26.02.1964
Sameinað þing: 46. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (2328)

101. mál, bann gegn tilraunum með kjarnorkuvopn

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð. — Á nýafstöðnu þingi Norðurlandaráðs lá fyrir þinginu þáltill. frá nokkrum finnsku fulltrúanna, þar sem lagt var til, að Norðurlandaráð lýsti því yfir, að Norðurlönd yrðu í framtíðinni kjarnorkulaust svæði. Þessi till. var á þinginu felld með yfirgnæfandi meiri hl. atkv., ekki vegna þess, að nokkur einasti þingfulltrúa væri þeirrar skoðunar, að Norðurlönd ættu að hafa kjarnorkuvopn, heldur vegna þess, að það var talið algerlega óeðlilegt að gefa neina slíka einhliða yfirlýsingu, og til þess vitnað, að það væri alkunna öllum þjóðum heims, að Norðurlöndin legðu á það áherzlu alla tíð innan samtaka Sameinuðu þjóðanna að vinna gegn notkun kjarnorkuvopna og þau yrðu hvarvetna útiæg gerð og að það yrði unnið að því , eins og Svíar hafa lagt til, að koma á stórum kjarnorkulausum beltum víðs vegar um heiminn og þannig smám saman draga úr áhættu af notkun kjarnorkuvopna og þau yrðu hvarvetna útlæg gerð og að það yrði unnið að því, eins og Svíar hafa lagt til, að koma á stórum kjarnorkulausum beltum víðs vegar um heiminn og þannig smám saman draga úr áhættu af notkun kjarnorkuvopna. Hins vegar var á það bent, og það er kannske fróðlegt að geta þess, vegna þess að Svíar hafa ætíð haft nokkra sérstöðu vegna síns yfirlýsta hlutleysis, — það var á það bent af þeirra hálfu, að þeir væru einnig andvígir að gefa slíka yfirlýsingu, vegna þess að þótt þeir hugsuðu sér ekki að leyfa nein kjarnorkuvopn né framleiða kjarnorkuvopn, teldu þeir mjög hæpið að vera að gefa slíkar yfirlýsingar fyrir mjög afmörkuð landssvæði. Þeirra fyrrv. utanrrh., eins og menn vafalaust vita, hafði frumkvæði að því að leggja til, að komið yrði á stóru kjarnorkulausu belti í Evrópu, og það var af hálfu þeirra forsrh. á það bent núna, að þetta væri áfram þeirra skoðun, en þeir teldu, að það þjónaði engum tilgangi í þessu máli að vera að gefa takmarkaða yfirlýsingu fyrir Norðurlönd, því að þetta þyrfti að skoðast frá miklu víðari sjónarhóli og ætti af eðlilegum ástæðum að vinna að þeim málum með samstarfi Norðurlanda innan Sameinuðu þjóðanna. Það væri öllum kunnugt um það, öllum heimi, að Norðurlönd væru andvíg kjarnorkuvopnum og öllum vopnabúnaði og þau hefðu alltaf hingað til og mundu hér eftir leggja sitt af mörkum til þess að styðja öll þau öfl, sem ynnu gegn slíku á alþjóðlegum vettvangi.

Það var ekki minnzt á Ísland í þessari till. Norðurlandaráðs, en að sjálfsögðu er okkar sjónarmið af eðlilegum og sjálfsögðum ástæðum alveg byggt á sömu forsendum, enda hefur Ísland ætíð staðið með öllum aðgerðum á þessu sviði á alþjóðlegum vettvangi með hinum Norðurlöndunum.

Það má kannske segja sem svo, að það sé meinlaust að gefa yfirlýsingu sem þessa. En ég held nú sannast sagna, að ef menn fara að skoða hana niður í kjölinn, sé hún harla fánýt, í fyrsta lagi vegna þess, að það er auðvitað fjarri öllu lagi, að Alþingi geti með þál. bundið þingið um alla framtíð. Það er gersamlega útilokað mál. Það getur orðið skipað á allt annan veg og að sjálfsögðu ekki nokkur möguleiki til þess, að það sé hægt að binda þingið á þennan hátt, og að gefa slíka yfirlýsingu er nánast næsta broslegt. Það er hægt að gefa hana fyrir þann tíma, sem núv. þm. hafa sitt umboð, en það getur auðvitað ekki bundið þingið í komandi framtíð, þannig að af þeirri ástæðu einni saman er svona till. harla hæpin. Að öðru leyti má svo benda á það, sem ég hygg að muni vera rétt, að þegar lagðar eru hér fyrir Alþingi þál. um staðfestingu alþjóðlegra samninga, á hvaða sviði sem það er, þá held ég, að það hafi aldrei verið venjan að fara að tengja við það aðrar yfirlýsingar, þó að það kunni eitthvað að vera skylt því máli, heldur sé aðeins gefin einföld yfirlýsing um staðfestingu viðkomandi samnings, en ekki farið að taka upp önnur mál í sambandi við það, enda þótt þau kunni að vera meira og minna skyld. Mér sýnist það því vera augljóst mál, að þó að menn geti ekki fallizt á þessa brtt., sem hér er flutt af hv. 3. þm. Reykv., þá auðvitað felur það ekki í sér það, að nokkur einasti þm. hér, og ég þykist þess fullviss, að það sé ekki einn einasti þm. finnanlegur hér á hinu háa Alþingi, sem ekki sé í allan máta andvígur hvers konar notkun kjarnorkuvopna og beitingu þeirra frá okkar landssvæðum eða annars staðar og eigi enga ósk heitari en það sé hægt að útrýma slíkum vágestum úr veröldinni, — þá ber ekki að skoða viðhorf manna til þessarar brtt. sem neina yfirlýsingu um það efni, heldur nákvæmlega á sama hátt og kom fram í Norðurlandaráði hjá þeim mikla þorra þingfulltrúa, sem greiddi atkv. þar gegn till., sem gekk í svipaða átt, en var þó mun vægar orðuð en þessi till. hér.