21.04.1964
Neðri deild: 82. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í C-deild Alþingistíðinda. (2263)

142. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Davíð Ólafsson:

Herra forseti. Ég mun ekki lengja þessar umræður hér, enda gerist þess ekki þörf á þessu stigi, þar sem bæði hv. 3. þm. Vestf. og hv. 3. þm. Sunnl. hafa að nokkru leyti svarað vissum atriðum í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. e. Það eru aðeins 2 eða 3 atriði, sem mig langaði að. minnast hér á af því, sem hann sagði.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði eitthvað á þá leið, að ég hefði sagt nokkuð mikið, þegar ég lét í ljós þá skoðun, að lögin frá 1960 um dragnótaveiðarnar væru dæmi um það, hvernig ekki ætti að setja reglur um fiskveiðar. Ég leyfði mér að viðhafa þessi orð vegna þess, að ég tel, að þessi lög séu til varnaðar fyrir Alþ. síðar meir, þegar að því kemur, að það þarf að fara að ræða alvarlega um það, hvernig við eigum að setja reglur um fiskveiðar okkar, vegna þess að í þessum lögum er blandað saman tvennu mjög ólíku. Annars vegar er talað um vísindalegt eftirlit með veiðunum, en hins vegar er það raunverulega gert óframkvæmanlegt að byggja á nokkru vísindalegu eftirliti með því að leggja valdið um það, hvort veiðar skuli leyfðar eða ekki, í hendurnar á aðilum, sem hafa ekki tök á því að meta það, hvort veiðarnar skuli leyfðar út frá eðlilegum sjónarmiðum um fiskveiðarnar. hað eru, eins og ég gat um áðan, mörg ólík sjónarmið, sem koma til greina, þegar þessir aðilar taka sina afstöðu, sem maður skilur vel og eru vel skiljanleg, þegar svo stendur á, en það eru ekki skynsemissjónarmið með tilliti til fiskveiða, sem þar ráða fyrst og fremst. Og það er eins og hv. þm. sagði, að það fer fjarri því, að með 1. 1960 hafi ekki verið tekið tillit til vísindamannanna, þar sem það sé einmitt fyrsta skilyrði, sem sett sé í 1. gr. l. Á þetta get ég ekki fallizt. Það stendur að vísu í 2. mgr. 1. gr. l. svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ráðh. getur samkv. till. fiskideildar atvinnudeildar háskólans og Fiskifélags Íslands ákveðið fyrir eitt ár í senn, að dragnótaveiði sé heimil á tilteknu svæði eða svæðum á tímabilinu“ o.s.frv. Þarna segir sem sé, að ráðh. geti samkv. till. þessara aðila leyft þessar veiðar. En svo kemur 3. mgr.: „Áður en gerðar eru till. um opnun einstakra veiðisvæða, þá skal Fiskifélag Íslands leita álits sveitarstjórna og annarra aðila, sem hagsmuna hafa að gæta á viðkomandi veiðisvæðum: Áður en till. eru gerðar um opnun veiðisvæða, verður því að leita álits þessara mörgu aðila, þannig að það, sem er ákveðið í 2. mgr., er raunverulega tekið aftur í þeirri 3. Og 3. mgr. segir raunverulega, að álit þessara aðila, þ.e. fyrst og fremst fiskifræðinganna, sem þarna koma til greina, þetta er undir vísindalegu eftírliti, það eigi alls ekki að ráða neinu, ef hinir aðilarnir leggjast gegn því, og það eru, eins og ég hef margoft sagt, allt önnur sjónarmið, sem ráða um ákvörðun þeirra aðila. Þetta held ég að rökstyðji það, sem ég sagði áðan, að þessi lög eru einmitt dæmi um það, hvernig ekki eigi að setja reglur um fiskveiðar.

