10.03.1964
Efri deild: 58. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í C-deild Alþingistíðinda. (2292)

182. mál, stækkun Mosfellshrepps í Kjósarsýslu

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. er dálítið laginn að snúa út úr hlutunum, því að vitanlega tók ég ekki neitt aftur af því, sem ég hafði áður sagt. En ef hæstv. ráðh. langar til að hlusta á það á ný, þá væri velkomið, að ég endurtæki öll þau atriði, sem ég hafði sagt í fyrstu ræðu minni hér í dag, því að það stendur enn þá, — allt, sem ég sagði, öll þau rök standa óhögguð og hafa ekki verið tekin aftur af minni hálfu. Ég stend líka við það, að þetta frv. er ekki breyting á lögum, því að sveitarstjórnarlögin standa eftir sem áður óhögguð, þó að þetta frv. nái fram að ganga. Um skiptingu annarra sveitarfélaga, ef um hana væri að ræða, yrði að fjalla eftir þeim lögum, á meðan þeim er ekki breytt, því að þetta frv. er nýtt, það er ekki breyting á lögum, eins og ég tók fram áðan. Þetta er nýtt frv. Það er hvergi fram tekið, að neinn lagabókstafur í neinni íslenzkri löggjöf sé felldur niður, þó að þetta mál nái fram að ganga. Vera má, að hæstv. ráðh. hugsi sér í framhaldi þessa máls að leggja fram einhverjar breytingar á þann hátt, að sveitarstjórnarlögunum verði breytt að einhverju leyti til samræmis við þetta frv., en það liggur ekki fyrir enn þá. Og enn er það atriði í þessu máli, sem hæstv. ráðh. hefur ekki komizt frá og hefur rætt þó um aftur á bak og áfram, og það er það, að hann smækkar eitt sveitarfélag í landinu, hann smækkar Kjalarneshrepp, og því máli hefur hann ekki gert þau skil, að maður viti, hvað hann meinar með því, þegar hann ræðir um, að ótal leiðir séu fyrir þá, sem eftir eru í sveitarfélaginu, að sjá sér borgið, svo að þeir bíði ekki neitt tjón af, þó að þetta frv. næði fram að ganga. Og þetta er líka, eins og ég hef áður bent á, í andstöðu við stefnu og störf Alþfl. um þessi mál.