21.04.1964
Neðri deild: 82. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í C-deild Alþingistíðinda. (2259)

142. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 430 um breyt. á l. nr. 40 frá 1960,um takmarkað leyfi til dragnótaveiða í fiskveiðilandhelgi Íslands undir vísindalegu eftirliti, er að segja má staðbundið, þar sem það gerir aðeins ráð fyrir, að dragnótaveiði verði bönnuð á einu tilteknu svæði, þ.e. Faxaflóasvæðinu. Það mætti því segja, að þeir þm., sem þar eiga ekki beinna hagsmuna að gæta, gætu látíð afskiptalaust, hvort það yrði samþykkt eða samþykkt ekki. Þetta er þó ekki svo, því að ef þetta frv. yrði samþ., eins og það liggur fyrir, er þar um stefnubreytingu hjá hv. Alþingi að ræða í þessum málum, og snertir það að sjálfsögðu út af fyrir sig alla landsmenn, ef svo má segja, a.m.k. frá þeim stöðum, þar sem dragnótaveiðar hafa undanfarið verið leyfðar.

Það, sem ég tel að megi út á þetta frv. setja, er í fyrsta lagi það, að við athugun sýnist mér koma í ljós, að þau rök, sem fyrir því eru færð, og það er aðallega það, að ýsustofninn hafi beðið of mikinn hnekki hér í Faxaflóa, og er það byggt, að því er flm. telja, á athugun, sem gerð hafi verið á veiðum í Garðsjó, þar sem tilgreint er, hver tala veiddra fiska á togtíma var árið 1959 og aftur 1962, — ég hef athugað opinberar skýrslur og af því, sem fram kemur í áliti fiskifræðinga okkar um þetta, sýnist mér þegar í upphafi, að þessi aðalrök og má segja einustu rök fyrir þessu frv. fái ekki staðizt. Hv, 6. landsk. þm., Davíð Ólafsson fiskimálastjóri, hefur hér í ýtarlegri ræðu rakið þetta, og þarf ég því ekki að vera um það langorður, en vildi þó fara um það nokkrum orðum.

