18.12.1963
Sameinað þing: 30. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í D-deild Alþingistíðinda. (2374)

93. mál, efling skipasmíða

Flm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þessi till. til þál. á þskj. 106 um eflingu innlendra skipasmíða er flutt í þeim tilgangi að vekja athygli á þessu máli og fá úr því bætt, að innlendar skipasmíðar verði auknar verulega frá því, sem nú er og hefur verið um allmörg undanfarin ár. Til þess að sýna fram á, hvað hlutur innlendra skipasmíða er í raun og veru lítill, þykir mér rétt að benda á í örstuttu máli, að samkv. upplýsingum frá Skipaskoðun ríkisins áttu Íslendingar samtals 44 fiskiskip í smíðum 20. nóv. s.l. Af þeim eru 26 smíðuð í Noregi, 5 í Danmörku, 4 í Svíþjóð, 3 í Hollandi, 2 í Engiandi og 4 á Íslandi. Af þessum 44 skipum eru 4 innan við 100 rúmlestir, 5 innan við 150 rúml., 5 150—200 rúml. og 30 200—300 rúml. Auk þessara skipa eru 6 bátar í smíðum innanlands, og eru þeir allir undir 30 rúml. Þessi skip eru samtals um 8700 rúmi. og munu bætast við fiskiskipaflotann nú um áramót og fram á vor 1964.

Allir sjá, að hlutur innlendra skipasmíða er allt of lítill og brýna nauðsyn ber til þess, að hann verði aukinn. Á síðustu árum hafa íslenzkir útvegsmenn keypt meira af stálskipum en nokkru sinni fyrr, en flestar íslenzkar skipasmíðastöðvar hafa ekki enn sem komið er hafið smíði stálskipa, og segja má, að stálskipasmíði hér á landi sé rétt byrjuð hjá örfáum aðilum. Þess ber að sjálfsögðu að geta, að nokkrar nýjar skipasmíðastöðvar hafa verið reistar og nokkrar eldri stöðvar hafa farið í mikla fjárfestingu með auknum húsbyggingum, fullkomnari vélum og áhöldum og nýjar og stærri dráttarbrautir verið byggðar. En allt ber að sama brunni, þessum fyrirtækjum eins og raunar svo mörgum öðrum verður fjármagnsskortur fjötur um fót, eins og alltaf á sér stað, þar sem framkvæmdir eru örar og menn vilja hraða sér að byggja upp, eins og Íslendingar hafa gert og eru að gera.

Sú lánsstofnun, sem hefur því hlutverki að gegna, að veita stofnlán til fiskiskipa, Fiskveiðasjóður Ísland s, hefur það takmarkað fé til útlána sinna, að hann getur ekki greitt út þau lán, sem honum er ætlað að lána til skipakaupa, enda hafa skipakaup verið það mikil að undanförnu. Fiskveiðasjóður lánar 2/3 af byggingarkostnaði fiskiskipa, sem byggð eru erlendis, og er sá háttur hafður á, að almennt greiðir sjóðurinn þessi lán út á 7 árum, og verða því kaupendur þessara skipa að taka erlend lán allt að 70% af byggingarverði skipanna til sama tíma. Hinar erlendu skipasmíðastöðvar lána almennt þessi lán, og er þeim gert kleift að fá þetta fé að láni, og á þann hátt styðja þessar þjóðir að aukinni vinnu og viðskiptum hver í sínu landi.

Af skipum, sem byggð eru innanlands, á fiskveiðasjóður að lána 3/4 byggingarkostnaðar, og er svo komið, að sjóðurinn getur ekki greitt þetta lánsfé út og líklegt, að hann neyðist til að taka upp sömu eða svipaða reglu og er í sambandi við skipin, sem byggð eru erlendis. Í árslok 1962 námu heildarútlán fiskveiðasjóðs til fiskiskipa tæplega 497 millj. kr. og önnur lán um 7 millj. kr., en innstæður lántakenda hjá fiskveiðasjóði nema á sama tíma rúmlega 125 millj. kr. En það er í raun og veru fé, sem sjóðurinn hefur skuldbundið sig til að endurgreiða, á sama hátt og lánin vegna skipakaupanna erlendis eiga að greiðast.

