynsamlegt er.

Það er vissulega rétt, að það vantar mikið á, að þekking okkar sé nægileg, til þess að við getum í öllum tilfellum gert okkur skýra mynd af því, hversu langt er óhætt að ganga í þessum efnum. Og það er auðvitað þess vegna rétt, að það verður að fara með vissri gát. En svarið við þeim vanda, þekkingarskortinum, er ekki það að banna veiðar, heldur hitt, að efla rannsóknirnar og þekkingu okkar á þessum hlutum, svo sem frekast má verða. Það er auðvitað sú leið, sem fara verður í þessum efnum, og ég mundi vilja óska þess, að flm. þessa frv, vildu leggja fram krafta sína í því efni einnig.

Ég þykist með þessum orðum hafa fært að því rök, að núgildandi lög um dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands undir vísindalegu eftirliti, þar sem grundvallarreglan er sú, að dragnótaveiðar eru óheimilar, veiti nægilega vernd í því efni, sem hér er um að ræða. Niðurstaða mín er því sú, að þetta frv. sé óþarft, og auk þess óttast ég það, að ef Alþingi fer að samþykkja frv. af þessu tagi, sé hægt að mola niður smátt og smátt l. frá 1960, mylja þau smátt og smátt með því að ógilda þau á einstökum svæðum og að því mundi að mínum dómi verða eftirsjón.

Ég leyfi mér þess vegna að leggja til, að þetta frv. verði fellt.