21.04.1964
Neðri deild: 82. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í C-deild Alþingistíðinda. (2262)

142. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð í sambandi við það, sem fram kom hjá hv. 3. þm. Norðurl. e. (GíslG), þegar hann spurðist Fyrir um, hvert álit sjómannamundi vera um þetta mál. Þar sem ég bezt veit um það og hef kynnzt því, mun það vera þannig í stórum dráttum, að þar sem dragnótaveiðar hafa ekki verið stundaðar, munu sjómenn yfirleitt ekki vera því meðmæltir, en þar sem þær hafa verið stundaðar, eru þeir því samþykkir. Ég bendi til þess, að í Vestmannaeyjum, þar sem ég hygg að dragnótaveiðar hafi verið einna lengst stundaðar og mest stundaðar, að þar hefur sjómannafélagið árlega, síðan þessi lög voru samþykkt, mælt með því, að dragnótaveiðar væru leyfðar.

Í þessu sambandi vil ég einnig benda á það, sem ég man nú ekki, hvort kom fram hjá mér í fyrri ræðu eða hv. 6. landsk. þm., að þótt það sé alveg rétt, sem hv. síðasti ræðumaður kom hér inn á, að fiskifræðingar okkar væru mjög varfærnir í sínum umsögnum um þetta mál, liggur þó sú staðreynd fyrir alveg ljós, að t.d. á svæðinu frá Hornafirði að Reykjanesi hefur það sýnt sig, að veiðar, sérstaklega ýsuveiðar, hafa undanfarin ár farið vaxandi, en ekki minnkandi eftir að dragnótaveiðarnar voru leyfðar. Ýsuafli í hlutfalli við annan fisk á vetrarvertíð hefur farið vaxandi á þessu svæði, en ekki dregizt saman, og almennt er það vitað, að fiskigengd er núna þessa vertíð meiri á þessu svæði en hún sennilega hefur verið um langt árabil, þannig að ef dæma ætti út frá þessari reynslu, virðast engin rök fyrir því, að dragnótaveiðin hafi nokkur skaðleg áhrif, hvorki á ýsustofninn né fiskistofninn í heild.

Nú skal ég viðurkenna, að það kemur fram í nál. frá hv. sjútvn. Ed., að 227 aðilar á Akranesi hafa skrifað undir áskorun um að banna dragnótaveiðarnar. Dragnótaveiðar hafa aldrei verið mikið stundaðar frá Akranesi, það er ekki sú bátastærð, sem þar hentar, og sennilega hefur þetta mál verið túlkað þar þannig, eins og fram kemur í grg. með frv., þar sem 1. flm. þess er frá þeim stað. Maður verður að ætla, að fyrir þeim mönnum, sem þar skrifuðu undir, hafi legið þær upplýsingar, sem fram koma í grg., en ekki þær upplýsingar, sem fram koma frá fiskifræðingum okkar, Fiskifélagi og fiskideild. Einnig í þessu sambandi er rétt að benda á það, þegar um þessi mál er rætt, að því miður liggur það fyrir, að fiskimagn hefur dregizt saman fyrir Norðurlandi öllu, að ég hygg. Það hefur ekki um langt árabil verið stunduð dragnótaveiði á þessu svæði. Ég segi, að ef dragnótin hefði verið leyfð á sínum tíma, þegar lögin voru samþ. 1960, hefði vafalaust komið krafa að norðan um það að banna hana aftur á þeim forsendum, að fiskmagn þar hefði dregizt saman, þannig að þetta út af fyrir sig sýnir, að það ber að yfirvega mjög rækilega öll rök, sem fyrir hendi eru, þegar fjallað er um mál eins og hér liggur fyrir, bann á veiði með ákveðnum veiðarfærum. Það verður að vega og meta öll þau rök, sem gætu legið því til grundvallar, að slíkt væri eðlilegt. Það má ekki láta blekkja sig á árangri á staðbundnu svæði, eins og ég benti á í fyrri ræðu minni að frv. þetta er byggt á. Heildarmyndin er sú alveg óvéfengjanlega, að það er engin ástæða til þess að ætla það, að dragnótaveiðin hafi neitt orsakað minnkandi aflamagn, hvorki af ýsu né annarri fisktegund, síðan lögin um leyfi til dragnótaveiða voru samþ. árið 1960 á svæðinu frá Ísafirði, eins og ég sagði áðan, allt til Hornafjarðar, það er það svæði, þar sem dragnót hefur verið stunduð á undanförnum árum.

Ég endurtek: Það, sem ég veit um álit sjómanna, en náttúrlega mest úr mínu heimahéraði, er það að þeir, sem þekkja þetta veiðarfæri og veiðarnar, telja, að það beri að halda þeim áfram og það valdi ekki því tjóni, sem flm. þessa frv. gera grein fyrir í nál. eða gera grein fyrir í grg. með frv., og þeir eru ekki á því, a.m.k. liggur það örugglega fyrir í Vestmannaeyjum og reyndar víða, að sjómannafélög, sem til þekkja, eru ekki á því, að slíkt bann eins og hér er lagt til sé eðlilegt.