10.03.1964
Efri deild: 58. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í C-deild Alþingistíðinda. (2286)

182. mál, stækkun Mosfellshrepps í Kjósarsýslu

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. er nokkuð sérstætt í sinni röð, þegar litið er til þess, sem jafnan ber að hafa í huga, þegar um meðferð sveitarstjórnarmálefna er að ræða. Það er enginn efi á því, að hér í þessu frv. eru sveitarstjórnarlögin sniðgengin á allan hátt, því að þegar um skiptingu sveitarfélaga er að ræða, er ekki gert ráð fyrir því, að Alþingi fjalli um slík málefni hverju sinni, heldur að þau mál fari sína réttu boðleið og að um þau fjalli í fyrsta lagi sveitarstjórnir hlutaðeigandi sveitarfélaga og sýslunefnd hlutaðeigandi sýslu og siðast félmrn., sem hefur úrskurðarvald í þessum efnum, ef einhver ágreiningsatriði koma fram. Ég vil leyfa mér að benda á og lesa hér upp nokkur atriði úr sveitarstjórnarlögunum, sem voru lögð fram af hæstv. núv. ríkisstj. 1961 og þar á meðal að sjálfsögðu af þeim hæstv. ráðh., sem flytur þetta mál hér á hv. Alþingi. Með leyfi forseta, hljóðar 2. gr. sveitarstjórnarlaganna þannig:

„Með sveitarfélögum er í lögum átt við hreppa og kaupstaði. Staðarmörk sveitarfélaga skulu vera þau sömu og nú eru, en rn. getur breytt þeim samkv. því, sem fyrir er mælt í 4.-8. gr. l. þessara, sbr. þó 3. gr."

„3. gr. Kaupstöðum og sýslum má eigi fækka eða fjölga nema með lögum. Sama gildir um breytingar á mörkum kaupstaða og sýslna:

Þarna skilur á milli. Þegar breyta skal sýslumörkum og mörkum milli kaupstaða og sýslna, þá skal það gert með sérstökum lögum, og þar skilur á milli frá því, þegar breyta skal hreppsfélögum, að það er ekki gert ráð fyrir því, að um það skuli fjallað hverju sinni af Alþingi, heldur að það fari hina réttu boðleið, sem ég áðan drap á.

„4. gr. Rn, skal sameina hreppa, þegar þess er óskað af hlutaðeigandi hreppsnefndum, ef sýslunefnd mælir með því. Með sömu skilyrðum er rn. heimilt að breyta hreppamörkum, sbr. þó 7. gr.

En 7. gr. sveitarstjórnarlaganna hljóðar þannig: „Rn. getur skipt hreppi samkv. beiðni hreppsnefndar, að fengnum meðmælum sýslun., enda verði íbúatala hvors hrepps, eftir að skipt hefur verið, eigi lægri en 200. Rn. ákveður hreppamörk, þegar skipt er samkv. 1. mgr. þessarar gr."

Hv. 8. landsk. þm. kom hér inn á það áðan, að íbúatala í Kjalarneshreppi er því sem næst 220. og um þriðjungur þeirra íbúa býr austan Kleifa eða í þeim hluta, sem hæstv. utanrrh. ætlast til að flytjist yfir til Mosfellshrepps. Eftir eru þá í hinum hluta hreppsins um 150 íbúar, og þannig stangast þetta frv. algerlega á við það, sem sveitarstjórnarlögin gera ráð fyrir, þar sem fæst mega vera eftir, þegar sveitarfélagi er skipt, 200 íbúar.

Hæstv. ráðh. minntist á það, að auka mætti nánari samskipti milli Kjósarhrepps og Kjalarneshrepps, þess hluta,, sem eftir er. Það er að vísu kannske möguleiki fyrir slíku. Ef hæstv. ráðh. ætlast til þess, að þeirra samskipti verði það náin, að það verði eitt sveitarfélag, því er þá ekki lagt til í þessu frv., að sporið sé stigið til fulls og málið sé á þann hátt, að það fullnægi þeim ákvæðum, sem 7. gr. sveitarstjórnarlaganna gerir ráð fyrir? En svo er ekki.

