11.03.1964
Sameinað þing: 52. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í D-deild Alþingistíðinda. (2377)

93. mál, efling skipasmíða

Dómsmrh. (Jóhann Hafatein):

Herra forseti. Ég er samþykkur þessari till., sem hér er flutt á þskj. 93, og vil segja aðeins gott eitt um það, að hún er fram komin og vekur athygli á miklu nauðsynjamáli, sem verið hefur um nokkurt skeið nokkurt vandamál til úrlausnar hjá okkur og þarf að leggja mikla áherzlu á að fá úr leyst á næstu árum.

Í þáltill. er í raun og veru tvennt. Það er annars vegar að stuðla að eflingu stofnlána til smíði fiskiskipa innanlands, er stefni að því, að fiskiskipafloti landsmanna verði í vaxandi mæli smíðaður hérlendis. Og til þess að flotinn geti verið smíðaður í vaxandi mæli hérlendis, þarf sjálf bátasmíðin innanlands að aukast og í öðru lagi að vera til skipasmíðastöðvar með dráttarbrautum, sem geti sinnt því verkefni að uppfylla kröfur landsmanna um smíði bátanna hér innanlands. En annað aðalatriðið í tillgr. er, að þetta allt á að skapa um leið stórum bætta aðstöðu til þess að framkvæma viðhald og endurbætur á fiskiskipaflotanum. En í framkvæmdinni hefur verið á það lögð áherzla hjá dráttarbrautunum, sem sumar hverjar hafa annazt skipasmíðar, að stöðvarnar gætu nokkuð jöfnum höndum haft báta í smíðum til þess að grípa til þeirrar vinnu á milli þess, sem eyður skapast, þar sem viðhaldið sjálft er nokkuð árstíðabundið í sambandi við vertíðirnar. Þannig hefur þetta verið, og stundum hafa verið á undanförnum árum, ef farið væri gegnum það, bátar í smíðum í öllum skipasmíðastöðvum hér eða dráttarbrautum, sem nokkra aðstöðu hafa haft til þess. Þetta hefur gert rekstrarmöguleikana jafnari og betri fyrir dráttarbrautirnar. Hitt er svo annað mál, að á þessu hefur kannske orðið núna alveg upp á síðkastið nokkurt hlé, en það stafar ekki eingöngu af lánsfjárskorti, heldur af ýmsum öðrum ástæðum, og þess vegna vildi ég aðeins hafa kvatt mér hljóðs í sambandi við umr. um málið hér, og mér finnst ekki vera hægt að komast hjá því að benda á, að örlítils misskilnings finnst mér gæta í nál. á þskj. 348. Þar er vitnað í umsögn Seðlabanka Íslands um till., þar sem á það er bent, að lánað sé til innlendrar skipasmíði 75% af matsverði skipa í stað 67% af matsverði skipa, sem smíðuð eru erlendis, og þetta er rétt. En um þetta segir, að till. sú, sem hér um ræðir, fjalli ekki um þetta atriði. Að sjálfsögðu fjallar hún um þetta atriði, einmitt að skapa betri aðstöðu til smíði innanlands heldur en erlendis, og það er gert með því, að þeir, sem láta smíða innanlands, geti fengið meiri hluta af kostnaði bátsins að láni sem stofnlán heldur en þeir, sem láta smíða erlendis.

