26.02.1964
Sameinað þing: 46. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í D-deild Alþingistíðinda. (2332)

101. mál, bann gegn tilraunum með kjarnorkuvopn

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Á það hefur verið bent í umr., að það kynni út af fyrir sig að hafa heldur lítið gildi, sérstaklega ekki um alla framtið, þó að samþykkt yrði þáltill. á Alþingi um, að hér skyldi aldrei leyft að hafa kjarnorkuvopn, vegna þess að auðvelt væri að breyta þessari ályktun, hvenær sem menn sæju tilefni til. Ummæli eins og þessi gáfu hv. 3. flm. brtt. tilefni til þess að gera nokkurn samanburð á gildi þáltill. sjálfrar og brtt., og einmitt þessi samanburður, ef hv. þm. hefði hirt um að rekja hann dálítið lengra, sýnir, hversu gersamlega flm. misskilja þetta mál í eðli sínu og í heild og hversu fjarri því fer, að þeir geri sér grein fyrir því, hvaða munur er á sjálfri þáltill., eins og hún er orðuð frá ríkisstj., og þeirri brtt., sem hér er verið að flytja. í aðaltill, er lagt til, að Alþingi fullgildi milliríkjasamning, sem fjöldi þjóða hefur undirritað. Með þessum samningi skuldbinda öll aðildarríki hans sig gagnvart hvert öðru til þess að hlíta vissum reglum um meðferð kjarnorkuvopna. Hér er um gagnkvæman samning fjölda ríkja að ræða, og einmitt gildi málsins og það öryggi, sem í samningnum kann að felast, liggur fyrst og fremst í því, að hér eru ótal ríki að skuldbinda sig til að gera ekki ákveðna hluti og það fyrst og fremst ríkin, sem ráða yfir kjarnorkuvopnum. Það er þessi skuldbinding, sem færir okkur það öryggi, sem kann að felast í samningnum, og það er þetta, sem gefur honum gildi. Og þetta er ástæðan fyrir því, að ríkisstj. hefur lagt til, að Ísland gerist aðili að samningnum. En í brtt. er farið fram á allt annað. Þar er lagt til, að Ísland lýsi því yfir einhliða. að hér skuli ekki vera höfð kjarnorkuvopn. Á móti þessari yfirlýsingu kemur ekki nein skuldbinding og ekki neitt loforð frá neinum öðrum. Það eina, sem við höfum gert, er að binda okkur, meðan sú ályktun væri í gildi, um, að hér væru ekki kjarnorkuvopn. Allar aðrar þjóðir hefðu jafnóbundnar hendur gagnvart okkur þrátt fyrir þessa till., þótt samþykkt yrði.

Brtt., sem hér er lögð fram, færir okkur þess vegna ekki það öryggi, sem gagnkvæmur samningur færir okkur, og Það öryggi, sem við teljum að felist í Moskvusamningnum. Ef eitthvað lægi fyrir um það, að hægt væri að fá samninga við þá, sem yfir kjarnorkuvopnum ráða, að þeir mundu með milliríkjasamningi gera eitthvað svipað því, sem farið er fram á í brtt., fælist öryggi í málinu, og þá horfir það allt öðruvísi við. Í þessu liggur sá stóri hnútur. Á meðan móti yfirlýsingu frá Íslandi um, að hér skuli ekki höfð kjarnorkuvopn, kemur ekki neitt, er ástæðulaust og tilefnislaust fyrir okkur að segja annað og meira en það: Hér eru ekki kjarnorkuvopn, hér hafa ekki verið kjarnorkuvopn, og það eru ekki ráðagerðir uppi um að hafa neitt slíkt. Það er vissulega ósk og von íslenzku þjóðarinnar, að aldrei þurfi til þess að koma, að hér né annars staðar þurfi að vera kjarnorkuvopn, þar sem þau eru ekki í dag, og helzt, að þeim verði eytt, þar sem þau eru til. En til þess að hægt sé að ýta undir það, að samkomulag megi takast á milli þeirra ríkja, sem kjarnorkuvopnum ráða, eigum við Íslendingar og þeir aðrir, sem ekki hafa leyft kjarnorkuvopn í sínum löndum, ekki að vera að gefa yfirlýsingar eins og þá, sem farið er fram á í brtt. Við eigum þvert á móti að segja, eins og ríkisstj. hefur sagt: Við höfum ekki kjarnorkuvopn. Og við getum bætt því við, að við mundum fagna því, ef hægt væri að koma á samkomulagi um allan heim og fyrst og fremst hjá stórveldunum, sem kjarnorkuvopnunum ráða, að gera samkomulag eins og felst í brtt. Þegar slíkt samkomulag fæst, þá er öryggi í því, en fyrr er það ekki.

Það var vitnað til þess, sem U Thant, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hafði sagt, þegar samkomulagið um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn var undirritað á sínum tíma. Það var rétt, framkvæmdastjórinn hvatti allar þjóðir og ekki hvað sízt smáríkin til þess að hafa ekki og leyfa ekki kjarnorkuvopn í sínum löndum. Ég efast ekki um, að öll smáríki veraldarinnar og öll þau ríki, sem hafa ekki kjarnorku í dag, væru vissulega reiðubúin til þess að taka undir þessa áskorun framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, ef þau ættu þess kost, að stórveldin vildu gera samkomulag við smáveldin um að banna gersamlega kjarnorkuvopn alls staðar, hvar sem er í heiminum. En því miður er ekki neinu slíku að heilsa, eins og málin standa í dag.