Ástæðurnar fyrir því, að þetta frv. er flutt, bæði sem kemur fram í grg. og einnig í framsöguræðu hæstv. ráðh., eru harla léttvægar. Ég held, að það séu einhver sjónarmið hjá hæstv. ráðh., sem hvetja hann til að flytja þetta mál, sem hann hefur ekki þegar skýrt hv. Alþingi frá. Það er talað um í grg. og kom líka fram í ræðu hæstv. ráðh., að öll tandfræðileg tega mælti með því, að skipting þessi yrði framkvæmd. En ég hélt, að bæði hæstv. ráðh. og aðrir, sem til þekkja á þessum slóðum, væru upp úr því vaxnir að vera að tala um landfræðilega legu og þránda í götu á því sviði á þeirri bílaöld, sem við lifum nú, og þetta held ég, að hæstv. ráðh. sé fullljóst, ekki sízt þegar hann hugleiðir það, að hann á sjálfur heima í allt öðru bæjarfélagi en því, sem hann stundar jafnan sína vinnu, og ekur marga km daglega án þess að finna nokkurn hlut fyrir því, og sama máli held ég að gegni um flesta íbúa Kjalarneshrepps, að þeir finna ekki mikið fyrir þessum landfræðilegu staðháttum, sem eiga að vera hindrun fyrir því, að sveitarfélagið geti staðið áfram sameinað, eins og það hefur verið til þessa. Þessi rök falla því, að mér finnst, algerlega um sjálf sig.

Þá er í grg. getið um það, að þessi hluti Kjalarneshrepps, sem er austan Kleifa, hafi kirkjusókn með Mosfellingum. Nú er það svo, að kirkjusóknir á Íslandi hafa frá fyrstu tíð ekki verið bundnar við hreppamörk og hreppamörk ekki heldur verið bundin við kirkjusóknir. Og í Kjalarneshreppi eru þrjár kirkjusóknir, þ.e. Saurbæjar-, Brautarholts- og Lágafellssókn, þannig að þarna eru engin tengsl á milli.

Hv. 8. landsk. þm. minntist hér á ýmis samskipti og sterkan félagsskap, sem er innan þessara sveita, og skal ég ekki gera það að frekara umtalsefni, en vitna til þess, er hann sagði. En hæstv. ráðh. minntist í sinni grg. á nokkur félög, sem hann telur að mæli með því, að sveitarfélaginu sé skipt. Þar á meðal minnist hæstv. ráðh. á kvenfélag og ungmennafélag. Ungmennafélögin eru flest stofnuð um eða eftir aldamótin, og þá kann að vera, að einhverjir landfræðilegir staðhættir hafi mælt með því, að þessi sveitarhluti var með Mosfellingum, en ekki innan sinnar sveitar með stofnun ungmennafélags. En um kvenfélögin er það að segja, að þar sem ég þekki til þeirra félaga, eru þau hvergi bundin hreppamörkum og því ekkert undrunarefni, þó að slíkt hafi átt sér stað þarna, frekar en annars staðar á landinu, og það út af fyrir sig eru því engin rök, sem mæla með því, að einu sveitarfélagi sé skipt vegna þeirra hluta.

Þetta mál var lagt fyrir hv. Alþingi í fyrra, og umsagnir bárust frá 3 aðilum til hv. Alþ. Eins og vænta mátti, kom frá hreppsnefnd Kjalarneshrepps mjög mikil og greinargóð umsögn, auk þeirrar umsagnar, sem kom frá Mosfellshreppi og frá sýslunefnd Kjósarsýslu, þar sem hæstv. utanrrh. er í raun og veru hæstráðandi, en þó féll sú sýslunefnd frá því að taka ákvörðun í þessu máli, en umsögn þeirrar sýslunefndar hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Sýslunefnd væntir þess, að Kjalarneshreppur og Mosfellshreppur ráði málum þessum til lykta á farsælan hátt, og frestar að svo stöddu að taka afstöðu til máls þessa:

