26.02.1964
Sameinað þing: 46. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í D-deild Alþingistíðinda. (2325)

101. mál, bann gegn tilraunum með kjarnorkuvopn

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Utanrmn. varð öll sammála um þá till., sem hér liggur fyrir. Ég leyfi mér að taka undir þá yfirlýsingu, sem hv. frsm. og formaður n. kom með um ánægju okkar allra yfir því, að þetta samkomulag skyldi takast og allur þorri þjóða heims hefur sameinazt um þetta bann við tilraunum með kjarnorkuvopn. Við höfum hér þrír þm., hv. 5. þm. Reykn., hv. 5. landsk. og ég, flutt brtt. á þskj. 274 um, að aftan við tillgr. bætist svo hljóðandi mgr.:

„Jafnframt ályktar Alþingi að lýsa yfir því, að það muni aldrei leyfa staðsetningu neins konar kjarnorkuvopna á Íslandi né að slíkum vopnum verði nokkurn tíma beitt frá stöðvum hér á landi:

Það liggur nokkurn veginn í augum uppi, að það er ekki sérstaklega mikið, sem við Íslendingar þurfum að leggja af mörkum til þess að vinna að því að reyna að hindra, að í framtíðinni verði gerðar tilraunir með kjarnorkuvopn eða þeim beitt, með því einu að gerast aðili að Moskvusamningnum frá síðasta sumri. Það liggur nokkurn veginn í augum uppi, að það hefði aldrei komið til greina, að við færum að gera neinar tilraunir með kjarnorkuvopn eða færum að leyfa neinar tilraunir hér með slíkt. Hins vegar finnst okkur flm. þessarar brtt. rétt, að við sýnum það að nokkru í verki, Íslendingar, að við metum það mikils, að það skuli hafa tekizt samkomulag um að banna allar tilraunir með kjarnorkuvopn og það skuli þannig hafa verið stigið visst stórt skref í þá átt að hindra, að kjarnorkuhernaður verði nokkurn tíma háður.

Við viljum undirstrika okkar þátt í þessu með því, að Alþingi samþykki, að hér á Íslandi skuli aldrei leyfð staðsetning neins konar kjarnorkuvopna né að slíkum vopnum verði nokkurn tíma beitt frá stöðvum hér á landi. Það er vitananlegt, að það er eins og margoft hefur komið fram, skoðun allra þm. og allrar hæstv. ríkisstj. líka, að hér eigi ekki að staðsetja kjarnorkuvopn, hér hafi ekki verið staðsett kjarnorkuvopn og hér hafi þau aldrei verið leyfð. Hví í ósköpunum ættum við ekki að taka af öll tvímæli um þetta með skorinorðri yfirlýsingu frá Alþingi, að hér verði aldrei kjarnorkuvopn leyfð? Það hefur verið greinilega tekið fram, m.a. af hæstv. utanrrh., ef ég man rétt, að það hafi heldur aldrei verið farið fram á það að staðsetja hér slík vopn. Hví í ósköpunum ætti ekki Alþingi Íslendinga einmitt við þetta hátíðlega tækifæri, þegar yfir 100 af ríkjum heims hafa sameinazt um að banna tilraunir með kjarnorkuvopn, áð lýsa yfir, að það komi aldrei til mála, að hér verði leyfð nein staðsetning kjarnorkuvopna né þeim verði beitt héðan? Okkur finnst þetta liggja svo í augum uppi, að þetta sé slík yfirlýsing, sem Alþingi beri að gera. Við getum máske skilið það, að fyrir nokkrum árum, þegar hiti var í þessum málum, hafi ekki allir getað orðið sammála um þetta atriði. Nú aftur á móti, þegar kalda stríðinu er að lykta, nú, þegar það koma yfirlýsingar hverjar á fætur annarri, jafnt frá forseta Bandarfkjanna sem frá forsætisráðherra Sovétríkjanna og forustumönnum Stóra-Bretlands, að til kjarnorkuhernaðar megi ekki koma, hví í ósköpunum skyldum við þá ekki, vopnlaus þjóðin, af okkar litla mætti taka undir þetta á þann máta að lýsa yfir, að það verði aldrei staðsett kjarnorkuvopn hér á Íslandi og þeim verði aldrei beitt héðan, a.m.k. ekki með leyfi Alþingis? Við vitum, að það fer sívaxandi sú hreyfing í heiminum og á sér fylgi hjá fjölda þjóða, að í löndum þeirra þjóða sé lýst yfir, að þau verði kjarnorkuvopnalaus, þar verði aldrei staðsett kjarnorkuvopn og þaðan verði aldrei beitt kjarnorkuvopnum. Það er ekki langt að bíða þess, að stór svæði í heiminum, heilar heimsálfur og hálfar, lýsi yfir, að slíkt komi ekki til greina.

Það hefur alltaf hvílt viss skylda á Íslendingum í þessum málum, að sýna og sanna, að vopnleysi sé óhætt í veröldinni. Við byrjuðum með því sjálfir 1918, þegar við fengum okkar fullveldi, að lýsa yfir, að við værum vopnlausir og vildum vera hlutlausir í hernaði. Og núna, þegar aftur, eftir að nokkuð hefur syrt að um tíma, birtir til í heiminum, ætti það einmitt að vera okkar heiður að ganga jafnvel á undan öðrum þjóðum í því að lýsa því yfir, að kjarnorkuvopnum a.m.k. skuli aldrei beitt frá þessu landi og þau skuli aldrei staðsett í þessu landi. Það er þess vegna ekki fram á mikið farið og þarf ekki að neinu leyti að brjóta í þá ga við þær mismunandi skoðanir, sem uppi eru, eins og kunnugt er, á meðal þm. um það, hvort hér eigi setu t.d. erlendur her og hvort með því sé veitt einhver hervernd fyrir landið og annað þess háttar. Þetta atriði með kjarnorkuvopnin kemur sem sé því máli ekki við. Við getum stigið þetta stóra spor og gefið öðrum þjóðum fordæmi í sambandi við þessa yfirlýsingu alveg án tillits til þess. Meira að segja þeir menn, sem eru bandamenn Íslands í Atlanatshafsbandalaginu, Þau ríki, sem eru bandamenn Íslands þar, hafa aldrei fram á það farið, að hér væru staðsett nein kjarnorkuvopn eða þeim væri beitt héðan. Og vissulega er engin heimild til þess heldur að gera það án samþykkis Alþingis. Það er þess vegna skoðun okkar flm. þessarar brtt., að með því að samþykkja hana undirstriki Alþingi Íslendinga anda þeirrar samþykktar, sem hér er verið að gera, og leggi fram mikilvægan skerf af sinni hálfu til þess, að öruggari friður megi komast á í veröldinni. Við viljum þess vegna eindregið, alveg án tillits til þess skoðanaágreinings, sem annars kann að vera hjá hv. þm., fara fram á það, að Alþingi samþykki þessa brtt.