Hvað svo sem líður viðhorfum manna, hvort skipakaup eru of mikil eða ekki, þá hljóta allir að vera sammála um það, að innlenda skipasmíðin er of lítil og finna verður ráð til að tryggja henni fjármagn, og er það mín skoðun, að það sé ekki síður eðlilegt og sjálfsagt, að opinberri lánastofnun eins og fiskveiðasjóði sé gert kleift að taka lán erlendis, alveg eins og fjöldi einstaklinga og félaga hefur gert og í raun og veru út á skuldbindingar fiskveiðasjóðs. Þrátt fyrir að nýsmíði hefur verið lítil innanlands hafa nokkrar skipasmíðastöðvar haft næg verkefni árið um kring, en þó munu þær vera fleiri, sem hafa ekki næg verkefni að jafnaði allt árið. Viðhald fiskiskipastólsins fer að verulegu leyti fram á milli vertíða, vor og haust, og eru þá annir mjög miklar og tilfinnanlegur skortur á fagmönnum, og er þá unnið nótt með degi, en svo kemur oft dauður tími, sem hefur orðið til þess, að fólki hefur fækkað verulega í þessari atvinnugrein. Með nýsmíði er hægt að brúa þetta bil og koma í veg fyrir, að fólki fækki í þessari atvinnugrein, og jafnframt, að nauðsynleg fjölgun geti átt sér stað. Samkv. upplýsingum Landssambands iðnaðarmanna voru í sept. 1962 aðeins 192 sveinar og 49 nemar í skipasmíði, en aðrir starfsmenn 199 í þessum iðnaði, eða samtals faglærðir og ófaglærðir 440. Á því sama ári var starfsmannafjöldinn mestur í júnímánuði eða samtals 537 menn. Ef þessi óheillaþróun heldur áfram, er það sannfæring mín, að á þeim takmarkaða tíma, sem skipin hafa til viðgerða á milli vertíða, og með aukningu skipastólsins fer svo fyrr en varir, að fiskiskipin neyðast til að fara til annarra landa til viðgerðar og eyða í það lengri tíma og dýrmætum gjaldeyri. Þetta má ekki koma fyrir, og væri það þjóðinni til stórrar vansæmdar, ef ekki reynist unnt að framkvæma allar viðgerðir á fiskiskipum landsmanna innanlands, og gæti það leitt til stórkostlegs fjárhagslegs tjóns í afla fyrir sjómenn, útgerðarmenn og þjóðarbúið í heild, ef skipin þurfa að eyða lengri tíma til viðgerða og eftirlits með því að sigla til annarra landa. Við verðum að keppa að því að auka útflutningsframleiðslu okkar með því að nýta sem bezt og hagkvæmast okkar framleiðslutæki. Það er því allra hluta vegna bráð nauðsyn á að gera hér úrbætur til þess að bægja þessari hættu frá.

Á flestum stöðum úti um landið er fjölbreytni í atvinnulífinu af skornum skammti, og veit ég um fjöldamörg dæmi þess, að ungt fólk hefur beinlínis leitað þaðan í burtu og til þéttbýlisins hér syðra, vegna þess að það fékk ekki þá vinnu í heimkynnum sínum, sem það helzt kaus sér. Vinnan á þessum stöðum er mest við sjósókn og fiskvinnslu. Fólkið vill fá að skipta um atvinnu, og einhæfir atvinnuhættir geta staðið í vegi fyrir því, að þróun og eðlileg fjölgun eigi sér stað í ákveðnum byggðarlögum. Skipasmíðin er sú atvinnugrein, sem getur gerbreytt þessum einhæfu atvinnuháttum, því að með því að auka skipasmíði, er um leið verið að efla fjölmargar aðrar iðngreinar, svo sem járnsmíði, vélsmíði, rafvirkjun, málaraiðn, húsgagnasmíði, svo að nokkrar iðngreinar séu nefndar. Það hlýtur að vera hverjum iðnaðarmanni mikilvægt í starfi sínu að standa að því að skapa eitthvað nýtt, sjá fyrir sér nýja hluti, tæki, sem eru vönduð og glæsileg og eiga að skapa verðmæti fyrir þjóðarheildina, og finna, að það voru þeir, sem með þekkingu sinni og vinnu höfðu skapað þetta og voru þátttakendur í því að færa þjóð sinni ný framleiðslutæki. Það er nauðsynlegt að gera við það, sem er gamalt og er viðgerðar þurfi, en sú iðngrein, sem ekki fær tækifæri jafnframt að framleiða nýtt og sækja fram veginn með fullkomnari tækni, staðnar, og vinnugleðin hjá flestu því fólki minnkar og að lokum hverfur hún. Nýbygging og nýjar framkvæmdir krefjast aukinnar menntunar og fullkomnari tækni. Það skapar hjá því fólki, sem að því vinnur, meiri vinnugleði, og það keppir að Því að afla sér meiri þekkingar, sem bezt mun tryggja framþróun iðnaðar í landinu og um leið meiri fjölbreytni í atvinnulífi landsmanna almennt.

Ég vona, að hv. þm. taki þessari till. vel og hún fái hér samþykki og hæstv. ríkisstj. vinni ötullega að því að fá þessum málum skipað á þann veg, að veruleg aukning verði í skipasmíðum innanlands, og er ég þá sannfærður um, að allar þær iðngreinar, sem hér eiga hlut að máli, muni vaxa og þekking þeirra manna aukast að sama skapi og á stöðum úti um land verði við það meiri fjölbreytni í atvinnulífinu. Að lokum legg ég til, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.