18.03.1964
Sameinað þing: 54. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (2413)

141. mál, tryggingar gegn uppskerubresti og afurðatjóni í landbúnaði

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Allshn. hefur leyft sér að flytja hér á þskj. 255 till. til þál. um tryggingar gegn uppskerubresti og afurðatjóni í landbúnaði, en till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa 4 menn í nefnd, einn tilnefndan af stjórn Bjargráðasjóðs Íslands, annan af Búnaðarfélagi Íslands, hinn þriðja af Stéttarsambandi bænda og hinn fjórða án tilnefningar, til að endurskoða lög um búfjártryggingar og önnur lög, er málið varða, í því skyni, að komið verði á fót fyrir landbúnaðinn tryggingu gegn uppskerubresti og afurðatjóni með hliðsjón af aflatryggingum sjávarútvegsins. Sá nm., sem skipaður er af ríkisstj. án tilnefningar, skal vera formaður nefndarinnar.“

Snemma á þessu þingi voru fluttar þrjár þáltill. varðandi tryggingamál landbúnaðarins. Þessum þremur till. var öllum vísað til allshn., og ég tel raunar óþarft að gera grein fyrir þeim hér, því að þær eru öllum þingheimi kunnar. Allshn. sendi þessar þrjár till. til umsagnar til stjórnar Bjargráðasjóðs Íslands, til Stéttarsambands bænda og til Búnaðarfélags Íslands. Frá öllum þessum aðilum komu jákvæðar undirtektir, og ég vil alveg sérstaklega leyfa mér að lesa hér örstuttan kafla úr umsögn Stéttarsambands bænda, með leyfi hæstv. forseta, en þar segir svo:

„Tryggingamálið er þýðingarmikið fyrir landbúnaðinn, og mælum við eindregið með því, að Alþingi afgreiði þessi mál þannig, að skriður komi á gerð áætlana um tryggingar gegn margvíslegu búskapartjóni. Það, sem við teljum að sé nauðsynlegast fyrir bændur að tryggja gegn, er, þegar búfé ferst í hópum, svo sem flæðir, fennir, brennur eða verður afurðalaust af vissum ástæðum, svo sem lambaláti, kal í túnum, heybruni og heyfok. Mörg fleiri atriði koma til greina.“

Allshn. taldi það skynsamlegustu vinnubrögðin að semja nýja till. í stað hinna þriggja og sameina þar þau meginsjónarmið, sem koma fram í hinum þremur till., sem ég hef áður greint frá, og það er einmitt þessi nýja till. á þskj. 255, sem allshn. hefur samið af þessu tilefni og n. er sammála um að flytja.