Það er alveg rétt hjá hv. 3. þm. Norðurl. e., að vísindamennirnir eru varkárir .í sínum umsögnum, og það eiga þeir líka að vera. En hvort sem má kalla, það varkárni eða gefa því eitthvert annað nafn, eru þeir a.m.k. mjög ákveðnir í því, sem þeir segja um áhrif dragnótaveiðanna, og ég vil þó með tilliti til þess, sem hv. þm. sagði um varkárni þeirra vísindamannanna, leggja enn þá meira upp úr því, að þeir skuli vera, svona ákveðnir í sínum umsögnum um áhrif dragnótaveiðanna og um þetta frv., sem hér liggur fyrir. Þeir geta sjálfsagt ekki dæmt út frá neinu öðru en því, sem þeir vita um ástand stofnanna eftir áralangar rannsóknir. En þegar þeir taka svo til orða, að af því, sem vitað er um ástand þorsk-, ýsu- og skarkolastofnanna hér við land, þá telji þeir ekki ástæðu til að banna dragnótaveiðar í Faxaflóa, er það mjög ákveðin umsögn, sem byggist á áralöngum rannsóknum, og þeir mundu ekki taka svo ákveðið til orða, ef þeir væru ekki alveg ákveðið þeirrar skoðunar, að það væri engin ástæða til þess vegna fiskistofnanna að banna þessar veiðar. Og sama kemur fram í grein, sem ég vitnaði í áðan. Þar er um að ræða mjög ákveðna skoðun þess vísindamanns, sem þar lætur í ljós álit sitt.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. ræddi um það, sem er mjög oft talað um, að fiskimennirnir hafi fengið sína reynslu af dragnótaveiðunum hér fyrr á árum og þeir hafi séð og reynt, að þessar veiðar voru skaðlegar, og meti það út frá því, sem þeir sáu, hvað kom um borð í bátinn. Nú ætla ég ekki að draga það í efa, að þar sem veiðar voru stundaðar hér á árunum fyrir stríð og alveg fram til ársins 1952 með þeim veiðarfærum, sem þá voru notuð, hafi stafað af þessu nokkur hætta. En ég lýsti því áðan, að á þessu hefði orðið gerbreyting frá því, sem var á þeim tíma, og breytingin liggur í því fyrst og fremst, að þetta veiðarfæri er á engan hátt það sama og það var. Það er ekki hægt að meta það á sama hátt og áður með tilliti til þeirrar hættu, sem af því stafaði fyrir stofninn, vegna þess, hvernig því hefur verið breytt að því er möskvastærðina snertir. Því er lýst í þessari grein, sem ég gat um áðan, hvaða áhrif mismunandi möskvastærð hefur á veiðarnar, og ég ætla ekki að fara út í það frekar. Þetta er atriði, sem ekki aðeins okkar vísindamenn hafa rannsakað og geta borið um, heldur er þetta atriði, sem er búið að vera nú líklegast áratugum saman í rannsókn hjá vísindamönnum margra þjóða, og sérstaklega nú á allra síðustu árum hefur verið lögð í það mjög mikil vinna og margra færra vísindamanna að ganga úr skugga um það, svo að óyggjandi væri, hver áhrif mismunandi möskvastærð hefur á veiðarnar, og það hefur komið alveg ótvírætt í ljós, að með því að stækka möskvann er hægt að hafa þau áhrif, að mikið af smáfiskinum sleppur út úr nótinni. Um þetta er nú alls ekki deilt lengur meðal vísindamanna. Það voru um tíma á þessu nokkuð skiptar skoðanir. En það hefur komið í ljós með bættri rannsóknartækni, sem notuð er nú, frá því, sem áður var, m. a. með því að geta fylgzt nákvæmlega með því, sem gerist niðri í sjónum, með sjónvarpstækjum og ljósmyndavélum og kvikmyndavélum, svo að hægt er að fylgjast nákvæmlega með, hvað skeður, þegar varpan er dregin í gegnum sjóinn, hvaða áhrif möskvastærðin hefur á mismunandi stærðir fiska, og þetta eru þau atriði, sem nú eru til fullkomnar og öruggar upplýsingar um. Það er þetta, sem hefur skeð nú á seinni árum, eftir að dragnótin var leyfð aftur. Þá var búið að stækka möskvann úr 60—70 mm upp í 120 mm, þannig að það er gífurleg breyting, sem þarna hefur verið gerð, og kannske ekki von af leikmönnum, að þeir geri sér Ijóst, hvaða þýðingu hún hefur.

Ég vil svo aðeins að lokum geta þess, að sérstaklega með tilliti til þessa frv., af því að það snertir beint aðeins einn tiltölulega lítinn blett við landið, þó þýðingarmikinn, því að á þessu svæði stunda nokkrir tugir smábáta veiðar, — ég kalla það smábáta, báta upp í 35-40 tonn, þeir eru nú orðnir þannig settir, að þeir eiga ekki margra kosta völ, þegar þeir ætla að gera út þessa stærð báta, miðað við það, að hér er komið mikið af stórum bátum, sem hafa tekið til sín mjög mikinn mannskap og gert þessum minni bátaeigendum mjög erfitt fyrir um að fá fólk á bátana og hafa því óneitanlega þrengt kosti minni bátanna. Það eru þessir bátar, sem stunda dragnótaveiðarnar hér í Faxaflóa og annars staðar. Með því að banna þeim þessar bjargir er enn verið að þrengja þeirra kosti, en auk þess hefur sá afli, sem á dragnótabátana fæst hér í flóanum, mikla þýðingu fyrir fólkið í veiðistöðvunum, sem vinnur við vinnslustöðvarnar, því að sú er nú raunin, að verulegur hluti af þeim fiski, sem vinnslustöðvarnar fá, kemur frá dragnótabátunum, og er það því mikið atvinnuatriði fyrir fólkið í bæjunum við Faxaflóa. Og í þriðja lagi — því má ekki heldur gleyma — hefur það ekki litla þýðingu fyrir fiskmarkaðinn hér í Reykjavík og í nágrannabyggðum, að dragnótaveiðarnar eru stundaðar, með því að reynslan varð sú, á því tímabili, sem þær voru ekki stundaðar hér í flóanum, að neytendur áttu mjög erfitt með það að fá bæði það úrval af fiski til neyzlu og þau gæði, sem viðunanleg voru. Allt eru þetta atriði, sem verður að taka tillit til, þegar þetta mál er metíð, og líta á það frá öllum þessum hliðum.

Það er svo að lokum eitt atriði, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. minntist á, en það var um skýrslurnar um afla dragnótabátanna við Faxaflóa. Þær skýrslur eru til fyrir 1960, 1961 og 1962, því miður er ekki búið að vinna þær alveg út fyrir 1963, en ég geri ráð fyrir því, að sjútvn., sem fær þetta mál til meðferðar, muni kynna sér þessar skýrslur, sem er auðvelt að fá frá Fiskifélaginu, og sé ég því ekki ástæðu til þess að fara að þylja þær tölur upp nú að þessu sinni, enda gefst hv. n. betra tækifæri til þess að kynna sér þær, þegar þær liggja alveg fyrir.