04.03.1964
Sameinað þing: 49. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í D-deild Alþingistíðinda. (2344)

19. mál, örorku- og dánarbætur sjómanna

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hv. allshn. fyrir það, að hún hefur afgreitt þáltill. okkar hv. 5. þm. Vestf. um sérstakar örorku- og dánarbætur til sjómanna á íslenzkum skipum. Við flm, höfðum áður á tveimur þingum flutt frv. um, að öllum íslenzkum sjómönnum yrðu tryggðar sérstakar dánarbætur og örorkubætur, án þess að þau frv. fengjust afgreidd, og þótti mér þá óvænlega horfa um skilning hv. Alþingis á þessu hagsmunamáli íslenzkra sjómanna og aðstandenda þeirra. Eftir að nauðsyn aðgerða í þessu máli var átakanlega staðfest við hörmuleg sjóslys fyrir tæpu ári, þegar 16 sjómenn fórust á sex skipum, sumir tryggðir með 200 þús. kr. sértryggingu og aðrir ekki, þá satt að segja trúði ég ekki öðru en þetta hagsmunamál sjómanna og réttlætismál fengist afgreitt á hv. Alþingi, ef enn væri reynt á vilja þingsins til að leysa þetta mál þótt ég hefði fremur kosið, að þáltill. yrði samþ. óbreytt eða hún yrði nokkru ákveðnari en hv. allshn. leggur til með sinni brtt. og að miðað væri við, að athugun málsins yrði lokið fyrir þingbyrjun, þá er ég samt sem áður ánægður með afgreiðslu málsins nú tveimur árum eftir að það var fyrst flutt. Aðalatriðið er, að með samþykkt þáltill. er staðfest, að það er vilji hv. Alþingis, að öllum íslenzkum sjómönnum verði tryggðar sömu sérstöku örorku- og dánarbætur umfram bætur almannatrygginga, eigi lægri en 200 þús. kr. miðað við fulla örorku eða dauða. Ég efast ekki um og hef aldrei efazt um það, að tilhögun slíkra bóta er leysanlegt vandamál, — vandamál, sem hægt er að leysa farsællega, eftir að með þál. hefur fengizt fram yfirlýsing um, að það er vilji Alþingis, að allir sjómenn á íslenzkum skipum njóti sérbótanna.