26.02.1964
Sameinað þing: 46. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í D-deild Alþingistíðinda. (2333)

101. mál, bann gegn tilraunum með kjarnorkuvopn

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. hefur nú sagt mest af því, sem ég vildi hér sagt hafa til svars því, sem fram hefur komið, einkanlega í ræðu hv. 5. landsk. þm. En það var aðeins eitt atriði, sem ég vildi þó benda á, þar sem hv. þm. hélt því fram, að með yfirlýsingu þeirri, sem hér væri lagt til í brtt. að Alþingi gerði, væri verið að gefa sams konar bindingu fyrir þingsins hönd og með þáltill. sjálfri. Á þessu er lagalega séð grundvallarmismunur, vegna þess að með þáltill, sjálfri er Alþingi að heimila ríkisstj. að fullgilda gagnkvæman samning. Slík heimild byggist á lögum, og eins og er um alla gagnkvæma samninga, hljóta þeir að sjálfsögðu, strax og þeir eru fullgiltir, að vera bindandi fyrir þann, sem fullgildir þá, þannig að þessi yfirlýsing út af fyrir sig, sem aðrir geta byggt rétt á, verður auðvitað bindandi fyrir þingið einnig í framtíðinni. Það er ekki hægt að afturkalla slíkt. Það er sama og ráðh. í dag, sem undirritar skuldbindingu fyrir ríkið og byggir hana á gildandi lögum, það getur ekki annar ráðh. afturkallað það. Brtt. er hins vegar um það eitt, að Alþingi gefi einhliða yfirlýsingu af sinni hendi, sem enginn getur byggt neinn rétt á nema Alþingi sjálft. Og það vitum við náttúrlega, að hefur allt aðra þýðingu, og má segja í rauninni, að sé hægt að afturkalla hvenær sem er og getur ómögulega haft þýðingu. Það er aðeins skoðun þingsins, eins og það er skipað í dag, á þessu máli, og það getur ekki haft gildi fyrir framtíðina, nákvæmlega eins og það er mjög hæpið, að yfirlýsing ráðh. um það, að hann eða ráðh. muni ekki gera tiltekna hluti í framtíðinni, sé á nokkurn hátt bindandi fyrir komandi ráðh., ef ekki er hægt að byggja á þeirri yfirlýsingu rétt til handa þriðja manni.

Þetta er aðeins lögfræðileg túlkun á atriðinu, sem ég vildi láta koma fram, af því að hv. þm. hélt því fram, að hér væri um nákvæmlega sama að ræða.

Varðandi svo hitt atriðið, sem hv. 3. þm. Reykv. minntist hér á, að þessi till. hefði gildi að því leyti til, ef ríkisstj. væri sett frammi fyrir þeim vanda að eiga að svara með hálftíma, klukkutíma fresti á örlagaríkri stundu, hvort hér ættu að vera kjarnorkuvopn eða ekki, þá held ég sannast sagna, að jafnreyndur þm. og hv. 3. þm. Reykv. geri sér þess fulla grein, hvort einhver þál., sem er mjög deilt um í stjórnlagarétti, hvort hefur yfirleitt nokkra lögformlega bindingu í för með sér, mundi hafa áhrif á það, ef ríkisstj. á hverjum tíma, hverjir sem hana skipa, yrði á örlagastundu að taka slíkar ákvarðanir, og þeir mundu þá svara því til, að þingið hefði einhvern tíma gert ályktun sem hindraði það. Vonandi kemur aldrei til, að neinn ráðh. þurfi að svara slíkri spurningu. Við erum áreiðanlega öll sammála um þá ósk og von, að aldrei komi til þess. En auðvitað mundi slík ályktun ekki hafa nokkra þýðingu varðandi ákvörðun á úrslitastundu i þeim efnum. Við vitum ósköp vel, hvað gerzt hefur hér á undanförnum árum í þeim efnum á hernaðartímum, að það er ekki spurt að slíkum hlutum, heldur verðum við að ákveða það eins og hverju sinni líf og hagsmunir þjóðarinnar teljast krefja. Menn geta svo alltaf deilt um það, hvort rétt ákvörðun er tekin eða ekki. Það er önnur saga.