10.03.1964
Efri deild: 58. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í C-deild Alþingistíðinda. (2287)

182. mál, stækkun Mosfellshrepps í Kjósarsýslu

Gils Guðmundason:

Herra forseti. Ég get haft mál mitt stutt, þar sem tveir hv. þm., hv. 8. landsk. þm. og hv. 1. þm. Vesturl., hafa borið hér fram mörg þau rök, sem virðast vera gegn þessu frv., og það hefur komið fram í ræðum þeirra, að það er full ástæða til þess að athuga það nokkuð rækilega.

Ég held, að það sé ekki ofsagt, þó að fullyrt sé, að þetta frv. sé óvenjulegt, að því er allan undirbúning þess snertir. Ég er e.t.v. ekki nógu kunnugur til þess að fullyrða, að það sé dæmalaust í íslenzkri þingsögu, en mér er næst að halda, að svo sé. Hér er um það að ræða að breyta með löggjöf hreppaskiptingu, leggja hluta Kjalarneshrepps undir Mosfellshrepp.

Það hefur alloft komið fyrir á undanförnum áratugum, að einum hreppi fornum hefur verið skipt í tvo. Í flestum tilfellum hefur það átt sér stað, eftir að myndazt hafði í hreppnum þorp eða kauptún allstórt. Því er ekki að neita, að stundum var uppi einhver ágreiningur um það, hvort slík skipting hrepps í tvö sveitarfélög ætti að fara fram. En ég hygg, að alltaf hafi þeim deilum lyktað á þann veg, að þeir aðilar, sem sérstaklega áttu um málið að fjalla, hreppsnefnd og hreppsbúar, hafi í aðalatriðum orðið sammála um það, sem síðan var framkvæmt. Þess munu vissulega fá dæmi eða jafnvel engin, að hreppi hafi verið skipt eða hluti af hreppi lagður undir annan hrepp gegn vilja hreppsnefndar viðkomandi hrepps og meiri hluta hreppsbúa, en það virðist eiga að gera hér, eins og ljóst verður af umsögn hreppsnefndar Kjalarneshrepps um þetta frv., þeirri sem lesin var hér áðan. Ég efast um, að nokkur dæmi slíks finnist í þingsögunni. Hið eina, sem e.t.v. væri að einhverju leyti sambærilegt, væri það, þegar yfirvöld hér, ríkisstj. á sínum tíma og meiri hl. hv. Alþingis, skikkuðu Kópavogshrepp til þess að gerast kaupstaður gegn vilja meiri hl. hreppsbúa og gegn vilja lögmætra yfirvalda hreppsins. Það væri helzt hægt að líkja því, sem flm. þessa frv. vill gera hér, við það, sem þá gerðist. Og það hygg ég, að sé mála sannast, að þeir, sem fyrir því stóðu gagnvart Kópavogshreppi, hafi ekki haft neina sérstaka sæmd af þeim málatilbúnaði, eins og hann var til kominn .

Það hefur komið hér ljóst fram, að meginástæðan til þess, að þetta frv. er flutt, er óánægja nokkurra manna í Kjalarneshreppi, sem stafar, að því er virðist, af ágreiningi um byggingu eða þó einkum um staðsetningu félagsheimilis. Eins og lýst hefur verið hér áður, er það býsna algengt, að slík átök verði, tímabundin átök og óánægja innan hreppsfélaga. En venjulega lægir þær öldur fljótt, og svo hygg ég að sé þegar að allmiklu leyti, að því er varðar þann ágreining, sem þarna varð fyrir fáeinum árum. En svo mikið er víst, að þó að þarna yrði einhver ágreiningur, voru allar ákvarðanir um byggingu þessa félagsheimilis og staðsetningu þess teknar á lögformlegan hátt af réttum aðilum, og mikill meiri hluti hreppsbúa virðist hafa verið og vera fylgjandi þeirri ákvörðun, sem tekin var. Lítill minni hl, var hins vegar óánægður og er það sennilega að einhverju leyti enn þá, og hefur hótað því að segja sig úr lögum við aðra hreppsbúa, og það virðist vera að ósk þessa litla minni hl., sem þetta frv. var flutt í fyrra og er endurflutt nú.

Þeir þrír aðilar, sem segja má að sérstaklega eigi hér hlut að máli, hafa, eins og áður er rakið, allir sagt sitt álit á málinu. Sýslunefnd Kjósarsýslu tekur í rauninni enga afstöðu aðra en þá, að hún óskar þess, að viðkomandi hreppar jafni þetta mál á milli sín, áður en frá því er gengið. Mosfellshreppur eða hreppsnefnd hans segist að vísu ekkert hafa við það að athuga að taka við þessum hluta af Kjalarneshreppi, en eins og greinilega kom fram í þeirri ýtarlegu umsögn, sem barst frá hreppsnefnd Kjalarneshrepps, er af hennar hálfu alger andstaða gegn því, að þessi skipting nái fram að ganga. Ég held, að þau rök, sem flm. lagði einna mesta áherzlu á, hin landfræðilegu rök, sem lægju til þess, að eðlilegt væri að gera þessa breytingu á hreppaskiptingum, séu heldur lítilvæg, enda eru þau, að því er ég hygg, tylliástæða meira en hitt. Aðalástæðan er sá ágreiningur, sem þegar hefur verið lýst í sambandi við félagsheimilið.

Aðalatriðið í sambandi við þetta mál er, eins og þegar hefur verið sagt, þetta, að frv. gerir ráð fyrir þvert ofan í þær reglur, sem gilda samkv. alveg nýlega settum lögum um meðferð slíkra mála sem þessara, þá gerir frv. ráð fyrir því, að knúin verði fram með lögum skipting gegn vilja viðkomandi hreppsnefndar, gegn vilja meiri hl. þeirra hreppsbúa, sem hér er um að ræða. Slík þvingun er að mínu viti mjög óviturleg, og ég ætla, að Alþingi geti ekki staðið að slíku.

Þetta mál fer nú vafalaust til nefndar, og ég vænti þess, að hún athugi það rækilega, og síðar, ef það kemur þá frá þeirri n., sem mun um það fjalla, verður tilefni til þess að ræða það nánar, en við þessa 1. umr. tel ég ástæðu til þess að leggja höfuðáherzlu á þetta, hversu fráleitt það er að fara inn á þá braut að knýja fram með þvingunarlögum skiptingu hreppsfélaga eða breytingar á hreppsfélögum.