18.12.1963
Sameinað þing: 30. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í D-deild Alþingistíðinda. (2425)

90. mál, stofnlánasjóðir sjávarútvegsins

Flm. (Sverrir Júlíusson):

Herra forseti. Virðulegi þingheimur. Á þskj. 103 hef ég borið fram till. til þál. um athugun á sem hagkvæmastri skipan og aukningu stofnlánasjóða sjávarútvegsins. Með till. er í fyrsta lagi óskað, að ríkisstj. láti fram fara rannsókn á því, á hvern hátt auka megi fé það, er stofnlánasjóðir sjávarútvegsins hafa til umráða á hverjum tíma til tryggingar eðlilegri aukningu og uppbyggingu fiskiskipaflotans, svo og aukningu og uppbyggingu þeirra fiskvinnslustöðva og verksmiðja, er vinna úr hvers konar sjávarafla, og eigi síður til nauðsynlegra endurbóta á þessu sviði, svo að við getum hagnýtt okkur þá tækniþróun, sem á sér stað á hverjum tíma í þessum efnum, svo að unnið verði að skipulagningu og vinnuhagræðingu við veiðar og vinnslu sjávaraflans, en það verður til hagsbóta fyrir alla þá aðila, er þessa atvinnugrein stunda, sem og Þjóðina í heild og kemur fram í auknum þjóðartekjum. Í öðru lagi gerir till. jafnframt ráð fyrir, að nefnd sú, ef skipuð verður, athugi, hvort hægt sé að koma á hagkvæmari skipan þessara mála en nú er og þá á hvern hátt, t.d. með samræmdri eða sameinaðri starfsemi stofnana þeirra, er nú veita sjávarútveginum stofnlán. Eins og segir í grg., hefur sjávarútvegurinn haft mikla þörf fyrir fjármagn, vegna þeirrar miklu og öru uppbyggingar, er átt hefur sér stað á undanförnum áratugum hjá okkur Íslendingum.

Það er skoðun mín, að um langa framtíð verðum við Íslendingar að treysta á sjávarútveginn sem traustasta hlekkinn við gjaldeyrisöflun fyrir þjóðarbúið, en það er vel, að þeir verði sem flestir, og að fjölgun þeirra er vissulega unnið. Að mínu viti er höfuðnauðsyn, að þannig sé að þess um höfuðatvinnuvegi búið varðandi aðgang að lánsfé, að hann geti þess vegna innt sitt mikilvæga hlutverk af hendi í okkar þjóðfélagi, sem hefur takmörkuð fjárráð til uppbyggingar, en verkefnin blasa alls staðar við og vissulega er þeirra full þörf á mörgum sviðum, er nauðsyn, að þess sé gætt, að það fé, sem varið er til uppbyggingar og endurbóta sjávarútvegsins, nýtist á sem beztan hátt, bæði fyrir þá, sem fjárhagslega ábyrgð bera á rekstrinum, svo og með þjóðarhag fyrir augum.

Í grg. er getið þeirra fjögurra stofnana, er veita sjávarútveginum stofnlán lögum samkv. Ég vil gera nokkru nánari grein fyrir þessum stofnunum.

Fiskveiðasjóður Íslands var stofnaður með lögum nr. 52 10. nóv. 1905. Flm. frv. var Valtýr Guðmundsson, 2. þm. Gullbringu- og Kjósarsýslu. Í 3. gr. l. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Tilgangur fiskveiðasjóðs er að efla fiskveiðar og sjávarútveg landsmanna.“ Stofnfé var 100 þús. kr., sem landssjóður lagði fram að mestu leyti í skuldabréfum árið 1906. Aðaltekjustofn fiskveiðasjóðs hefur frá upphafi verið útflutningsgjöld af sjávarafurðum, er ríkissjóður innheimtir. Lögum um fiskveiðasjóð hefur nokkrum sinnum verið breytt, ekki alltaf sami hundraðshluti af útflutningsverðmæti sjávarafurða gengið til sjóðsins. En þær breytingar, sem hæstv. Alþingi hefur gert á lögum um fiskveiðasjóð, er ekki ástæða til þess að rekja á þessu stigi málsins, þar sem sama tilgangi hefur verið fylgt frá upphafi, þ.e.a.s. að styðja sjávarútveg Íslendinga, einkum þá taútveginn, með hagkvæmum stofnlánum. Eins og í grg. segir, hafa aðaltekjur sjóðsins af útflutningsgjöldum numið frá stofnun hans og til ársloka 1962 um 265 millj. kr., vaxtatekjur og aðrar tekjur hafa numið um 73.8 millj. kr., en framlag ríkissjóðs frá upphafi hefur numið 35 millj. 250 þús. kr. þá hefur sjóðnum verið séð fyrir lánum, sérstaklega nú á síðari árum, er nema háum fjárhæðum. Í árslok 1962 skuldar sjóðurinn af lánum þessum, miðað við núv. gengi íslenzku krónunnar, um 114 millj. kr. Sjóðurinn á útistandandi, miðað við árslok 1962, lán með veði í fiskiskipum og vegna skipa í smíðum innanlands um 507.9 millj. kr., en með veði í fiskvinnslustöðvum útvegsmanna um 37 millj. kr. Þessi merka stofnun hefur því á þeim 50-60 árum, sem hún hefur starfað, stuðlað verulega að uppbyggingu sjávarútvegsins.

