22.01.1964
Sameinað þing: 35. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í D-deild Alþingistíðinda. (2322)

101. mál, bann gegn tilraunum með kjarnorkuvopn

Utanrrh. (Guðmundur f. Guðmundsson):

Herra forseti. Á undanförnum tveimur árum hefur vart verið um annað mál rætt meira á alþjóðaráðstefnum, sem haldnar hafa verið í heiminum, en afvopnunarmálin sjálf og kjarnorkuvopn og tilraunir með þau. Þetta mál hefur verið á dagskrá á fundum hjá Sameinuðu Þjóðunum á hverju ári, síðan þær voru stofnaðar, og jafnan verið það málið, sem mestan tíma hefur tekið þar af fundunum. Ráðstefnur hafa verið um þetta haldnar og mikið um það rætt, og hygg ég, að ekki sé nokkur vafi á því, að um ekkert eitt mál hafa jafnmörg orð verið sögð og jafnmiklum fundartíma verið eytt í heiminum og þetta eina mál. En árangurinn af öllum þessum umr. er næsta litill, og þessi till., sem hér liggur fyrir, þó að merkileg sé, er sennilega það helzta, sem sézt hefur jákvætt eftir allar þær umr.

Hv. síðasti ræðumaður byrjaði á því að ræða afvopnunarmálin almennt og vildi nokkuð fara út í þau. Ég býst ekki við, að við bætum okkur neitt á því, þó að við förum að endurtaka hér eitthvað af öllum þeim ósköpum, sem sögð hafa verið um það mál á ráðstefnum og fundum að undanförnu. Ég held, að út úr slíku gæti aldrei komið annað en tímaeyðsla og málþóf, og ég fyrir mitt leyti hef það mikinn áhuga fyrir þeirri till., sem hér liggur fyrir, að ég vildi gjarnan, að umr. um hana þyrftu ekki að fara fram með þeim hætti, að þær drægjust svo lengi, að ekki tækist að samþykkja hana á þinginu. Ég ætla þess vegna að leiða hjá mér almennar umr. í sambandi við hugleiðingar hv. síðasta ræðumanns út af afvopnunarmátunum. Fsp. hans um kjarnorkulaust svæði og Ísland og Norðurlöndin í því sambandi vil ég hins vegar og tel mér skylt að svara aðeins.

Ísland hefur sjálft engin vopn, hvorki kjarnorkuvopn né önnur vopn, og hefur alls ekki í hyggju né nein tök á að koma sér upp neinum vopnum. Varnarlið það, sem er hér á Íslandi, hefur engin kjarnorkuvopn, og það hefur enginn farið fram á það, að hér yrðu höfð kjarnorkuvopn. Ísland er því í dag kjarnorkuvopnalaust land. Það eru engar ráðagerðir uppi um það að gera á þessu neinar breytingar. Íslenzka ríkisstj. hefur ekki áform um neinar breytingar, og þeir, sem hafa hér varnarlið, hafa ekki í hyggju að fara fram á neitt leyfi til að hafa hér kjarnorkuvopn. Aðrar og frekari yfirlýsingar er ekki hægt að gefa i sambandi við þetta mál og framtíðina. Ég get ekki gefið hér neinar yfirlýsingar, sem bindandi eru fyrir þær ríkisstj., sem síðar kunna að koma, auk þess sem það væri með öllu ástæðulaust fyrir mig að fara að gefa hér yfirlýsingar um það, að eitthvað skuli vera svo og svo eða ekki svo og svo um ókomna framtíð, án þess að maður geti vitað, hvernig ástandið verði í heiminum og hvaða tilefni kunna að verða hér til að gera einhverjar ráðstafanir. Ástandið í alþjóðamálum verður að skera úr um það, hvaða ráðstafanir þarf að gera hér til varnar. En í dag eru hér engin kjarnorkuvopn, og það eru engin áform uppi um að hafa nein slík vopn né neinar óskir um, að hér komi nein slík vopn. Þessi afstaða, sem Ísland hefur tekið í málinu, er nákvæmlega sú sama og algerlega hliðstæð við þá afstöðu, sem komið hefur fram opinberlega af hálfu ríkisstj. bæði Danmerkur og Noregs. Þessari afstöðu hefur áður verið lýst hér á hv. Alþingi, hún er ekki ný, og hún er einnig þekkt á Norðurlöndum, að því er varðar afstöðu Noregs og Danmerkur.