En af hverju hafa menn þá smíðað erlendis? Það er m.a. af því, að skipasmíðastöðvarnar erlendis hafa getað lánað mönnum 7 ára lán á undanförnum árum, þeim sem hafa viljað kaupa báta þar í raun og veru er þetta alls ekki þannig vaxið, þeir, sem smíða bátana erlendis, fá 15 ára lán í fiskveiðasjóði. En ásóknin á fiskveiðasjóð varð svo ör, þegar menn vildu fara að stækka bátana og smíða stálbáta fyrst og fremst, sem ekki var þá hægt að smíða hér innanlands, að fiskveiðasjóður hafði ekki nægjanlegt bolmagn, og þess vegna hlutaðist hann til um það og átti nokkurn þátt í því, að mönnum yrði gert kleift að fá lán erlendis í skipasmíðastöðvunum og með aðstoð fjármálastofnana erlendis, og á það sérstaklega við um Noreg, fyrst í stað 7 ára lán þar, sem fiskveiðasjóður siðan tekur við og framlengir til 15 ára. Og þeir, sem fá þessi lán, fá í raun og veru sín fiskveiðasjóðslán og sína innistæðu í fiskveiðasjóði, sem þessi 7 ára erlendu lán eru greidd af. Í eðli málsins er þetta þess vegna ekki annað en það að gera fiskveiðasjóði kleift, sem honum ella hefði ekki verið fært, að veita og lofa mönnum lánum út á bátasmíðarnar erlendis. Munurinn er afar einfaldur. Ef bátur kostar hérlendis 10 millj. kr., þá kemur fiskveiðasjóðslánið þegar báturinn er fullbúinn, og Það verður að lána það strax, 71/2 millj. kr., 75%. Ef þessi sami bátur er smíðaður erlendis og kostar 10 millj. og með þeim reglum, sem framfylgt hefur verið, verður álagið á fiskveiðasjóð allt annað. Fyrst í stað, þegar báturinn er fullbúinn, er bara búið að greiða 30% af bátnum, og það á að vera eigið framlag kaupandans. Síðan er lánið greitt á 7 árum og það kemur þess vegna ekki fyrr en á næsta ári 1/7 af bátsverðinu, sem greiða verður af innistæðu bátskaupandans hjá fiskveiðasjóði upp í þetta lán, þ.e.a.s. það verður að greiða á öðru ári, eftir að báturinn hleypur af stokkunum, og síðan á 7 árum eitthvað um 11/2 millj. úr fiskveiðasjóði vegna þessara erlendu lána, í staðinn fyrir að við innlendu smíðina varð strax að svara út 71/2 millj. á 10 millj. kr. bát. Það er þess vegna engan veginn svo, að erlendu skipasmíðastöðvarnar að þessu leyti hafi gefið íslenzkum bátakaupendum nokkuð betri aðstöðu en þeir, sem hafa smíðað hér innanlands. Það má segja, að þeir hafi á vissan hátt lánað fiskveiðasjóði þarna, þó að þeir, sem kaupa bátana, séu hins vegar að forminu til lántakendur og hafi gengisáhættu af þessum lánum, meðan þau eru ógreidd. Og eftirspurnin, eins og ég sagði, eftir erlendu bátasmíðinni kemur ekki nema að sáralitlu leyti af því, að það hafi vantað lánsfé og betri aðstaða sé til þess að kaupa bátana úti, heldur að menn vildu kaupa vissar tegundir af bátum á undanförnum árum, s.l. 3 árum, stálskip, og af gerðum, sem við vorum þá ekki viðbúnir að byggja hér innanlands. En hefðum við verið viðbúnir hins vegar að byggja þessa báta hér innanlands, haft dráttarbrautir og haft skipasmíðastöðvar til þess, þá hefði verið stórkostlegur fjárskortur til þess að mæta eftirspurninni. En eftirspurnin var ekki hér, vegna þess að möguleikarnir voru ekki fyrir hendi. En þessi till. stefnir m.a. að því að stuðla að því , að þessir möguleikar verði fyrir hendi hér innanlands, og því er ég alveg samþykkur og það tel ég eitt af þeim stórmálum, sem við höfum til úrlausnar hér á næstu árum.

Nú hafa verið keyptir, eins og fram hefur komið, bátar erlendis frá í gríðarlega ríkum mæli á undanförnum árum, og það eru, ef ég man rétt, eitthvað 40—50 þá tar, sem eru í smíðum og koma alveg á næstunni hingað heim. Það má þess vegna segja, að smíðin hafi verið alveg ótrúlega ör, og það kemur fram í álitunum, sem hér fylgja með þessu, að sumum finnst hafa hallað mikið á um jöfnuðinn í lánveitingunum i sambandi við útveginn, að það hefur verið lánað allt of mikið og stuðlað of mikið að þá tasmíðinni, og skal ég sleppa því. En það er alveg víst, að það er vel fyrir þessu séð nú fram undan. Það væri hins vegar mjög alvarlegt fyrir okkur, ef yrði stöðvun i endurnýjun bátaflotans, og það er þá sennilega aldrei að mínum dómi heppilegra en nú, þegar við höfum smíðað svo mikið að undanförnu og endurnýjunin þarf ekki að verða mjög ör, einmitt að stuðla að því af öllu megni, að hinar innlendu skipasmíðastöðvar geti tekið við þessu verkefni og hér risið upp í verulegum stíl stálskipasmíði, sem hins vegar er ákaflega ung og ný atvinnugrein hjá okkur, en hefur þó farið af stað með þeim hætti, að vakið hefur eftirtekt. Hún hefur verið samkeppnisfær um verðlag við erlendar skipasmíðastöðvar í sambandi við útboð á stálskipum, sem hafa verið gerð bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur verið samkeppnisfær um verðiag og samkeppnisfær um gæði. Það er alveg rétt, nú vantar hana fjármagn, og það er mjög mikið atriði að stuðla að því, að þessi nýja iðngrein geti þróazt hér við eðlileg og hagstæð skilyrði, og svo jafnframt hitt, sem kemur m.a. fram í umsögn frá Félagi íslenzkra dráttarbrautaeigenda, það stóra verkefni, sem þessu er hliðstætt, og það er að stækka þessar gömlu dráttarbrautir okkar, sem hér eru fyrir hendi og voru upphaflega byggðar, eins og frsm. vék að, fyrir miklu minni báta og geta nú ekki sinnt því verkefni að gera við og annast viðhaldið á hinum nýju og stóru stálþá tum, nema með því, að þær verði stórkostlega stækkaðar. Til þess þarf töluvert fjármagn á komandi árum líka, en ætti einmitt að vera viðráðanlegra vegna þess, að við ættum ekki að þurfa að festa eins mikið fé í bátasmíði vegna þróunarinnar undanfarin ár og við höfum gert, og mætti þá hnika þessu stofnfé til og láta það í ríkari mæli renna að þessu sama markmiði, að efla bátaútgerðina hérna, en nú að þeirri hliðinni að sjá bátunum fyrir nægjanlegri aðstöðu í landi í sambandi við miklu stærri dráttarbrautir.