Stofnlánadeild sjávarútvegsins var upphaflega sett á stofn af nýsköpunarstjórninni. Stofnfé hennar var 100 millj. kr. frá Seðlabanka Íslands. En fé þetta varð að endurgreiða Seðlabankanum, jafnóðum og það innheimtist. Þá var stofnlánadeildinni einnig séð fyrir fjármagni, er hún fékk í gegnum sölu á almennum vaxtabréfum, og vann hún sitt hlutverk á svokölluðum „nýsköpunarárum“, lánaði til fiskiskipakaupa, þar með taldir botnvörpungar, svo og til fiskvinnslustöðva með hóflegum vöxtum.

Þegar gamla stofnlánadeildin hafði lokið þessu hlutverki, var henni lokað, hún varð að endurgreiða Seðlabankanum sitt fé svo og vaxtabréfaeigendum. Það er ekki fyrr en á árinu 1961, er núv. hæstv. ríkisstj. beitti sér fyrir setningu laga nr. 48 29. marz 1961, þar sem stofnlánadeild sjávarútvegsins var opnuð að nýju og lausaskuldum sjávarútvegsins breytt í föst lán. Skuldir sjávarútvegsins við stofnlánadeildina námu í árslok 1962 383.4 millj. kr. Það sést ekki af reikningum deildarinnar, hvernig fjárhæð þessi skiptist milli veiðiskipa og fiskvinnslustöðva. Seðlabanki Íslands gerði stofnlánadeildinni það kleift, að standa undir þessum lánabreytingum, en gert er ráð fyrir endurgreiðslu til Seðlabankans á þessum lánum, jafnóðum og þau innheimtast, eins og upphaflega var við stofnun deildarinnar 1945 eða 1946. Eftir að lánabreytingar þessar höfðu verið framkvæmdar, var ekki um neinar nýjar lánveitingar frá stofnlánadeildinni að ræða. Þó er rétt að taka fram, að lán þau, er veitt voru af enska framkvæmdaláninu á þessu ári, 50 millj. kr., auk þeirra 5 millj. kr., er atvinnuleysistryggingasjóður veitti til uppbyggingar sjávarútvegsins, en þetta fé fór að verulegu leyti til síldariðnaðarins. Má segja, að þessu hafi verið ráðstafað í samráði við stjórn stofnlánadeildarinnar, en lánunum var úthlutað af fulltrúum viðskiptabankanna (gjaldeyrisbankanna) og Seðlabanka Íslands.

