11.03.1964
Sameinað þing: 52. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í D-deild Alþingistíðinda. (2379)

93. mál, efling skipasmíða

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Vegna þeirra ummæla, sem hæstv. dómsmrh. hafði hér í dag í sambandi við umr. um þessa þáltill., þykir mér rétt að taka það fram til þess að fyrirbyggja allan misskilning, að áður en ég lagði þessa till. fram, átti ég ýtarlegar viðræður við framkvæmdastjóra fiskveiðasjóðs um það hvort fiskveiðasjóður mundi geta greitt út þau lán, sem hann á að lána til skipa, sem byggð eru innanlands, ef skipabyggingar innanlands yrðu auknar, að óbreyttum fjárhagsástæðum fiskveiðasjóðs. Þá sagði framkvæmdastjóri fiskveiðasjóðs mér, að hann sæi ekki fram á annað en að það yrði að taka upp nákvæmlega sama hátt varðandi byggingu skipa, sem væru byggð innanlands, og þeirra skipa, sem væru nú byggð erlendis og fiskveiðasjóður lánar 2/3 af byggingarkostnaði, og þar hefur sá háttur verið hafður á nú í nokkur ár, að erlendu skipasmíðastöðvarnar lána eigendum þeirra skipa lán til 7 ára, sem fiskveiðasjóður endurgreiðir svo af þeim lánum, sem honum ber að lána til nýbyggingar skipa, sem byggð eru erlendis. Í árslok 1962 voru inneignir lántakenda hjá fiskveiðasjóði rúmlega 125 millj. kr. samkv. ársreikningum fiskveiðasjóðs fyrir árið 1962. Ég hygg, að með þeim mikla skipainnflutningi, sem átt hefur sér stað á árinu 1963 og á sér stað nú og kemur til með að verða fram eftir þessu ári, þá muni þessi upphæð hafa hækkað verulega, en ekki lækkað, og að óbreyttum ástæðum fiskveiðasjóðs kemur hann til með að berjast í bökkum með að geta staðið við þessar skuldbindingar sínar, og því er brýn nauðsyn þess að efla fiskveiðasjóð á þann veg, að hann geti greitt út þau lán, sem honum ber að veita til þeirra skipa, sem byggð eru innanlands. Og eitt af því, sem ég lagði áherzlu á, þegar ég flutti mína framsöguræðu fyrir þessari till., var þetta.

Út af því, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði hér áðan, þá er mikið um það rætt, hvað byggt sé mikið af skipum. En þeir menn, sem hafa hæst um það, hvað mikið sé byggt af skipum, gera sér yfirleitt litla grein fyrir því, hvað skipastóllinn gengur fljótt úr sér og hve mörg skip farast og ganga úr sér á hverju ári. Þróunin, sem hefur átt sér stað í skipabyggingum á undanförnum árum, hefur verið sú, að það hafa verið byggð miklu stærri fiskiskip en áður. Flest af þessum skipum eru frá 160 brúttólestum og upp í 300 brúttólestir. Hitt er mér og mörgum öðrum mikið áhyggjuefni, hve lítið er byggt af skinum af stærðinni 60—100 rúml., og það er mikið atriði, sérstaklega fyrir ýmsar verstöðvar úti um landið, því að stærri skipin eru fyrst og fremst byggð fyrir síldveiðarnar og þá eru þau staðsett hér við Suðvesturlandið og Faxaflóa meginhlutann af árinu. Ef verstöðvarnar úti um land fara inn á þessa braut. að byggja skip af þessum stærðum. 160—300 rúml., er vá fyrir dyrum heima í byggðarlögunum. Þróunin aftur í byggingu skipa af stærðunum 60—100 rúml. hefur því miður verið mjög lítil, og mætti segja mér það, að þar hafi heldur orðið samdráttur síðustu 2 árin. Og það eru skipin, sem eru gerð út frá sinni heimabyggð, sem skapa atvinnu í þessum byggðum, og þessum byggðum er því miklu meiri nauðsyn á því að halda sér við þessar stærðir skipa, sem eru gerðar út frá sinni heimahöfn og skapa fólkinu í landi þar atvinnu árið um kring.

Það er alveg rétt, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði, að við Íslendingar þurfum að fara meira út í stálskipasmíði, vegna þess að bygging tréskipa, sérstaklega stærri fiskiskipa, er mjög stórlega að dragast saman, og það er almenn skoðun útvegsmanna, að það sé heppilegra að gera út og eiga, hvað viðhaldskostnað snertir, stálskip en tréskip. Og margar skipasmíðastöðvar eru að búa sig undir þetta, og stálskipasmíðin er hafin hér á landi, og fleiri skipasmíðastöðvar þurfa að koma á eftir. Það sem veldur mönnum áhyggjum, er, að á nokkrum skipasmíðastöðvum á landinu er ekki nægileg vinna árið um kring, vegna þess að viðhald fiskiskipaflotans kemur fyrst og fremst á örstuttan tíma á milli vertíða, sérstaklega eftir að vetrarvertið lýkur og þar til sumarsíldveiðar byrja, og síðan aftur að loknum sumarsíldveiðum. Þessum skipasmíðastöðvum er því mjög mikils virði að geta hafið byggingu skipa og hagað sínum störfum á þann veg, að þær geti annazt nýsmíði þann tíma árs, sem viðhald skipanna er sáralítið eða jafnvel ekkert. Ef þær geta það ekki, verður samdráttur í skipasmíðaiðnaðinum. Eins og raun ber vitni, hefur hann orðið á undanförnum árum á einstaka stöðum, og það hefur ekki verið gróska í þessari iðngrein eins og í mörgum öðrum á síðustu árum.

Það tel ég hina mestu hættu, ef það verður frekari samdráttur í skipasmíðaiðnaðinum. Þá getur það leitt til þess, að útvegsmenn verða að neyðast til að fara með skip úr landi til viðgerðar, og það finnst mér vera til vanvirðu fyrir Íslendinga, ef þannig fer.

Ég vil svo ekki orðlengja frekar umr. í þessu máli, en þakka frsm. allshn. fyrir hans ræðu hér í dag og allshn. fyrir góða afgreiðslu á þessu máli og vænti þess, að Alþingi taki þessu máli á sama veg og allshn. hefur gert og umfram allt vænti ég þess, þegar þessi till, hefur verið samþykkt, að hæstv. ríkisstj. beiti sér mjög ötullega fyrir því að fá þær úrbætur, sem till. gerir ráð fyrir.