11.03.1964
Sameinað þing: 52. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í D-deild Alþingistíðinda. (2382)

93. mál, efling skipasmíða

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mikið þessar umr. Ég vil aðeins taka undir það, sem hér hefur komið fram hjá ræðumönnum almennt, að hér er um merka till. að ræða, sem beinist að því að bæta aðstöðu innlendra skipasmíðastöðva frá því, sem nú er. Ég vil þó aðeins koma hér inn á eitt atriði, sem nokkuð hefur verið rætt, og ég ætla, að þar gæti nokkurs misskilnings. En það er það, sem vikið hefur verið að og rætt um þann aðstöðumun, sem sé um að ræða milli innlendra og erlendra skipasmíðastöðva og hvað það sé hagstæðara fyrir Íslendinga fyrir þær sakir að byggja og gera samninga við erlendar skipasmíðastöðvar. Þetta tel ég, að ekki sé rétt.

Þegar maður, sem kaupir skip erlendis frá, gerir samning, verður hann að borga ákveðna upphæð, og það er nákvæmlega það sama, sem verður að eiga sér stað, þegar hann gerir samning við innlenda skipasmíðastöð. Hins vegar liggur það fyrir, að 70% af raunverulegum kostnaði erlendu þá tanna er hægt að fá samninga um til 7 ára. Í framkvæmdinni hefur það svo aftur verið þannig, að fiskveiðasjóðurinn hefur tekið að sér að framlengja þessi lán til 15 ára, og það er sami lánstími og um er að ræða hjá innlendu skipasmíðastöðvunum eða hjá fiskveiðasjóði fyrir innlend fiskiskip. Að hinu leytinu er það hagstæðara að byggja skipin innanlands, þar sem viðkomandi fær 3/4 að láni, en ekki nema 2/3 hjá erlendu skipasmíðastöðvunum. En það, sem hér þarf að breyta sérstaklega og fram kom í ræðu hjá iðnmrh, hér fyrr í kvöld, álit ég, að sé fyrst og fremst það, að skipasmíðastöðvarnar innlendu geti hafið byggingu á skipum innanlands án þess að hafa fasta samninga við kaupendur. Það er einmitt vegna þess, sem hér hefur fram komið í umr., að það er mikil nauðsyn á því að halda uppi og efla þessa iðnaðargrein, skipasmíðina, vegna okkar þarfar á viðhaldi skipastólsins yfir höfuð, þess vegna er nauðsynlegt, að það sé hægt að halda föstum ákveðnum fjölda iðnaðarmanna í þessari atvinnugrein. En það er því aðeins hægt, eins og hér hefur verið komið inn á fyrr í þessum umr., að næg verkefni séu jafnan fyrir hendi.

Nú getur það verið svo oft, að það eru ekki fyrir hendi kaupendur, þegar hlé skapast á skipasmíðastöðinni, og fyrir þær sakir, þó að skipasmiðurinn eða skipasmíðastöðin sé nokkurn veginn viss um það, að hún muni eignast kaupanda að bátnum fyrr en varir, þá getur hún ekki hafið framkvæmdina vegna þess arna, að hún fær ekki lán til byrjunarframkvæmda. Þetta er nákvæmlega sama, sem á sér stað erlendis. Við vitum það, að yfirleitt er ekki um samning að ræða, sem gengið er inn í. Það er yfirleitt ekki byrjað á þeim bátum, sem byggðir hafa verið fyrir Íslendinga, það er hrein undantekning, hafi það verið fyrr en samningur hefur verið gerður, og þá hefur viðkomandi útgerðarmaður orðið að snara sinni fyrstu greiðslu út. Ég vildi leggja sérstaka áherzlu á, að það, sem hér þarf að breytast frá því, sem verið hefur um aðstöðumuninn fyrir innlendu skipasmíðastöðvarnar, er þetta, að þær geti hafizt handa án þess að hafa fasta samninga. Við vitum, að ef þróunin heldur áfram í rétta átt, hljóta að skapast kaupendur alltaf öðru hverju að nýjum fiskiþá tum, og þess vegna ætti ekkert að vera í hættu fyrir fiskveiðiþjóð eins og Íslendinga að leggja kjöl að nýjum þá t öðru hverju. Og það er þessi aðstaða, sem þarf að skapa og breyta frá því, sem nú er. Hitt hefur svo verið, að þegar kaupandi hefur komið að fiskibáti innanlands, hefur það jafnan verið fyrir hendi, að sá hluti, sem fiskveiðasjóðurinn lánar lögum samkv., það hefur fengizt loforð um hann og viðskiptabankinn, eins og iðnmrh. sagði hér fyrr í kvöld, hefur þá verið fús á að veita fyrirgreiðslu upp á væntanlegt lán hjá fiskveiðasjóði.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram í þessum umr., en ég skal ekki orðlengja frekar um málið, en aðeins að lokum undirstrika, að það er staðreynd, að þróunin hvað viðkemur skipabyggingum hér innanlands eða eflingu sérstaklega fiskveiðiskipastólsins, þar sem ég tel að Íslendingar séu færir um að hafa framkvæmdina á hendi, — þróunin hefur ekki verið í rétta átt og of mikið af nýjum fiskibátum hefur verið keypt erlendis frá, í stað þess að bátarnir væru byggðir hér heima.