Hæstv. núv. ríkisstj. hafði skilning á því, að full þörf væri á, að stofnlánadeildin fengi fjármagn til umráða til stuðnings sjávarútveginum, til uppbyggingar og hagræðingar, því að í lögum nr. 28 17. apríl 1962, um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um nýtt gengi íslenzkrar krónu, í 7. gr., segir m.a., með leyfi hæstv. forseta, þar sem talin er upp skiptingin á útflutningsgjaldinu, að 30% af útflutningsgjaldi sjávarafurða skuli ganga til stofnlánasjóðs sjávarútvegsins eftir nánari ákvörðun ríkisstj., og mun þá hafa verið ráðgert, að þessi hluti útflutningsgjaldsins gengi til stofnlánadeildarinnar. En við nánari athugun var ekki talið kleift, að sjávarútvegurinn gæti staðið undir svo stórum hluta með beinum skatti á reksturinn til uppbyggingar lánasjóða sinna, eins og þar var gert ráð fyrir. Fyrir forgöngu heildarsamtaka útvegsmanna, L.Í.Ú., féllst ríkisstj. á að beita sér fyrir því við hæstv. Alþ., að þessi hluti útflutningsgjaldsins rynni til greiðslu vátryggingariðgjalda fiskiskipanna til viðbótar þeim hundraðshluta, er lög þau, er ég nefndi áðan, gera ráð fyrir. Sá, er þessi orð flytur, átti vissulega þátt í því ásamt öðrum forsvarsmönnum L.Í.Ú. að fá hæstv. ríkisstj. til að beita sér fyrir þessari breytingu. En ég fullyrði, að þessar óskir útvegsmanna voru ekki fram bornar vegna þess, að þeir teldu ekki fulla þörf á auknu fjármagni til stofnlána, heldur fram komnar í ljósi þeirra staðreynda, að sjávarútveginum væri ekki kleift að standa undir svo háum útflutningsgjöldum með öðru móti en að verulegur hluti þeirra rynni beint til greiðslu á rekstrarútgjöldum fiskiskipanna, en eins og kunnugt er, ganga 3.72% af útflutningsgjaldinu, eða við það helmingur, til greiðslu vátryggingariðgjalda samkv. reglum, er sjútvmrn. hefur sett. Útvegsmenn höfðu og hafa fullan skilning á þörf aukinna tekna til stofnlánasjóða sjávarútvegsins. Það verður því annað meginverkefni þeirrar nefndar, sem hér er lagt til að skipuð verði, að kanna leiðir og benda á tekjustofna til eflingar stofnlánasjóðum sjávarútvegsins.

Í lögum nr. 17 frá 10. febr. 1953, um Framkvæmdabanka Íslands, segir svo í 2. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Hlutverk bankans er að efla atvinnulíf og velmegun íslenzku þjóðarinnar með því að beita sér fyrir arðvæntegum framkvæmdum, sem gagnlegar eru þjóðarbúinu, og styðja þær. Skal starfsemi bankans í meginatriðum miðuð við það að stuðla að auknum afköstum í framleiðslu og dreifingu.“

Eins og sjá má af þessu, er hlutverk banka þessa mjög víðtækt, og hafa ýmsar stórframkvæmdir og verksmiðjubyggingar notið stuðnings bankans. En frá stofnun hans og til ársloka 1962 voru lánveitingar til fiskveiða og vinnslu fiskafurða 13.95% af heildarlánveitingum bankans. Ef við tökum með lánveitingar til hafnarframkvæmda, sem óbeint er hægt að segja að þjóni því hlutverki, sem hér um ræðir, þá nema lánveitingar til þessara hluta 15.25% af heildarlánveitingum bankans. Ekki er sundurliðað í reikningum bankans 1962, hve háar fjárhæðir af þessu eru enn þá útistandandi hjá sjávarútveginum.

Fiskimálasjóður var stofnaður með lögum nr. 89 5. júní 1947. Sjóðurinn tók við eignum fiskimálanefndar, er stofnuð var með lögum nr. 75 31. des. 1937 og með breytingum frá 1948, og tók hann að nokkru leyti við verkefnum fiskimálanefndar, en hefur sínar tekjur af útflutningsgjaldi sjávarafurða. Hlutverk sjóðsins er, eins og segir í 4. gr. l. frá 1947, með leyfi hæstv. forseta:

„Fiskimálasjóður veitir styrki til: a) hafrannsókna, b) rannsókna á fiskigöngum og fiskistofnum, c) tilrauna til að veiða með nýjum aðferðum eða nýjum veiðarfærum, d) tilrauna við verkun og vinnslu sjávarafurða, e) markaðsleitar fyrir sjávarafurðir, f) annarra rannsókna og nýjunga í þarfir sjávarútvegsins. Öll styrktarstarfsemi sjóðsins skal vera í samráði við ríkisstjórnina.“

Auk þessa hefur hv. Alþ. samþykkt lög, þar sem ákveðið er, að sjóðurinn greiði 1/3 hluta kostnaðar við síldarleit úr lofti yfir Norður- og Austurlandi, og einnig samþykkti hv. Alþ. með lögum nr. 97 18. des. 1961, að sjóðurinn greiði kostnað af rekstri verðlagsráðs sjávarútvegsins. Varðandi lánveitingu úr sjóðnum segir svo í 5. gr. l. frá 1947, með leyfi hæstv. forseta:

