10.03.1964
Efri deild: 58. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í C-deild Alþingistíðinda. (2290)

182. mál, stækkun Mosfellshrepps í Kjósarsýslu

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Það var eingöngu í sambandi við þá röksemd hv. flm., að þetta frv. hans væri í algeru samræmi við þá þáltill., sem einn hv. fulltrúi Alþfl. lagði fram í sameinuðu Alþingi um fækkun og stækkun sveitarfélaga, — það var eingöngu vegna þessarar röksemdar, sem ég ætlaði að bæta fáeinum orðum við það, sem ég sagði hér áðan. Mér finnst þetta stangast dálítið á hjá flm., hæstv. ráðh. Hann segist vera með sínu frv. að stækka Mosfellshrepp, og það er vitanlega alveg rétt, en hann er jafnframt að minnka minni hreppinn, þann hrepp, sem þegar er upplýst að sé nú niður við það lágmark, sem ætlazt er til samkv. sveitarstjórnarlögunum. Hitt hefði verið í miklu meira samræmi við þá þáltill., sem hér hefur verið nefnd og ég út af fyrir sig held að eigi töluvert erindi og þurfi að takast til rækilegrar athugunar, hvort ekki sé rétt stefna í þessum málum, en í samræmi við hana hefði þá verið frv. um það að sameina Kjalarneshrepp og Mosfellshrepp í eitt sveitarfélag, og það væri að sjálfsögðu umræðuvert. En vitanlega þarf þá að mínum dómi að liggja fyrir meirihlutavilji a.m.k. og sem allra almennastur vilji beggja viðkomandi sveitarfélaga til slíkrar sameiningar.

Hæstv. ráðh. sagði í lok ræðu sinnar, að þetta mál væri svipaðs eðlis og lækur, sem er að brjótast niður fjallshlið, eða jafnvel fljót, það væri hægt að stöðva það um stundarsakir með því að reyna að stífla, en það mundi síðan brjótast fram með fullum þunga, og þá yrðu þeir að vara sig, sem hefðu verið að berjast við að stöðva eða stífla. Mér finnst þessi samlíking ekki hitta alveg. Ég held, að hér sé um svolítið annað að ræða. Það er eins og hæstv. ráðh. standi hér yfir borholu. Hann er að reyna að virkja þarna dálitla óánægju, óánægju nokkurra manna, sem hann virðist ætlar að virkja sér og sínum flokki til framdráttar, en ég held, að þessi óánægja sé sem óðast að gufa upp, og þá mun hæstv. ráðh. standa yfir sinni borholu tómri.