Þarna vantar því þegar eitt atriði, sem uppfylla þarf, til þess að þessi skipting geti átt sér stað samkv, gildandi löggjöf. En ég hef löngun til þess að lesa grg. hreppsnefndar Kjalarneshrepps, en hún hljóðar þannig, með leyfi forseta, og er rituð 6. apríl 1963:

„Vegna frv. þess, sem fram er komið á Alþingi um stækkun Mosfellshrepps í Kjósarsýslu og stórfellda skerðingu Kjalarneshrepps, vill hreppsnefnd Kjalarneshrepps harðlega mótmæla slíku gerræði við sveitarfélagið og lýsir jafnframt furðu sinni á frv. þessu. Frv. er frekleg árás á Kjalarneshrepp og íslenzka hreppa almennt. En það er fjöregg íslenzku þjóðarinnar að vernda og varðveita sjálfsforræði sveitarfélaganna, sem standa á gömlum merg, allt frá því að hreppar urðu til á 10.—11, öld. Þá brýtur frv. í bága við sveitarstjórnarlög, nr. 58 frá 27. marz 1961, sbr. 6.—7. gr., en þar eru ákvæði um allt aðra málsmeðferð en hér er ætlað að viðhafa.

Við grg. frv. er þetta að athuga: Vandlega er dulin hin raunverulega ástæða fyrir kröfunni um skiptingu hreppsins, sem er staðsetning félagsheimilis hreppsbúa. Verður síðar að því vikíð. Um eindregna ósk þess hluta Kjalarneshrepps, sem liggur austan Kleifa, er það vitað, að 26 íbúar sendu kröfu þess efnis að slíta hreppsfélaginu, dags. 29. nóv. 1959, og þar með, að þeir hefðu ákveðið að koma því til leiðar, að hreppnum yrði skipt. Samkv. gildandi íbúaskrá er helmingur þessa fólks fluttur burt úr hreppnum nú fyrir ári. Ekki er hreppsnefnd kunnugt um, að innfluttir íbúar austan Kleifa standi að ósk þessari um skiptingu. Þá hefur ríkissjóður keypt tvær jarðir vegna laxveiðistöðvarinnar í Kollafirði og ein jörð verið lögð undir vistheimili.

Mótmæli gegn kröfu um skiptingu bárust hreppsnefnd frá 72 íbúum. Innan sveitarinnar eru starfandi hin ýmsu félög, sem allir hreppsbúar eru í án nokkurs tillits til búsetu. Hreppsbúar eiga til þriggja kirkjusókna að telja. Er það Saurbæjarsókn að Ártúnsá, Brautarholtssókn þaðan að Kleifum, en austur þaðan er Lágafellssókn, enda munu kirkjusóknir að jafnaði ekki miðast við hreppamörk. Búnaðarfélag hefur um langt skeið verið starfandi í hreppnum, og hafa allir bændur hreppsins verið félagar í því. Svo brá við á s.l. vori, að nokkrir bændur austan Kleifa sóttu um upptöku í Búnaðarfélag Mosfellshrepps. Fullkominn vafa verður að telja á lögmæti afgreiðslu þessa máls, enda mun stjórn Búnaðarfélags Íslands ekki hafa samþykkt það: — Ég vil í því sambandi vitna til þess bréfs, sem hv. 8. landsk. þm. las hér áðan, og úrskurður í þessu máli mun hafa fallið í janúarmánuði s.l. „Barnaskóli hefur starfað í hreppnum í meira en 30 ár að Klébergi. Þennan skóla hafa öll börn í hreppnum sótt að örfáum undanteknum. Unglingafræðsla er ekki nema að takmörkuðu leyti, og hafa unglingar því leitað fræðslu annars staðar, m.a. í unglingadeildina að Brúarlandi eða í héraðsskólana. Þá er í athugun nánara samstarf í skólamálum upphreppa Kjósarsýslu, sem er heimavistargagnfræðaskóli að Varmá.

