22.04.1964
Sameinað þing: 68. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í D-deild Alþingistíðinda. (2431)

90. mál, stofnlánasjóðir sjávarútvegsins

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til athugunar þessa till., sem flutt er af hv. 7. landsk. þm., um athugun á sem hagkvæmastri skipan og um aukningu stofnlánasjóða sjávarútvegsins, og hefur n, leitað umsagna frá allmörgum aðilum, sem um stofnlán sjávarútvegsins hafa fjallað, svo sem Framkvæmdabanka Íslands, Seðlabanka Íslands, fiskimálasjóði, Fiskveiðasjóði Íslands og enn fremur hjá sölusamtökum útvegsins og Landssambandi ísl. útvegsmanna. Öl1 sölusamtök útvegsins og L.Í.Ú. og fiskimálasjóður mæla einróma með samþykkt till., og Seðlabankinn og Framkvæmdabankinn mæla einnig með því, að till. verði samþykkt, en gera báðir nokkrar aths. við stofnlán útvegsins almennt og framkvæmd þeirra, en fiskveiðasjóður lýsir yfir í sinni umsögn, að hann hafi fyrir sitt leyti ekkert á móti því, að umrædd athugun fari fram, en bendir á nauðsyn þess, að fiskveiðasjóður fái aukið fjármagn til umráða.

Það er einróma álit allshn. að leggja til, að till. verði samþ. óbreytt og að sú athugun fari fram, sem till. gerir ráð fyrir, en það er að rannsaka möguleika á auknum stofnlánum til sjávarútvegsins til þess að tryggja eðlilega uppbyggingu og fjárfestingu í þessari mikilvægustu framleiðslugrein þjóðarinnar, og jafnframt að láta fara fram athugun á sem hagkvæmastri skipan með samræmdri eða sameinaðri starfsemi stofnana þeirra, sem veita stofnlán til sjávarútvegsins.

Eins og fram kemur í aths. Framkvæmdabankans i umsögn um till. og sömuleiðis í aths. Seðlabanka Íslands, þá benda þessir aðilar á það, að stofnlán til skipabygginga séu mikil og hafi verið örugg, því að eins og hv. þm. er sjálfsagt öllum kunnugt, lánar fiskveiðasjóður 75% af byggingarkostnaði skipa, sem byggð eru innanlands, og 2/3 af byggingarkostnaði skipa, sem byggð eru erlendis. Hins vegar er rétt, að það komi hér fram, sem er auðvitað það, sem mikið hefur verið rætt um af fjölmörgum aðilum, að ýmsar aðrar greinar sjávarútvegsins njóta ekki nándar nærri sömu fyrirgreiðslu, svo sem bygging og uppbygging hinna almennu fiskvinnslustöðva í landinu. Bæði frystihús og saltfiskverkunarhús og yfirleitt allar aðrar tegundir fiskverkunarstöðva, þær njóta ekki neitt nálægt því sömu fyrirgreiðslu um stofnlán og hafa því orðið mjög undir, og þessa starfsemi hefur mjög skort stofnlán til sinnar uppbyggingar. En eins og öllum hlýtur auðvitað að vera ljóst, þá er ekki síður nauðsynlegt að byggja upp starfrækslu til þess að vinna úr sjávarafla í landi, ekki síður en að sækja aflann í sjó, með uppbyggingu þá taflotans. Og sömuleiðis er eitt, sem er mjög alvarlega á eftir hjá okkur, og það er að sýna aukinn og betri skilning fyrir öllum nýmælum á sviði sjávarútvegs, öllu því, sem getur orðið til þess að nýta betur framleiðsluverðmæti, sem á land kemur, og auka verðmæti þess í útflutningi og þar með stuðla að auknum útflutningstekjum þjóðarinnar. Eitt af því, sem hefur mjög orðið á eftir, eru öll slík nýmæli, eins og t.d. niðursuðuverksmiðjur og annað slíkt, sem getur gert það að verkum, að við getum hagnýtt á miklu betri hátt okkar útflutningsafurðir og gert þær verðmætari fyrir þjóðarbúskapinn en nú er.

Okkur er ljóst, að margar af okkar útflutningsafurðum eru seldar úr landi lítt eða ekki unnar, og það eru möguleikar á því, með því að taka upp skynsamlega fjárfestingarstefnu, að auka og efla útflutningsverðmæti þessara afurða, möguleikar á því allt að því að þrefalda verðmæti sumra þessara afurða frá því , sem nú er.

Allshn. telur, að þessi till. sé nauðsynleg, að þessi athugun fari fram á því, hvaða möguleikar eru á því að auka stofnlán til sjávarútvegsins og þá um leið jafna stofnlánin á milli hinna einstöku greina sjávarútvegsins. Þá er, eins og annar höfuðþáttur í till. hv. 7. landsk. mælir fyrir um, rétt að athuga það, hvort ekki sé réttara að sameina eitthvað þessa stofnlánasjóði sjávarútvegsins og hvort það mundi verða hagkvæmara í framkvæmd og betra, þegar fram í sækti. Þess vegna mælir allshn. einróma með samþykkt þessarar till. og telur hana geta orðið mjög gagnlega fyrir áframhaldandi þróun íslenzks sjávarútvegs, sérstaklega með því að jafna stofnlánin á milli hinna einstöku greina innan sjávarútvegsins.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð og vænti þess, að þessu áliti allshn. á till. verði almennt vel tekið af hv. þingmönnum.