„Fiskimálasjóður má veita viðbótarlán gegn síðari veðrétti til stofnunar alls konar fyrirtækja, er horfa til eflingar fiskveiðum og hagnýtingu sjávarafurða, og séu lán þessi einkum veitt til þeirra staða, þar sem er tilfinnanleg vöntun slikra fyrirtækja, en lítið fjármagn fyrir hendi. Hvert þessara lána má ekki fara fram úr 25% af stofnkostnaði fyrirtækisins og ekki að viðbættum lánum með betra veðrétti nema meiru en 85% af stofnkostnaði. Engin lánveiting má nema yfir 150 þús. kr. Lánskjörin séu þau sömu og hjá Fiskveiðasjóði Íslands.“

Upphæð hámarkslánsins var breytt með lögum 6. apríl 1962 í 400 þús. kr. Sjóðurinn átti útistandandi lán hjá ýmsum fyrirtækjum sjávarútvegsins í árslok 1962 um 37.7 millj. kr.

Ég hef nú að nokkru rakið, hvernig mál þessi standa hjá sjóðum þeim, sem lögum samkv. hafa heimild til að veita sjávarútveginum stofnlán. En þó að það liggi ekki fyrir, hve háum fjárhæðum stofnlán sjávarútvegsins nema í öðrum stofnunum, viðskiptabönkum svo og atvinnuleysistryggingasjóði, ýmsum lífeyrissjóðum og víðar, þá er það fullvíst, að upphæðir þessar eru mjög háar.

Eins og segir í grg., vakir það fyrir flm. till. þessarar, að athugun fari fram á eðlilegri aukningu stofnlána til eflingar og breytinga á vinnutilhögun hjá þessum undirstöðuatvinnuvegi landsmanna og jafnframt girða fyrir, að óumsamdar lausaskuldir verði sjávarútveginum fjötur um fót, eins og komið var, þegar lögin um heimild stofnlánadeildar sjávarútvegsins við Landsbanka Íslands til að opna nýja lánaflokka voru sett samkv. lögum nr. 48 29. marz 1961.

Í öðru lagi vakir það fyrir flm., að athugaðir verði möguleikar á því, hvort það væri ekki hagkvæmara að færa saman starfsemi þessara stofnana að því er lánveitingar til sjávarútvegsins snertir, og vitna ég hér til þess, er í grg. segir um þetta atriði. Ég tel, að ef þessi skipan kemst á, þá yrði það eðlileg vinnutilhögun, að aðrir sjóðir, er nú veita stofnlán til sjávarútvegsins, haldi því áfram, á þann hátt annað tveggja að veita hinni nýju stofnun lán í stærri stíl eða að lánveitingar yrðu framkvæmdar í samráði við væntanlega stjórn. Þetta tel ég vera hliðstætt framkvæmd lána til húsnæðismála. En ganga verður út frá því, að sú stjórn eða sá aðili, sem kæmi til með að annast það hlutverk, sem hér er hugsað, komi til með að hafa þá yfirsýn, hvað fjárhagsgeta þjóðarinnar leyfir í þessum efnum, og þá einnig, hvar framkvæmdanna er mest þörf hverju sinni, einnig að lánveitingum verði hagað þannig, að umráðaaðilum vinnslustöðvanna, verksmiðjanna, veiðiskipanna eða vegna aukningar og endurbóta á iðjuverum verði gert kleift að ljúka framkvæmdum á eðlilegum tíma til hagsbóta fyrir alla aðila. Fyrirkomulag það, sem hér er hugsað, mundi verða mjög til hagræðis fyrir þá aðila, sem í framkvæmdir þurfa og vilja ráðast af þessu tagi, og jafnframt auka öryggi þeirra, því að þeir, sem á annað borð þurfa að leita eftir lánsfé, en það eru flestir, ef ekki allir, sem þennan atvinnuveg stunda, yrðu að leita eftir því fyrir fram, hvaða lánsmöguleikar væru fyrir hendi, og mundu þá haga sér eftir því.

Ég tel, að sú skipulagsbreyting, er ég hef hér talað um, sé hliðstæð breytingu þeirri, er gerð var á lánasjóðum landbúnaðarins á s.l. ári. Ef hv. Alþ. fellst á tillögu þá, sem ég hef hér reifað, teldi ég eðlilegt, að þær 4 stofnanir, sem ég hef rætt um hér á undan, kæmu til með að eiga fulltrúa í nefnd þeirri, er athugaði þessi mál, þótt að sjálfsögðu ráði ég engu þar um.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu, en legg til, að þáltill. á þskj. 103 verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og allshn.