11.03.1964
Sameinað þing: 52. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í D-deild Alþingistíðinda. (2395)

94. mál, iðnrekstur í kauptúnum og kaupstöðum

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég tel fyllstu ástæðu til þess að fagna því, að till. sú, sem hér liggur fyrir, er komin til síðari umr. og útlit fyrir, að hún verði samþ. Það gleður mig einnig, að fjvn. hefur haft skjót umsvif í þetta sinn og afgreitt till. á fáum vikum, og væri sannarlega gott, að aðrar starfsnefndir þingsins tækju sér þessi vinnubrögð til fyrirmyndar. Og ég vil eindregið mæla með því, að oftar verði eins og í þetta sinn, að mál verði afgreidd, jafnvel þó að umbeðnar umsagnir komi ekki til skila.

Ég er algerlega sammála þeim þm. Norðurl. v., sem hér hafa talað um þetta mál og rökstutt nauðsyn þess, að þessi till. sé samþykkt. En um leið og ég lýsi yfir mínum fögnuði yfir þessari till., vil ég taka fram, að ég tel nú samt, að á henni sé einn heldur leiðinlegur annmarki. Ég tel afleitt, að ekki sé í till. neitt tímatakmark varðandi þá rannsókn, sem fram á að fara, og ég tel það ekki gott, að n. geti í rauninni leyft sér að dunda við þetta mál mörg ár, án þess að henni sé strax í upphafi ákveðinn einhver tími til að vinna að því. Það er ekkert tímatakmark sett í till. Auk þess vil ég bæta því við, að ég tel ekki verulega til bóta þá breytingu, sem fjvn. hefur lagt til að verði á till., þ.e.a.s. að ríkisstj. hafi málið algerlega í sinni hendi og skipi n. ein. Ég held, að ég þurfi ekki að rökstyðja frekar, að betra hefði verið, að till. hefði verið eins og flm. gerðu ráð fyrir, því að það er þá meiri von til þess, að hinir þingkjörnu menn mundu reka á eftir því, að till. næði til gangi sínum.

Eins og sjá má á till., er hún nokkuð yfirgripsmikil, þ.e.a.s. hún nær til alls landsins, og það eru ekki aðeins staðir, þar sem hreint neyðarástand er ríkjandi, eins og t.d. Siglufjörður, Skagaströnd eða Hofsós eða aðrir slíkir staðir, það er ekki eingöngu ætlazt til þess, að athugað sé með iðnrekstur á slíkum stöðum, heldur almennt, þar sem atvinna er ótrygg, þar sem atvinnuástandið er óöruggt, þar sem skortir á atvinnuöryggi. Ég þarf varla að taka fram, að það hafa verið skipaðar margar nefndir, sem hafa oft haft svipuð verksvið. Þær hafa átt að spanna yfir breitt verksvið, og ég held, að það hafi oftlega viljað brenna við, að n. hafi annaðhvort dagað uppi og þær hafi ekki skilað neinum till. eða verk þeirra hefur aðallega verið rannsókn á ástandinu eins og það er, ásamt nokkrum almennum vangaveltum og hugmyndum, en ekki svo vandlega farið út í að ákveða, hvaða framkvæmdir skuli hefja og fara út í og það tafarlaust. Ég er alls ekki að segja, að þetta verði útkoman á störfum þeirrar ágætu nefndar, sem hér á að taka til starfa. En ég vil aðeins vara við því, að svo verði í þetta sinn, eins og svo oft hefur verið.

Ég vil sízt af öllu draga úr því, að þessi ályktun verði samþykkt og n. taki til starfa. En ég hef dregið fram þennan ágalla af sérstakri ástæðu, og það er vegna þess, að ég hef hér leyft mér að bera fram þáltill., sem miðar að ýmsu leyti í sömu átt og sú till., sem hér liggur fyrir, enda þótt hún hafi ekki hlotið jafnskjóta afgreiðslu og þessi. Þessi till. mín er að vísu að ýmsu leyti frábrugðin og þá fyrst og fremst það, að hún er eingöngu miðuð við Norðurlandskjördæmi vestra. Það er tvímælalaust hvergi jafnillt ástand í atvinnumálum og einmitt á þess um stað og veruleg hætta á því, eins og þróunin hefur verið núna allra seinustu árin, að mjög alvarlegur afturkippur komi í álit atvinnulíf í þessum landshluta. Þessi till., sem ég hef leyft mér að flytja, er miklu takmarkaðri og miðuð eingöngu við þennan ákveðna stað, og ég gerði mér vonir um það, að þegar verksvið nefndar væri þetta þrengra, mundu þeir önnum köfnu menn, sem veljast til að rannsaka þessi mál, kannske gera því eitthvað betri skil en oft hefur verið áður með samsvarandi nefndir. Einnig er í þeirri till. gert ráð fyrir því, að n. skili störfum fyrir þingbyrjun næsta haust, og það er ekki miðað við, að um smáiðnað verði að ræða, heldur fyrst og fremst, að n. vinni að skipulegri atvinnuuppbyggingu, eins og tvímælalaust er þörf á á þessum slóðum.

Ég vil endurtaka það, að ég fagna þessari fljótu afgreiðslu þessarar ágætu till. En ég vil einnig leyfa mér að vona, að till., sem ég hef hér flutt, fái jafnhlýlegar viðtökur hjá fjvn., vegna þess að ég tel, að þrátt fyrir samþykkt þessarar till. sé ekki síður nauðsyn, að hún nái einnig fram að ganga.