Ég er alveg sammála honum í því, að því miður komu ekki þær upplýsingar frá hv. sjútvn. Ed., sem æskilegt hefði verið og ég tel að eðlilegt hefði verið að hingað hefðu borizt með frv., en það er hið ýtarlega álit, sem bæði Fiskifélag og fiskideild sendu þessari hv. n., áður en frv. var þar afgreitt. Um veiðar þær, sem ég minntist á, togveiðar í Garðsjó, eða þær tilraunir, sem gerðar voru í sambandi við ýsustofninn þar, fjallar Jón Jónsson fiskifræðingur í grein í Ægi núna fyrir stuttu. Grein þessi er mjög ýtarleg og nokkuð almenns eðlis um þetta, birtar með henni margar myndir og segir þar sérstaklega um þetta atriði. Á 6. mynd er gerður samanburður á ýsuafla í tilraunaveiði í Faxaflóa, Eyjafirði og Skjálfanda. Tölurnar frá Faxaflóa eru meðaltöl allra tilrauna á hverju ári, en tölurnar frá hinum tveimur stöðunum eru frá sumrinu eingöngu. Myndin sýnir greinilega, að áþekkar sveiflur eru í fiskmagni á öllum þremur stöðum, en af þeim er dragnótaveiði aðeins leyfð í Faxaflóa. Hér koma því til aðrar orsakir en veiðarnar, og er skýringuna að finna í miklum sveiflum í magni hinna einstöku árganga. Ég tel, að þegar af þessari ástæðu, þar sem okkar þekkti og ágæti fiskifræðingur sýnir það og byggir það á þeirri athugun, sem hann og fiskimenn okkar hafa gert, að ýsuveiðar á þessu tiltekna svæði í Garðsjó séu nákvæmlega sömu sveiflum háðar og þær tilraunir sýna, sem annars hafa verið gerðar við Norðurland, þar sem, eins og hv. 6. landsk. þm. réttilega benti á, dragnótaveiðarnar hafa ekki verið stundaðar, þá séu þegar fallin þau rök, sem fyrir þessu frv. eru. Fyrir hv. sjútvn. Ed. lá einnig mjög ýtarlegt yfirlit yfir tilraunir, sem gerðar hafa verið um veiðar í botnvörpu til að kanna ýsustofninn. Nær það yfir tiltekin svæði og sýnir ár frá ári, hvernig þessar tilraunir hafa komið út. Varðandi Garðsjó kemur það fram, að fyrsta árið, sem skýrsla þessi nær til, þ.e. 1955, hafa veiðzt á togtíma 677 fiskar, eins og segir í skýrslunni, 1958 380, 1960 352, 1962 108, og er það sú tala, sem frv. þetta virðist byggjast mikið á. 1963 er þessi veiði aftur komin upp í 327 fiska á togtíma, en þetta kemur því miður ekki fram, hvorki í frv:, grg. þess né nál. Ef síðan er farið yfir þá skýrslu og þær athuganir, sem gerðar hafa verið um þessar veiðar í Miðnessjó, er útkoman þar þessi, en maður skyldi ætla, að ofveiði á ýsu í Faxaflóa mundi einnig hafa áhrif á veiðarnar í Miðnessjó: Árið 1956 er fyrsta árið, sem þessi skýrsla sýnir um veiðarnar, þá eru þar taldir 62 fiskar á togtíma. 1958 er talan 586, 1960 207, 1962 480 og 1963 776. Bæði grein Jóns Jónssonar og þessi skýrsla, sem fyrir liggur, eða þessar tilraunir sýna greinilega, að það eru mjög miklar sveiflur í stofninum ár frá ári, og getur ekki verið hægt að byggja svo veigamikið atriði eins og hér er farið fram á, að banna veiðar með tilteknu veiðarfæri á jafnstóru svæði og Faxaflói er, á niðurstöðu eins eða tveggja ára eða samanburði aðeins á 2 árum, eins og þar er gert og frv. allt er byggt á. Ef hins vegar þessu til frekari upplýsinga er athugað heildarmagn af veiddri ýsu á vetrarvertíð árin fyrir 1960 eða áður en dragnótin var leyfð og aftur árin 1961 og 1962, eftir að dragnótaveiði hafði verið stunduð í 3 ár, þá er ekki heldur ástaeða til að ætla, að dragnótin hafi að nokkru leyti orðið þess valdandi, að ýsustofninum sé hætta búin eða hann hafi verið ofveiddur. Á árunum 1957—1960 veiddust á vetrarvertíð samkv. skýrslum í Ægi að meðaltali 13655 tonn. Árin 1961 og 1962 veiddust að meðaltali af ýsu 15155 tonn. Nú er það um veiði á vetrarvertíð, að aflinn kemur að langsamlega mestu leyti á land á svæðinu frá Ísafirði suður um að Hornafirði, en einmitt á þessu sama svæði er það, sem dragnótin hefur eingöngu verið leyfð og stunduð. Það mætti kannske segja, að þetta væri ekki fyllilegur samanburður, að taka heildarmagnið á vetrarvertíð af þessari fisktegund, það gætu verið misjafnlega margir bátar á veiðum og annað slíkt. En ef við tökum dæmið á annan veg eða lítum á það heildarmagn, sem veiðzt hefur, og aftur, hvað hlutfallslega mikill hluti af heildarmagninu er ýsa, verður dæmið kannske enn þá gleggra og raunhæfara. Eins og ég sagði áðan, veiddust á þessum árum, 1957–1960, á svæðinu frá Ísafirði að Hornafirði á vélbátaflotann, eða á því svæði má segja nær eingöngu, að meðaltali 13555 tonn af ýsu, en heildarmagnið var þá 168 þús. tonn, sem bátaflotinn skilaði á land þessi ár frá janúar byrjun til maíloka. Ýsumagnið þau árin, áður en farið var að stunda dragnótaveiðar á þessu svæði, var 8.1% af heildarmagni því, sem vélbátaflotinn þá bar að landi. Árin 1961 og 1962 var aflamagnið að meðaltali á vetrarvertíð hjá bátaflotanum 160 þús. tonn, en það magn af ýsu, sem þessi ár veiddist á sama tíma, var þá rösklega 15 þús. tonn, eða um 11% af heildarmagninu. Þetta sýnir, að ýsumagnið hefur þessi ár, eftir að dragnótin var leyfð á þessu svæði og eftir að dragnótin var stunduð á þessu svæði, ekki minnkað. Það hefur aukizt úr 8.1% í 11% af heildarmagninu. Ég tel, að þetta séu rök fyrir því, að ekkert liggi fyrir um það enn, eins og fiskifræðingar vafalaust réttilega segja, að ýsustofninn hafi beðið við það hnekki, að dragnótin var leyfð.