Hv. frsm. allshn. leiðrétti í ræðu sinni það, sem fram kemur í nál. um, að samkv. reikningum fiskveiðasjóðs fyrir árið 1962 eigi hann útistandandi í nýbyggingu skipa 10.5 millj. kr., eigi að vera 10.9, en í árslok 1963 9 millj. Ekki aðeins þessi smávilla þarna getur valdið nokkrum vafa, heldur hitt, hvernig ber að skilja það, hvað fiskveiðasjóður eigi útistandandi í nýbyggingum, því að eins og kunnugt er hefur fiskveiðasjóður veitt stórkostlegt fé til nýbygginga árlega í íslenzka bátasmíði og þá fram að þessu fyrst og fremst eikarbáta, en sá háttur hefur venjulega verið hafður á, að meðan bátarnir eru í smíðum, hafa verið veitt út á þá bráðabirgðalán í viðskiptabönkunum, aðallega í Útvegsbankanum og Landsbankanum, sem síðan eru greidd upp með einu láni, sem veitt er frá fiskveiðasjóði, þegar smíðinni er lokið.

Ég veit, að skipasmíðastöðvarnar hafa leitað töluvert á um það, að þær geti strax fengið lán til að hefjast handa um bátasmíðina, og sagt: Ef við getum ekki strax byrjað bátasmíði og fengið lánin eftir hendinni, Þá er okkur ekki gagn að þessu. — Á það er að líta, að í raun og veru hafa þær alltaf getað fengið lán eftir hendinni hjá viðskiptabönkunum út á væntanlegt fiskveiðasjóðslán. Það hefur aðeins verið lögð áherzla á það í framkvæmd málsins, að þær hefðu viðsemjendur, menn, sem vildu kaupa bátana, og þeir legðu fram sitt eigið framlag og byrjuðu á því, alveg eins og við erlendu þá tasmíðina. Þar verða menn að leggja eigið framlag, sem á að vera búið að borga 30%, þegar báturinn er afhentur. Eins hefur verið lögð áherzla á það í framkvæmdinni hér, en þó oft frá því vikið, að skipasmíðastöðvarnar hefðu fengið kaupanda að bátnum og sá kaupandi byrjaði að leggja fram 25%. Eftir það hefur svo gengið alveg sjálfkrafa um þau 75%, sem eftir eru, að þau eru lánuð í smááföngum í viðskiptabönkunum, þangað til fiskveiðasjóðslánið tekur við. Það hefur stundum á þessu staðið, og stundum hefur verið horft fram hjá þessu, og það hefur í einstöku tilfellum skapað erfiðleika. Að nokkru leyti var skipasmíðastöðvunum og dráttarbrautunum hjálpað á vissan hátt með ríkisábyrgð á þessu sviði fyrir nokkrum árum, sem veitti nokkra úrlausn.

Ég tel, að það beri að leggja ríka áherzlu á, að eigið framlag kaupendanna geti komið sem fyrst, þó að ég viðurkenni, að það kunni að einhverju leyti að þurfa að leysa þarna viss vandræði skipasmíðastöðvanna, sem geta fyrst og fremst komið í ljós á þeim tíma, sem ekki er mikil eftirspurn eftir þá tum, en þó að gera þeim kleift að hafa báta í smíðum vegna aðstöðunnar til viðgerða, eins og ég vék að í upphafi og hv. frsm, vék að, og Það er að sjálfsögðu rétt á það að líta. Hins vegar hafa þetta verið slík forréttindalán sem stofnlán hér á landi, að fá 75% af stofnkostnaði og yfirleitt til nokkuð langs tíma og með hagstæðum kjörum, að það er ekki óeðlilegt að gera kröfu til þess, að menn, alveg eins ef báturinn er smíðaður hér innanlands, séu reiðubúnir í upphafi að koma og leggja sitt eigið framlag, 25%, tilsvarandi 30% framlaginu, sem menn hafa lagt fram í sambandi við smíði bátanna erlendis.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Ég mæli eindregið með samþykkt till. og tel, að það sé mjög mikilvægt að stuðla að bættri aðstöðu og nægjanlegu fjármagni eða lánsfjáraðstöðu fyrir dráttarbrautirnar og fyrir þessa nýju iðngrein, stálskipasmíðina, sem er að vaxa úr grasi hjá okkur Íslendingum um þessar mundir.