27.02.1964
Efri deild: 53. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 960 í C-deild Alþingistíðinda. (2274)

168. mál, söluskattur

Flm. (Daníel Ágústínusson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja frv. á þskj. 311 til l. um breyt. á lögum nr. 10 frá 22. marz 1960, um söluskatt. Ég hef áður flutt svipað frv. hér á hv. Alþ., en það hefur ekki orðið útrætt.

Lögin um söluskatt í sinni núv. mynd eru senn fjögurra ára. Skattheimta ríkisins í formi söluskatts fer stöðugt vaxandi vegna hækkaðs verðlags, aukinnar umsetningar og þeirrar hækkunar, sem á honum var gerð í vetur úr 3% í 51/2%. Söluskatturinn er ranglátur, af því að hann lendir með mestum þunga á þeim, sem minnsta getu hafa til að greiða til opinberra þarfa. Hann fellur þyngst á barnmargar fjölskyldur og stór heimili. Hann er óréttlátur neyzluskattur, og því hærri sem hann er, því óréttlátari er hann. Þá er sá grunur sterkur, að miklar fjárhæðir séu innheimtar af almenningi í formi söluskatts, sem aldrei komast á leiðarenda. Gerir það málið enn ranglátara og óvinsælla.

Með frv. þessu er ekki lagt til atlögu við söluskattinn í heild. Slíkt má telja vonlaust, eftir það, sem áður hefur gerzt, m.a. nýlega hér á Alþ., er söluskatturinn var hækkaður í sambandi við lögin um stuðning við sjávarútveginn o. fl. Hér er aðeins lagt til að sníða nokkuð augljósa vankanta af lögunum. Það eru tekin fá atriði, sem snerta starfsemi og þjónustu. Er farið mjög hóflega í breytingar í þeirri von, að um þær geti náðst samkomulag á þessu þingi. Hér er ekki um þær fjárhæðir að ræða, sem geta skipt verulegu máli fyrir ríkissjóð, og allar stefna þær að því að draga úr óvinsældum söluskattsins í framkvæmd, og það ættu vissulega sumir að kunna að meta.

Fjögurra ára reynsla hefur leitt í ljós, að þau viðbótarundanþáguákvæði í 7, gr. laganna um söluskatt frá 1960, sem hér er lagt til að tekin verði upp, eru eðlileg og sjálfsögð, enda héldu margir stuðningsmenn söluskattsins í upphafi, að sum þau atriði, sem hér eru nefnd, lentu í undanþágu samkv. ákvörðun ráðh. En í niðurlagi 7. gr. l. um söluskatt segir, með leyfi forseta: „Ráðherra kveður nánar á um það, hvað fellur undir undanþáguákvæði þessarar gr. og næstu gr. hér á undan: Er þar enn fremur átt við undanþáguákvæði 6. gr., sem fjallar um viðskipti eða sölu á vörum eða verðmætum. Með leiðbeiningum, sem ráðh. hefur gefið út handa skattheimtumönnum sínum, er í ýmsum atriðum seilzt lengra en lögin ætlast til, eins og ég vik að síðar. Slíkt er vitanlega alveg óviðunandi.

Skal ég næst víkja að breytingum, sem skipta má niður í 4 aðalatriði.

1) Lagt er til, að vinna með skurðgröfum, jarðvinnsluvélum og hvers konar vegagerðarvélum sé undanþegin söluskatti. Samkv. 7. gr. l. er vinna við húsbyggingar og aðra mannvirkjagerð, svo og vinna við endurbætur og viðhald slíkra mannvirkja, undanþegin söluskatti. Það virðist því mjög eðlilegt, að ræktunarframkvæmdir bænda, hvort sem um er að ræða skurðgröft eða jarðvinnslu, séu ekki síður undanþegnar söluskatti. Jarðræktarframkvæmdir eru dýrar og styrktar af ríkissjóði samkv. jarðræktarlögunum, þótt í smáum stíl sé. Sama máli gegnir um vegagerðarvélar, skattlagning á þær er ekkert annað en skerðing á fjárveitingu til vegamála, en vegagerðin er ólíklegur tekjustofn fyrir ríkissjóð.

