30.10.1963
Sameinað þing: 8. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í D-deild Alþingistíðinda. (2419)

41. mál, ráðstafanir til að tryggja að hlunnindajarðir haldist í ábúð

Flm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 41 höfum við 4 þm. úr Vesturlandskjördæmi flutt till. til þál. um ráðstafanir til að tryggja, að hlunnindajarðir haldist í ábúð, og athugun á því, hvers vegna góðar bújarðir fara í eyði. Mál þetta var til meðferðar hér á hv. Alþingi, því er síðast sat, en náði þá ekki fram að ganga. Till. okkar var þá flutt sem brtt. við fram komna till. í þessu máli. Við höfum á þessu þskj. flutt hana óbreytta frá því, sem hún var þá fram lögð.

Það hefur áður verið skýrt hér á hv. Alþingi, hvaða breytingar hafa á orðið á hinum síðari árum i sambandi við laxveiðijarðirnar. Mjög hefur verið á Það sótt að kaupa slíkar jarðir til þess eins að stunda þar laxveiði, en ekki til þess að halda slíkri jörð í ábúð. Hefur svo farið, að jafnvel í hinum beztu héruðum, eins og Borgarfirði, er þetta orðið mjög áberandi. Í kringum eitt vatnasvæði þar, Langá, er nú mikill hluti af jörðum orðið í eigu annarra en ábúenda þeirra, og hafa þessar jarðir eingöngu verið keyptar vegna hlunnindanna. Þetta er áhyggjuefni þeirra bænda, sem þarna búa, og er það að vonum, að svo er. Hér er stefnt til auðnar, ef framhaldið verður eins og nú horfir.

Till. okkar gerir ráð fyrir því, að skipuð verði nefnd til þess að rannsaka þetta mál og í þeirri nefnd verði búnaðarmálastjóri, landnámsstjóri og Þriðji maður verði svo skipaður af hæstv. landbrh. Verkefni þessarar nefndar er í fyrsta lagi að kynna sér ástæður fyrir því, hvers vegna jarðir fara í eyði, og fyrst og fremst á að snúa sér að þeim jörðum, þar sem hlunnindi eru, í öðru lagi að safna gögnum um áhrif slíkrar þróunar á landbúnað annarra þjóða og ráðstafanir, sem þær þjóðir hafa gert til þess að sporna gegn þessari þróun.

Við gerum ráð fyrir því, að þegar þessi athugun hefur farið fram, semji n. frv., sem síðar verður lagt hér fyrir Alþingi, að lögum um þetta efni. Í sambandi við væntanlegt frv. bendum við á það, hvort ekki sé eðlilegt, að jarðakaupasjóður ríkisins sé skyldaður til þess að kaupa þessar jarðir, sem þannig er ástatt um, og selja þær svo aftur ábúanda, þegar ábúandi fæst á þær. Hér er um mikilvægt mál að ræða, sem nauðsyn ber til að verði rannsakað eins gaumgæfilega og tök eru á og leitað eftir skynsamlegum leiðum til úrbóta. Þá bendum við einnig á það, hvort ekki sé eðlilegt, að meðan þessar jarðir eru ekki í ábúð, sé eigendum þeirra gert að skyldu að greiða í hreppssjóð viðkomandi sveitarfélags útsvar, sem svaraði meðalútsvari þriggja ára næst á undan. Eins og nú er komið útsvarslögum, er ekki hægt að leggja útsvör á eigendur slíkra jarða.

Ég ætla ekki að sinni að orðlengja þetta, en legg til, herra forseti, að till. verði vísað til síðari umr. og hv. fjvn.