10.03.1964
Efri deild: 58. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 979 í C-deild Alþingistíðinda. (2289)

182. mál, stækkun Mosfellshrepps í Kjósarsýslu

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég finn það eftir þá ræðu, sem hæstv. utanrrh. hefur hér flutt, að hann er snjall í málflutningi, hann er snjall að verja mjög veikt mál. Og hann sagði, að ég mætti gjarnan vita það, hvert hefði verið mitt aðalstarf hér á hv. Alþingi í 15 ár, og það væri að breyta lögum. En ég vil vekja athygli hæstv. ráðh. á því, hvað þetta frv. heitir. Það heitir, með leyfi forseta: „Frv. til laga um stækkun Mosfellshrepps í Kjósarsýslu“. Hvergi nokkurs staðar stendur: breyting á lögum. Það stendur ekki heldur í þessu frv., að það sé nokkurs staðar afnuminn nokkur sá lagabókstafur, sem til er í íslenzkri löggjöf, vegna þessa máls, þó að það nái fram að ganga. Þess vegna er þetta nýtt mál. Það er ekki breyting á neinum lögum, þetta er nýtt mál, sem er í fullkominn i andstöðu við þau lög, sem eru gildandi í landinu, því að ef til þess væri ætlazt, að íslenzk löggjöf miðaðist eftirleiðis við þetta frv., þá bæri vitanlega hæstv. ráðh. að flytja brtt. við sveitarstjórnarlögin til samræmis við sína túlkun á málinu og sanna það, að hér væri um lagabreytingu að ræða, en það er alls ekki. Þessi rök hæstv. ráðh. falla því algerlega um sjálf sig. Hér er flutt frv., sem stangast á við íslenzka löggjöf, sem á að gilda jafnt eftir sem áður, auk þess sem það er algerlega nýtt, að einn maður af þremur eigi að vera rétthærri en hinir tveir. Það var líka uppistaðan í seinni ræðu hæstv. ráðh. Það er alveg ný kenning, því að venjulega hefur svo verið í landinu, að minni hl. hefur orðið að lúta valdi meiri hl., alveg eins og við verðum hér í minni hl. á Alþingi, sem þar erum, að lúta valdi þess nauma meiri hl., sem Alþingi er skipað. Þetta er hefðtekin venja, og því finnst mér, að frv., hvernig sem því er snúið og hvaða kanti þess sem hæstv. ráðh. reynir að fara með, þá stangast það á við allar venjur í íslenzkri löggjöf og íslenzku þjóðlífi almennt.

Hæstv. ráðh. minntist á það, að fyrir Alþingi lægi till. um fækkun og stækkun sveitarfélaga. Þessi till. er einmitt fram komin frá einum hv. þm. Alþfl., Unnari Stefánssyni, og ég ætla, að hún sé flutt vegna þess, að þetta mál er eitt af stefnumálum Alþfl. og Alþfl. ræður ríkjum hér á landi nú. Ef hæstv. ráðh, ætlar þessu máli framgang, þarf hann ekki að vera að flytja sérstakt frv. um breytingu á einum hreppamörkum í landinu. Ég held, að ef hann ætlaði till. á þskj. 171 framgang, þá gæti sú breyting, sem hann fer fram á í sínu frv., beðið, þar til Alþfl. væri búinn að koma þessu máli í það horf, sem hann teldi til bóta horfa fyrir sveitarfélögin almennt í landinu. Og annað tveggja er, að það er ekkert meint með till., því að ef svo væri, þá mundi hæstv. ráðh. ekki nú fara að flytja frá., sem engan framgang hlýtur á þessu þingi, og ég fæ ekki séð að nái fram að ganga nema í samræmi við skipulagðar breytingar á sveitarfélögum almennt í landinu. Það er það eina, sem getur fleytt þessu máli áfram, en annað ekki. Þess vegna er þetta mál nú í raun og veru alveg út í hött, eins og þegar hefur komið fram, þó að hæstv. ráðh. vilji ekki svo vera láta.

En ég vil mínna á það, að þetta frv. er nýtt mál. Það er ekki farið þar fram á breytingu á neinum lögum, og sveitarstjórnarlögin standa óhögguð eftir sem áður og gilda því ,jafnt að því er varðar skiptingu á þessu sveitarfélagi sem öðrum, þótt um það sé borið fram sérstakt frv.

Ég vil líka geta þess út frá þeim samskiptum, sem hæstv. ráðh. talaði um milli austurhluta Kjalarneshrepps og Mosfellssveitar, að hann sagði, að mörg börnin væru í skólahverfi, sem tilheyrði Mosfellshreppi. En allur fjöldi sá, sem stundar nám í Mosfellshreppi í vetur, það eru tveir nemendur, sem hafa fengið undanþágu, það eru tveir nemendur. Allir aðrir á skólaskyldualdri í hreppnum stunda sitt nám að Klébergi. Og þetta vil ég biðja hæstv. ráðh. að athuga, þegar hann fer að hugleiða þau miklu samskipti, sem eru á milli þessara tveggja aðila.

Svo var annað, sem hæstv. ráðh. minntist á í sambandi við þann úrskurð. sem felldur hefur verið af stjórn Búnaðarfélags Íslands, og það er afar þægilegt í ræðu að vefengja slíkan úrskurð, en ég hygg, að hann verði ekki svo létt véfengdur, þegar á á að herða, þótt lengra yrði farið, vegna þess að að þessum úrskurði stendur einn af viðurkenndustu og beztu og hyggnustu lögfræðingum þessa lands, þar sem Sveinbjörn Jónsson hrl. á í hlut.