2) Samkv. 7. gr. 1. um söluskatt er vinna við skipasmíði og flugvélaviðgerðir undanþegin söluskatti. Það er eðlilegt, að sama gildi um landbúnaðarvélar, hverrar tegundar sem er, og vegagerðarvélar, svo að aðalatvinnuvegum þjóðarinnar sé ekki mismunað. Með frv. er lagt til, að úr misræmi þessu verði bætt. Með auknum vélakosti landbúnaðarins hefur sú orðið þróunin hin síðari ár, að búnaðarfélög og ræktunarsambönd hafa stofnsett viðgerðarverkstæði eða gerzt aðilar að þeim. Vinna, sem á verkstæðum þessum er unnin fyrir bændur, er framkvæmd á raunverulegu kostnaðarverði.

3) Rekstur sjúkrahúsa er undanþeginn söluskatti samkv. 7. gr. l. Hins vegar hafa skattheimtumenn ríkissjóðs þau fyrirmæli, að þvottahús bæjar- og sveitarfélaga og annarra opinberra aðila, þar með talin þvottahús sjúkrahúsa, séu söluskattsskyld af allri starfsemi sinni. Það eru engin rök, sem mæla með því, að starfsemi þessi sé skattlögð til ríkissjóðs. Má jafnframt á það benda, að sjúkrahúsin eru yfirleitt rekin með miklum halla og njóta jafnan daggjalda frá ríkissjóði. Sameiginleg þvottahús margra heimila með öflugum og fjölbreyttum vélakosti við heita staði, þar sem því verður við komið, eru bæði fyrir einstaklinga og þjóðarheildina skynsamleg og heppileg ráðstöfun, sem hefur margvíslegan sparnað í för með sér. Þessi samhjálp við rekstur heimilanna má aldrei verða tekjustofn fyrir ríkissjóð.

4) I,eiksýningar og samkomur menningar- og líknarfélaga verði undanþegnar söluskatti. Framangreind félög og félagasamtök eiga það sameiginlegt að vanta fé til starfsemi sinnar og berjast í bökkum fjárhagslega, enda njóta þau mörg opinberra styrkja. Það er því ástæðulaust fyrir ríkissjóð að reyta af tekjum þeim, sem leiksýningar og samkomuhald geta veitt. Oft er alls ekki um neinn hagnað að ræða og jafnvel tap, en samt skal söluskattur lagður á alla selda aðgöngumiða, og svo langt er gengið í skattheimtunni að legg,ja söluskatt á samkomuhald, þó að engin aðgöngumiðasala fari fram.

Meginefni frv. eru þá eftirgreind atriði:

1) Að öll vinna með skurðgröfum, jarðvinnsluvélum og hvers konar vegagerðarvélum verði undanþegin söluskatti.

2) Að viðgerðir á tækjum þessum séu ekki söluskattsskyldar frekar en viðgerðir á skipum og flugvélum.

3) Að þvottahús sjúkrahúsa bæjar- og sveitarfélaga og samvinnuþvottahús verði undanþegin söluskatti, enda er rekstur sjúkrahúsa það nú í tögum.

4) Að leiksýningar og samkomur menningar og líknarfélaga verði leystar frá söluskatti.

Af þessu ætti að vera tjóst, að hér er einungis um fá og einföld atriði að ræða. Reynslan hefur leitt í ljós, að allt eru þetta vankantar á óskynsamlegri löggjöf og því brýn ástæða að þrjózkast ekki lengur við að sníða þá af. Hér er ekki um að ræða tekjuskerðingu fyrir ríkissjóð, sem skiptir verulegu máli, og innheimtan á þeim atriðum flestum, sem hér er lagt til að njóti undanþágunnar, er seinleg og erfið. Því vænti ég, að Alþ. telji breytingar þær, sem í frv. felast, sanngjarnar og eðlilegar eftir þá reynslu, sem fengin er.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til, að frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn.