05.03.1964
Efri deild: 56. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 963 í C-deild Alþingistíðinda. (2279)

175. mál, orlof

Flm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Það frv. um breyt. á orlofslögum frá 1943, sem ég flyt hér, felur í sér eftirtalin efnisatriði: Í fyrsta lagi, að lágmarksorlof þeirra, sem lögin taka til, verði ákveðið 1 3/4 úr degi fyrir hvern unninn mánuð á næstliðnu orlofsári, en það svarar til þess, að orlofstíminn sé lengdur úr 18 dögum virkum í 21 dag, ef um fullvinnandi mann er að ræða. Í öðru lagi, að konur missi ekki neins í varðandi rétt til orlofs, þótt þær séu frá vinnu í allt að 3 mánuði vegna barnsburðar. Í þriðja lagi, að orlofsfé sé ákveðið 8% af kaupi í stað 6%, eins og nú er í gildi. í fjórða lagi, að fólk í föstu starfi fái fullt orlofsfé greitt af kaupi sínu fyrir eftir-, nætur- og helgidagavinnu. Og loks í fimmta lagi,. að bætt verði í lögin heimildarákvæði á þá lund, að ríkisstj. sé heimilað að fela Alþýðusambandi Íslands þá framkvæmd orlofslaganna, sem ella er falin póststjórninni, þ.e.a.s. útgáfu orlofsbóka og orlofsmerkja, sölu orlofsmerkja, afhendingu orlofsbóka og greiðslu orlofsfjár.

Um þetta mál í heild er það fyrst að segja, að hinni íslenzku orlofslöggjöf hefur aðeins einu sinni verið breytt, svo að talizt geti, á þeim rösklega tveimur áratugum, sem nú eru liðnir frá því að hún var sett, en sú breyting var gerð árið 1957, þegar þáv. ríkisstj. og félmrh. hennar beittu sér fyrir allverulegum lagfæringum. í fyrsta lagi þeirri, að orlofstími og orlofsfé yrði ákveðið í samræmi við þá þróun mála, sem þá var orðin, að því er þessi atriði snerti, með samningum verkalýðsfélaga og atvinnurekenda, þ.e.a.s. að orlofstíminn var lengdur með lögum úr 12 í 18 virka daga og orlofsfé hækkað úr 4% í 6% af kaupi, en þessi aukni orlofsréttur hafði náðst í tveimur vinnudeilum, desemberverkfallinu 1952 og verkfallinu mikla vorið 1955. Í annan stað var svo hlutarsjómönnum tryggður fullur réttur til þess að fá orlof sitt greitt úr hendi atvinnurekenda, en áður áttu þeir aðeins rétt á helmingi raunverulegs orlofsfjár frá vinnuveitendum. Í þriðja lagi var svo ákveðið, að sömu reglur skyldu gilda um fyrningu orlofsfjár og annarra kaupgreiðslna.

Með þessum breytingum 1957 var farið að þeirri sjálfsögðu lágmarksreglu, að fylgt væri eftir með lögum þeim umbótum, sem um hafði verið samið milli atvinnurekenda og verkalýðsfélaga, og þó gengið nokkru lengra í sumum greinum. Löggjafinn veitti þannig nokkrar nýjar réttarbætur. En eins og ég sagði áður, hefur síðan verið um algera kyrrstöðu að ræða af hálfu löggjafarvaldsins, þrátt fyrir það þó að ofur lítið hafi mjakazt í áttina eftir samningaleiðinni. Þannig var um það samið í lok vinnudeilna vorið 1961, að orlofsfé yrði greitt 6% af öllu kaupi, einnig eftir-, nætur- og helgidagavinnu, en sú réttarbót hefur ekki enn verið staðfest í lögum, og verða því t.d. allir, sem teljast í föstu starfi, enn að una því að fá ekki greitt orlofsfé af yfirvinnu, en það þýðir aftur, þegar tekin er með í reikninginn hin mikla almenna yfirvinna, sem nú tíðkast, að það er mjög langt frá því, að þetta fólk njóti fullra launa í orlofi sinu, svo sem vera ber og ávallt hefur í rauninni verið gengið út frá, frá því fyrst að lög og reglur um orlof tóku gildi. Það er líka næsta auðsætt, að tekjuþörf er meiri, en ekki mínni, miðað við orlofstímann, heldur en ella, og er tekið nokkurt tillit til þess í því frv., sem hér er flutt. Þá er og þess að geta, að ýmis samtök launafólks hafa nað með samningum ákvæðum um lengri orlofstíma í ýmsum tilfellum a.m.k. en löggjöfin gerir ráð fyrir. Af þessu er ljóst, að orlofslögin, eins og þau nú eru, eru að ýmsu leyti orðin úrelt, og verður sú staðreynd þó enn þá ljósari, ef litið er til annarra landa, t.d. hinna Norðurlandanna, en þar hafa á síðustu tímum verið gerðar verulegar umbætur í þessum efnum.

Fullkomnust orlofslöggjöf á Norðurlöndum mun nú vera í Svíþjóð, en frá og með þessu ári, árinu 1964, fær sænskt verkafólk lágmarksorlof í fjórar vikur á ári og orlofsfé er þar ákveðið 9% af kaupi. Lög um orlof voru endurskoðuð þar í landi af þingnefnd á árinu 1962, og hafði sú nefnd lagt til við þingið, að orlofsfé yrði 8%, en í meðförum þingsins var orlofsféð hækkað í 9%. Sýnir sú málsmeðferð sænska þjóðþingsins vissulega mjög vel, hversu Svíar leggja mikið upp úr þeim réttindum, sem hér ræðir um.

Norðmenn búa við orlofslöggjöf frá árinu 1962, og er lágmarksorlof fullvinnandi fólks þar ákveðið 21 virkur dagur og orlofsfé 71/2% af kaupi.

Danska ríkisstj. undirbýr nú róttækar og verulegar réttarbætur til handa verkafólki þar í landi í þessum efnum, en orlofsfé er þar nú samkv. samningum danska alþýðusambandsins og atvinnurekenda 71/4%. En meðan slíkar framfarir verða í þessum málum meðal grannþjóða okkar og þó sjálfsagt miklu víðar og að mjög verulegu leyti fyrir tilstilli löggjafarvaldsins, þá er fátt um hreytingar til bóta hérlendis og alls ekkert að frumkvæði eða fyrir stuðning stjórnarvalda. Er þó hér í raun og veru um miklu gildari ástæður til aukins réttar að ræða, þar sem íslenzkt verkafólk býr við stórfellt lengri vinnudag og meira vinnuálag en stéttarsystkin þess í þessum löndum, þar sem lengri vinnudagur en sem svarar 45 stundum á viku þekkist varla. En hér vinnur verkafólk fyrir meira en þriðjungi tekna sinna í eftirvinnu, næturvinnu og helgidagavinnu. Og það er auðvitað alveg vist, að slíkt ástand skapar aukna þörf fyrir riflega árlega hvíld frá störfum, ef vinnuþrek og heilsa á ekki að bíða tjón af.

E.t.v. munu sumir halda því fram, að hér sé fremur um að ræða verkefni fyrir samtök launafólks og atvinnurekenda heldur en löggjafarvaldið, og vissulega ber því ekki að neita, að hér er um slíkt málefni að ræða, sem hlýtur ávallt að verða fjallað um af hagsmunasamtökunum og þau hljóta að láta nokkuð til sín taka. En í þessu sambandi ber í fyrsta lagi á það að lita, að hér er um að ræða almenn mannréttindi, sem fyrir löngu hafa verið viðurkennd meðal menningarþjóða, réttindi, sem löggjafarvaldinu ber að sinna, svo sem glöggt má sjá af þróun þessara mála á Norðurlöndum og víðar. Þetta viðhorf kemur t.d. mjög glöggt fram í nál. hinnar sænsku orlofsnefndar, sem undirbjó hin nýju lög þar í landi. Þar segir m.a.:

„Orlofslögin eru hluti af verndarlögum vinnumarkaðarins. Tilgangur þeirra er að tryggja verkafólki vernd gegn ofþreytu með því að veita því fjárhagslega tryggða hvíld frá daglegum störfum. Lögin eru byggð á þeirri skoðun, að verkafólk þarfnist þess árlega og um lengri tíma að hverfa frá sínum venjulega starfsvettvangi, ef starfskraftar þess eiga ekki að slitna um aldur fram.“

