13.04.1964
Efri deild: 67. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í C-deild Alþingistíðinda. (2252)

142. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Helgi Bergs:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. í tilefni af ræðu hv. 4. þm. Vesturl. Þau rök, sem hann flutti hér, hnigu mjög í þá átt, að það bæri ekki að heimila dragnótaveiðar í Faxaflóa. Ég hef í rauninni aldrei haldið því fram eða tekið hér upp umr. um það, hvort þær skuli heimilaðar eða ekki, en engin rök flutti hv. 4, þm. Vesturl. fyrir því, að núverandi löggjöf væri ekki nægileg til þess að koma í veg fyrir það, að dragnótaveiðar í Faxaflóa væru heimilaðar. Það voru þó tvö atriði í ræðu hv. 4. þm. Vesturl., sem ég geri ráð fyrir að hafi átt að vera röksemdafærsla í þá átt, sem ég skal aðeins gera að umræðuefni.

Hann talaði um vandkvæði á því að meta atkv. sveitarstjórna. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að samkv. 1. gr. l. nr. 40 frá 3. júlí 1960, um takmarkað leyfi til dragnótaveiða í fiskveiðilandhelgi Íslands undir vísindalegu eftirliti, er ekki um neinar atkvgr. að ræða. Það er ekki um atkvgr. að ræða, heldur er um það að ræða, að til þess að ráðh. geti veitt leyfi til dragnótaveiða, sem annars eru bannaðar, þá skal berast um það till. frá fiskideild atvinnudeildar háskólans og Fiskifélags Íslands, en „áður en þessar stofnanir gera slíkar tili.," segir orðrétt í lögunum, „skal Fiskifélag Íslands leita álits sveitarstjórna og annarra aðila, sem hagsmuna hafa að gæta á viðkomandi veiðisvæði: Hér er ekki um atkvgr. að ræða, heldur skal Fiskifélagið leita álits sveitarstjórnanna, og síðan segir: „Berist álitsgerðir, skal ráðh. óheimilt að opna veiðisvæði eða hluta þess, nema álitsgerðirnar styðji almennt," — það er ekki um það að ræða að telja atkv., heldur stendur: „óheimilt, nema álitsgerðirnar styðji almennt þá framkvæmd.“ Ég held, að það geti ekki verið neinn vafi á því, að þegar orðalagið er á þennan veg: „styðji almennt“; þá er það nægilegt til þess að koma í veg fyrir það; að nokkrar sveitarstjórnir skerist úr leik og vilji ekki mæla með þessu.

Enn fremur sagði hv. 4. þm. Vesturl., að það væri alltaf vafamál, við hvaða fyrirtæki á að takmarka atkvgr. Hér kemur aftur þessi hugmynd um atkvgr., sem er alröng, en seinasta mgr. 1. gr. 1., sem ég hef verið að vitna til, hljóðar svona:

„Ef sveitarstjórnir, samtök útvegsmanna, sjómanna eða verkamanna leiða rök að því, að hagkvæmara sé að stunda aðrar veiðar en dragnótaveiðar á tilteknum hlutum veiðisvæðis, og bera fram óskir um, að þeir hlutar svæðanna verði friðaðir sérstaklega fyrir dragnótaveiði, þá skal ráðh. í samráði við Fiskifélag Íslands verða við þeirri ósk“

Hér er ekki um það að ræða, að það sé af ráðuneytisins hálfu skipulögð einhver atkvgr., heldur hitt, að einhver þessara samtaka útvegsmanna, sjómanna eða verkamanna eða sveitarstjórnirnar finni hvöt hjá sér til þess að bera fram óskir um það, að hlutar þessara svæða verði friðaðir fyrir dragnótaveiðum.

Mér virðist þess vegna, að hv. 4. þm. Vesturl., þó að hann hafi flutt hér sjálfsagt ýmis rök fyrir því, að það beri ekki að leyfa dragnótaveiði í Faxaflóa, þá hafi hann ekki leitt rök að því, að nauðsyn berí til þess að banna þær með lögum frekar en gert er í lögum nr. 40 frá 1960.

Þó að ég ætli ekki að taka hér upp umr, við hv. 4. þm. Vesturl. um það, hvort æskilegt sé eða óæskilegt, að dragnótaveiðar séu heimilaðar í Faxaflóa, get ég þó ekki látíð hjá liða að vekja athygli á því, að það væri mjög æskilegt, ef framámenn í íslenzkum sjávarútvegi, eins og hv. 4. þm. Vesturl., gætu borið meira traust til fiskifræðinga okkar, sem þessi mál hafa rannsakað, en raun virðist vera á. Framtíð sjávarútvegs okkar liggur að mínum dómi fyrst og fremst í því, að við getum aflað okkur vísindalegrar þekkingar á stofnunum, og við verðum þess vegna að efla þá starfsemi, sem að því lýtur, og við verðum að bera traust til þeirra manna, sem við þessa hluti fást.