Félagslífi Kjalnesinga hefur löngum verið þröngur stakkur sniðinn, þar sem ekki er í annað hús að venda en barnaskólann, en á því eru margvíslegir örðugleikar. Hafa hreppsbúar því sótt samkomur til nágranna sinna, m.a. að Hlégarði, og hefur hlutur þeirra, er vesturhlutann byggja, sízt verið minni en hinna. Til úrbóta á menningar- og félagslífi hreppsbúa var því ráðizt í byggingu félagsheimilis. Þarna er rótina að finna að deilumáli þessu.

Um framkvæmd þá er í stuttu máli það að segja, að ákveðið var með öllum greiddum atkv. á almennum hreppsfundi 26. júní 1957 að byggja félagsheimili í hreppnum. Á almennum hreppsfundi 17. maí 1958 fór fram leynileg atkvgr. um staðarval. Var Kléberg samþykkt með 2/3 hlutum greiddra atkv. Á sama fundi bar þáv. oddviti fram till. um fjárveitingu allt að 100 þús. kr. til félagsheimilisbyggingarinnar, sem var samþykkt einróma. Á fundi fræðslumálastjóra og íþróttanefndar ríkisins 4. febr. 1959 var samþykkt, að félagsheimilið yrði staðsett að Klébergi. Þá hefur sýslunefnd Kjósarsýslu samþykkt aðild hreppsins að félagsheimilisbyggingunni.

Þess skal getíð, að menn hafa valizt til hinna ýmsu trúnaðarstarfa í þessum efnum án tillits til búsetu, þ.e.a.s. alveg jafnt austan og vestan Kleifa, sem kallað er. Forsenda frv., sem nefnd er félagsleg og landfræðileg skipting, verður því algerlega að teljast út í hött. Af greindum ástæðum hljótum vér að mótmæla fram komnu frv. harðlega, enda mundi það, ef að lögum yrði, skapa vitavert fordæmi. Hverjum minni hluta væri með því tryggð lagaleg aðstaða til þess að koma í veg fyrir, að löglegar samþykktir næðu fram að ganga. Það hlýtur því að vera krafa hreppsnefndar Kjalarneshrepps til hins háa Alþingis, að frv. þessu verði frá vísað.

F.h. hreppsnefndar Kjalarneshrepps,

Teitur Guðmundsson, oddviti:

Ég ætla, að þau rök, sem haldbær eru í þessu máli, séu þegar fram komin . Og hverjum hv. þm. ber að hugleiða það, hvort stefna beri að því á Alþingi að taka upp nýjan hátt, þegar skipta skal sveitarfélögum, eða fara að þeim lögum, sem samþykkt voru á Alþingi 1961. Og ég tel, að það sé hyggilegast allra hluta vegna að hlíta þeim lögum, sem eru mjög greinileg í þessum efnum, því að ef svo færi, að annað eins mál og þetta væri samþykkt á Alþingi, er þegar búið að opna þá gátt, sem er ekki víst að verði á valdi hv. Alþ. að stöðva hverju sinni, sem það ella vildi. Því er bezt að gera slíkt þegar í upphafi og annað tveggja að fella þetta mál eða afgr. með rökst. dagskrá eða í þriðja lagi að láta það daga uppi, og ég er ekki fjarri því, að það sé kannske undir niðri meining hæstv. ráðh., sem flytur þetta mál.

Mig undrar það mjög, að það skyldi falla í hlut hæstv, utanrrh. að flytja þetta mál, vegna þess að hann hefur frá fyrstu tíð haft það orð á sér, að hann væri einn af mestu lögfræðingum þessa lands. Því undrar það mig, að það skyldi falla í hans hlut að flytja frv., sem brýtur svo gersamlega í bága við sveitarstjórnarlögin. Og ég ætla, að það sé hverjum bezt, að þetta mál fari ekki lengra en komið er, og vil því fyrir mitt leyti og þeirra, sem ég til þekki, og ég vil segja fyrir hönd þeirra sveitarfélaga, sem ég til þekki, óska þess, að för þess verði ekki lengri, hvorki að þessu sinni né síðar, en til 1. umr. í þessari hv. deild.