En það, sem er þó kannske að mínum dómi mest athugavert við það, ef Alþ. samþykkti þetta frv., er það, sem hv. 6. landsk. þm. benti á, að með því væri Alþ. að ómerkja allar niðurstöður fiskifræðinga okkar, sem þeir hafa gert á undanförnum árum. Ég tel, að Alþingi megi ekki undir neinum kringumstæðum láta sig henda slík vinnubrögð. Þeir hafa alveg óvéfengjanlega í sambandi við þetta mál og mjög ýtarlega, eins og hv. 6. landsk. þm. benti á, gert grein. fyrir skoðun sinni á málinu, og er hún alveg einróma og mjög vel rökstudd um það, að þeir telji ekki, að það sé enn þá tímabært að banna dragnótaveiði, hvorki á þessu tiltekna svæði, Faxaflóa, né annars staðar. Þeir byggja þetta, eins og hér hefur verið upplýst af siðasta ræðumanni, á margra ára skýrslum, sem teknar eru úr öllum veiðisvæðum og þeir að sjálfsögðu vinna úr og gera sér grein fyrir eftir þeim, hvernig ástand mála í okkar fiskveiðum er ár frá árí. í bréfi Fiskifélags Íslands, dags. 6. apríl, til hv. sjútvn. Ed. Alþingis segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á fundi félagsstjórnar 24. f. m. samþykkti stjórnin, að hún teldi ekki tímabært að taka ákvörðun um breytingu á téðum lögum, enda lægju ekki fyrir neinar skýrslur frá fiskifræðingum eða álit þeirra um, að dragnótaveiðarnar hafi skaðleg áhrif á fiskistofnana í Faxaflóa“

Það er tekið fram, að einn nm., Pétur Ottesen, var þessu mótfallinn ag vildi; að Fiskifélagið mælti með frv.

Niðurstöður fiskideildar eru nákvæmlega á sama veg, eins og hv. 6. landsk. þm. reyndar benti á. Þær er þar samandregnar í fimm línum, einum kafla, sem þannig hljóðar, með leyfi hæstv. forseta:

„Hér skal ekki farið frekar út í þær rannsóknir, sem gerðar hafa verið á ýsustofninum í Faxaflóa og annars staðar við landið en í stuttu máli má segja, að þær gefi ekki til kynna, að ýsustofninum sé hætta búin með núverandi sókn.”

Ég vil þessu til viðbótar undirstrika það, sem hv. 6. landsk. þm. benti hér á. Það er niðurstaða sú, sem Jón Jónsson kemst að í grein sinni í Ægi nýlega, þar sem hann einnig, eftir að hafa mjög ýtarlega rakið allt þetta mál, birt um það mjög fróðlega skýrslu og tæmandi, að ég tel, kemst að nákvæmlega sömu niðurstöðu og fram kemur í því áliti fiskideildar og Fiskifélags, sem fyrir hv. sjútvn. Ed. lá, að ekki sé tímabært og ekki ástæða og engin rök fyrir því að banna dragnótaveiðar enn sem komið er. Ég satt að segja mundi telja það mjög hörmuleg vinnubrögð hjá hv. Alþingi, ef það, eftir að þetta liggur þannig alveg ljóst fyrir, bæði í opinberum greinum eftir fiskifræðinga okkar og í umsögnum, sem Alþ. hafa verið sendar um málið, léti það henda sig að samþ. frv. um að banna dragnótaveiði, þótt ekki sé nema á tilteknu svæði, þvert ofan í álit þessara manna okkar, sem við, eins og hv. 6. landsk. þm. réttilega benti á, byggjum allar okkar niðurstöður á í sambandi við fiskveiðar okkar. Það er alveg rétt, sem hann sagði, þegar á liggur, eru þetta okkar fulltrúar á erlendum vettvangi og þeir, sem af hálfu ríkisstj. reka erindi þjóðarinnar í sambandi við landhelgismál okkar. Þeir hafa þessa menn sér til aðstoðar, þeir byggja allt sitt á því, og þeir erlendu menn, sem þeir eiga viðræður við, hafa tekið þeirra niðurstöður trúanlegar, eins og hv. 6. landsk. þm. réttilega benti á. Og ef við allt í einu hér á Alþingi ætlum að fara að lýsa því yfir, að það séu ekki þessir menn, sem hafi vit á fiskveiðimálum okkar, heldur við, sem hér sitjum, mundi ég telja það mjög illa farið, og ég tel alveg hiklaust, að þetta megi ekki henda Alþingi, að slíku frv., eins og hér liggur fyrir, verði hleypt í gegn eða það verði afgreitt sem lög héðan. Ég tel það allt of viðurhlutamikið, og ég mundi telja það mikið vanmat á starfi þeirra manna, sem um langt árabil hafa starfað í þjónustu ríkisins við þessi mát og ég held að allra dómi skilað þar mjög góðum árangrí. Það væri beint vantraust á þá, sem ég tel að Alþ. hafi ekki nokkra ástæðu til þess að sýna þeim og geti verið þjóðinni allri og sérstaklega að sjálfsögðu fiskveiðimálum okkar öllum ekki aðeins til vansæmdar, heldur til stórhnekkis.