10.03.1964
Efri deild: 58. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í C-deild Alþingistíðinda. (2291)

182. mál, stækkun Mosfellshrepps í Kjósarsýslu

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. mikið, úr því sem orðið er, en mér sýnist eftir málflutninginn, að þá sé það í raun og veru vera tvö atriði, sem um er deilt. Annað er það, að þetta frv. brjóti í bága við þá stefnu að stækka sveitarfélög. Hitt er, að í frv. felist breyting á ákvæðum sveitarstjórnarlaga, án þess að frv. beri það sjálft með sér, að til slikra breytinga sé ætlazt. Ég ætla aðeins að segja nokkur orð um þessi tvö atriði, sem mér sýnist vera orðin kjarni málsins.

Ég er alveg sammála þeim, sem hér hafa talað, að stefnan um skipun sveitarfélaga á að vera sú að stækka þau upp að vissu, hæfilegu marki. Það er af hálfu Alþfl., sem þáltill. hefur verið borin fram í þessa átt í Sþ.,,og ég eins og mínir flokksmenn, við stöndum að baki þeirri till. og erum henni algerlega samþykkir. En einmitt þetta frv. og sú stefna, sem fram kemur í því, er í fullkomnu samræmi við þessa þáltill. Það er vitað og öllum kunnugt, sem þekkja, að Kjalarneshreppur er það lítill hreppur, að framtíð hans er óviss, eins og hann er. Till. hér gengur út á það að taka hluta af hreppnum samkvæmt ósk íbúa þess hluta og sameina öðrum hreppi til stækkunar. Þá er það fyrir þá, sem eftir búa í Kjalarneshreppi að gera það upp við sig, hvers þeir óska sjálfir. Vilja þeir einnig sameinast Mosfellshreppi, kjósa þeir að halda í áttina að Kjósarhreppi eða vilja þeir reyna að vera áfram einir? Þetta dæmi hef ég ekki reynt að gera upp við flutning þessa frv., vegna þess að ég býst við, að það sé nákvæmlega sama, hvaða niðurstöðu ég hefði komizt að, maður hefði fengið ásakanir um, að í henni fælist ofbeldi. Þess vegna hefur það verið látið eftir liggja hreppsnefnd Kjalarneshrepps og íbúum Kjalarneshrepps vestan Kleifa að gera þetta dæmi upp sjálfum og segja, hverjar þeirra óskir væru í þeim efnum. En öll byggist hugsunin á þeirri staðreynd og þeim möguleika að stækka sveitarfélögin, en minnka þau ekki.

Hv. 1. þm. Vesturl. tilfærði í sinni fyrri ræðu, eins og ég gat um áðan, sem meginástæðu fyrir andstöðu sinni gegn frv., að í því fælist ákvæði, sem væru í ósamræmi við lögin um sveitarfélög og ákvæði þeirra um breytingu sveitarfélaga. Ég benti hv. þm. á í minni fyrri ræðu, að hann þyrfti ekki að kippa sér upp við það, þó að gildandi lagaákvæðum væri breytt með lögum, því að það væri hlutur, sem við værum alltaf að gera hér á Alþingi, á hverjum degi, ár eftir ár, og hv. 1. þm. Vesturl. hefði tekið ríkulegan þátt í því starfi. Ég gat ekki skilið hv. 1. þm. Vesturl. í sinni seinni ræðu betur en svo, að það eitt, sem honum fyndist að í þessu frv., að því er samband þess við sveitarstjórnarlögin varðar, væri það, að í fyrirsögn frv. vantaði orð, sem gæfi til kynna, að með því væri verið að breyta sveitarstjórnarlögunum. Ég gat ómögulega skilið málflutning hans öðruvísi en að það eina, sem honum fannst á vanta, og það eina, sem hann hefði að mátinu að finna, væri það, að það vantaði, að þetta kæmi fram í fyrirsögn frv. Ef ég hef skilíð þennan hv. þm. rétt, þá verð ég að segja, að mér finnst hans undanhald gert með miklum virðuleik, og ég er reiðubúinn til þess að mæta því með því að rétta honum nú höndina og bjóðast til að breyta heiti frv. eitthvað til samræmis við þessa ósk hans, ef fylgi hans við frv. er með því tryggt.