Á þennan hátt fullkomnar orlofið þá vernd, sem gildandi reglur um takmörkun vinnutíma og helgidaga veita. Fullnæging hvíldar- og hressingarþarfarinnar með orlofi er því atmennt mikilvæg með tilliti til verndar vinnuafls og almennrar heilbrigði. En ef stjórnarvöld í landi, þar sem ströng vinnuverndarlög gilda og vinnudagur er miklum mun styttri en hér gerist, líta þannig á málið, hvað mættu þá íslenzk stjórnarvöld hugsa og gera? Ef þessi sjónarmið eru höfð í huga, verður að telja æskilegt, ef ekki óhjákvæmilegt, að slík málefni séu skilin að sem mestu leyti frá hinni beinu hagsmunabaráttu og samningum um kaup, og slíkt gerist tæpast, nema til komi forusta hjá löggjafarvaldinu um sanngjarnar og eðlilegar réttarbætur, en að þeim er stefnt með því frv., sem hér er flutt.

Um einstök efnisatriði frv. sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða á þessu stigi málsins, þar sem þau skýra sig að mínu viti að mestu sjálf. Þó vil ég sérstaklega nefna það nýmæli, sem felst í 3. gr. frv., en það er á þá lund, að ríkisstj. sé heimilað að veita A.S.Í. umboð til þess að annast framkvæmd orlofslaganna að veralegu leyti, þ.e.a.s. að því leyti sem hún annars fer fram á vegum póststjórnarinnar. Ég er a.m.k. þeirrar skoðunar, að slík breyting mundi á margan hátt hafa heillavænleg áhrif á gagnsemi orlofslöggjafarinnar og tryggja t.d. betur en nú er, að orlofsrétturinn yrði raunverulega notaður til þeirrar hvíldar og endurnýjunar starfskrafta, sem til er ætlazt. En því er ekki að neita, að nú er það allt of títt, að fólk tekur ekki raunverulega hvíld frá störfum, en notar orlofsféð sér til tekjuauka. Meiri samvinna við alþýðusamtökin um framkvæmd laganna mundi vafalaust hafa sterk áhrif í þá átt að skapa þann almenna skilning, sem til þarf að koma, jafnt á rétti sem skyldum í þessum efnum.

Alþýðusamband Íslands hefur nú hafið með aðstoð fjárveitingavaldsins mikið átak til þess, að íslenzkt verkafólk geti notið sumarleyfa sinna betur en áður með byggingu hins fyrsta orlofsheimilis alþýðusamtakanna, en sú stofnun mun geta hafið starf sitt á næsta sumri. Það færi vissulega vel á því, að í sama mund og þeim mikilvæga árangri verður náð, sé orlofslöggjöfin sjálf færð í það form, að hún yrði sambærileg við það, sem nú gerist um Norðurlönd, en yrði ekki lengur haldið langt að baki þeirri löggjöf, sem þar gildir. Hitt er þó auðvitað miklu mikilsverðara, að með þeim breytingum á orlofslöggjöfinni, sem hér er lagt til að gerðar séu, er stígið nokkurt spor í þá átt að létta vinnustéttunum það óhæfilega mikla vinnuálag, sem nú hvílir á þeirra herðum, að svo miklu leyti sem það er unnt með lögverndaðri árlegri hvíld frá störfum. Við hlið slíkrar sæmilega fullkominn ar orlofslöggjafar þarf svo að koma til almenn löggjöf um vinnuvernd, sem m.a. takmarki daglegan vinnutíma og tryggi þannig eðlilega daglega hvíld frá störfum. En það verður að telja hafið yfir allan vafa af reynslu þeirra menningarþjóða, sem beztan rétt hafa tryggt þegnum sínum í þessum efnum, að slíkar réttarbætur skili þjóðfélaginu fullkomlega aftur þeim tilkostnaði, sem þeim eru samfara, í aukinni heilbrigði, aukinni starfsgleði og þar með í auknum afköstum og framleiðslu þjóðarbúsins.

Ég vil svo leggja til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr: og félmn.