03.12.1963
Efri deild: 20. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (232)

69. mál, Lífeyrissjóður barnakennara

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Í tilefni af því, að vera má, að einhverjir hv. þdm., sem gefið hafa sér tíma til að lesa það frv., sem hér liggur fyrir, hafa ef til vill veitt því athygli, að allmikið af prentvillum er í þskj., þá tel ég rétt að gefa eftirfarandi upplýsingar.

Þegar málið var til meðferðar í fjhn., var nefndin, eins og ég lýsti við 2 umr., að vísu sammála um að mæla með, að frv. yrði samþ. óbreytt, en mér var um leið falið að lesa frv. saman við lögin um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna og aðgæta, hvort um efnisbreytingar kynni að vera að ræða. Vegna annríkis hafði ég því miður ekki tíma til að framkvæma þennan samlestur fyrir 2. umr. málsins, en ég hef gert það, eins og mér hafði verið falið, milli 2. og 3. umr. og gerði það vandlegar en ég hefði nú annars gert, vegna þess að hv. 9. þm. Reykv., sem kunnur er að því að kynna sér þskj. samvizkusamlega, hafði vakið athygli mína á því milli funda, að allmikið væri af prentvillum í frv. Við samlesturinn kom það og í ljós, að það var ekki að ófyrirsynju, því að talsvert er af prentvillum í frv., eins og það liggur fyrir, og sumar þeirra meinlegar, eins og t.d. að í 12. gr. frv. stendur í 7. línu að ofan: „Ef starfstími sjóðfélaga hefur verið 30 ár eða skemmri, er hundraðshluti þessi 20% af greindum launum“ o.s.frv., á auðvitað að vera greiddum launum, en þetta breytir auðvitað merkingunni. Hins vegar er ekki um það að ræða, að neinar efnisbreytingar hafi verið gerðar frá lögunum um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna.

Ég hef nú snúið mér til skrifstofu Alþ. vegna þessa, og var mér þar tjáð, að séð verði um það, að þessar prentvillur verði leiðréttar, annaðhvort með endurprentun eða þá í skjalaparti.

Fyrir utan þetta má vera, að málvöndunarmenn mundu vilja gagnrýna viss atriði í frv. M. a. stendur svo í 22. gr. frv. 3. línu að ofan: „Stjórn sjóðsins semur við Tryggingastofnun ríkisins um uppgjör fyrir liðinn tíma í samræmi við ákvæði almannatryggingalaga um það atriði.“ Mér virðist óþarft að nota danska orðið fært til íslenzkrar stafsetningar með tilliti til þess, að til er nothæft íslenzkt orð yfir þetta að mínu áliti: „reikningsskil“. En þetta stendur þannig í lögunum um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna, sem gengu gegnum þingið á s.l. vori án athugasemda. En um efnisbreytingu frá því, sem nú er í lögum um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna, er ekki að ræða.

Þetta taldi ég rétt að gefnu tilefni að upplýsa.