26.02.1964
Sameinað þing: 46. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (2326)

101. mál, bann gegn tilraunum með kjarnorkuvopn

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil þakka utanrmn. fyrir skjóta og góða afgreiðslu á þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir. Ég get, að því er varðar brtt. þá, sem fram hefur verið borin, tekið undir það, sem hv. frsm. utanrmn. sagði um þá till. Ég er honum og meiri hl. utanrmn. algerlega sammála um, að brtt. sú, sem hér er á ferðinni, á ekki heima í sambandi við þá till., sem hér liggur fyrir. Hér er farið fram á það eitt að staðfesta fullgildingu á alþjóðasamningi, sem íslenzka ríkisstj. hefur ákveðið að gerast aðili að og biður nú um heimild Alþingis til að staðfesta. Sú brtt., sem hér er lögð fram, gengur lengra og inn á víðara svið en samningurinn sjálfur fjallar um, og það er að mínu viti algerlega ótímabært, eins og málin standa, að fara að blanda þessum tveimur atriðum saman.

Því hefur verið hvað eftir annað lýst yfir af hálfu ríkisstj., að hér hafi engin kjarnorkuvopn verið, hér séu engin kjarnorkuvopn og ekki hafi verið farið fram á að hafa þau hér. Þetta er að sjálfsögðu byggt á því ástandi, sem ríkt hefur og ríkir í alþjóðamálum. Tilefni til þess að hafa hér kjarnorkuvopn hafa alls ekki verið fyrir hendi. En það er skoðun ríkisstj., að það sé ekki ástæða til að slá því föstu um alla framtíð, að hér skuli engin kjarnorkuvopn vera. Það er ekkert tilefni til að gefa slíka yfirlýsingu í dag, og maður veit ekki á Þessari stundu, hvernig skipast kunni í alþjóðamálum í framtíðinni, og það er því fremur fráleitt að gefa yfirlýsingu eins og þá, sem farið er fram á í brtt., sem að undanförnu hafa staðið yfir og standa enn yfir milliríkjaráðstefnur, þar sem verið er að ræða þessi mál og reyna að komast að samkomulagi um afvopnun og bann við kjarnorkuvopnum. Þessar ráðstefnur hafa lengi staðið yfir, þær standa enn yfir, og menn eru að gera sér vonir um, að þar fáist heildarárangur í þessum málum, árangur, sem ekki snertir okkur eina: heldur allar þjóðir. Og það væri vissulega nokkuð úrhættis fyrir okkur, á meðan málin standa þannig, að fara að gefa yfirlýsingu eins og þá, sem hér er farið fram á, að hér skuli aldrei kjarnorkuvopn vera, til hvaða atburða sem kunni að draga í heiminum.

Ég vil eindregið leggja til, að brtt. verði felld og þáltill. sjálf verði samþykkt óbreytt, eins og hún liggur fyrir.